07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. Ísaf. (HG) hjelt að við, hv. 1. þm. S.-M. og jeg, værum úrillir af því við hefðum farið snemma á fætur. Þetta sýnir ljóslega það, sem orð leikur á, að hann er sjálfur allóvanur að fara á fætur fyrir hádegi, úr því honum finst menn endilega þurfa að vera úrillir undir hádegi.

Hann hjelt því fram, að misþyrmingum þyrfti að fylgja áverki. Þetta er mesti misskilningur í 204. gr. hegningarlaganna er einmitt talað um misþyrmingar, sem ekki fylgi áverki. Jeg skil ekki í að nokkur dómari verði í vafa um, að það sje misþyrming, er kennari heldur barni steinbítstaki með annari hendi, en ber það með hinni. Það er ekki efi á, að þetta er misþyrming og frv. kemur ekki nærri þessu tilfelli.

Það hlýtur að vera meiningin með þessu frv., að það sje alment hjá kennarastjett landsins að beita líkamlegum refsingum. En jeg trúi ekki að svo sje. Og þó svo væri, þá þyrfti ekki neina nýja refsilöggjöf vegna þess. Það má eins nota þau lög, sem til eru. Jeg ímynda mjer, að það hafi einungis verið af hlífð við hinn umrædda kennara, að hann var ekki kærður. Hv. flm. kvaðst ekki vilja bera annað í bætifláka fyrir hann en það, að þetta væri alment á meðal kennarastjettarinnar. En það afsakar hann alls ekki, þó svo kynni að vera, sem jeg þó ekki held.

Frv. er alveg þýðingarlaust við hliðina á hegningarlögunum, því refsingar þess eru fyrir neðan refsingar þær, er þar eru ákveðnar. Það gæti haft þýðingu, að því er snertir foreldra, en um það hefir engin bending komið, að þess væri þörf þeirra vegna. Þótt jeg að vísu sje ekki sömu skoðunar og hv. þm. Ísaf. um það, að snoppungur á barn geti gert gagn, heldur þvert á móti, þá sje jeg samt ekki ástæðu til að láta það varða hegningu, þótt foreldrum verði það á.