07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer finst gott, að frv. þetta er komið fram, ekki að því er snertir ákvæði þess um heimilin, heldur skólana.

Um heimilin hygg jeg, að ekki sje hægt að setja slíka löggjöf. Bæði er það, að einstaka börn eru svo gerð, að þau hlýða ekki á unga aldri, nema fyrir einhverskonar þvingun, og aðallega þó vegna hins, að lögin verða þar óframkvæmanleg. Þar verður að láta sjer nægja með hegningarlögin og að reyna að ná tilganginum um afnám líkamlegra refsinga með áhrifum á hugsunarhátt almennings.

Hitt hygg jeg rjett, að setja lögbann við líkamlegum refsingum í skólum. Jeg get tekið undir með þeim, er talað hafa um, að líkamlegar refsingar geti haft tilætluð áhrif. Jeg kynni sjálfur að segja sögur af því. En hin tilfellin hygg jeg þó fleiri, að líkamleg refsing hefir ekki tilætluð, heldur gagnstæð áhrif. Það er örðugt fyrir kennara, sem beitir líkamlegri refsingu, að setja upp rólegan svip dómarans. Flest afbrot, sem hegna þarf fyrir, eru gegn kennaranum sjálfum. Kennarinn er alt í senn: sakaraðili, dómari og sá, er framkvæmir refsinguna. Það er því ekki að undra, þó sú tilfinning verði á stundum efst í huga barnanna, að hjer sje ekki um hegning að ræða, heldur hefnd. Líkamlegar refsingar í skólum verða því oft til að slíta hið nauðsynlega trúnaðarsamband, sem þarf að vera milli kennara og nemenda. Það er minni áhætta að banna algerlega líkamlegar refsingar í skólum, heldur en að leyfa þær, og er þó hvorug áhættan stór, eins og ástatt er hjá oss. Skólar hafa líka yfirleitt yfir ýmsum refsingum að ráða, er komið geta í stað þeirra.

Slíkt bann, sem hjer um ræðir, er ekki fágætt meðal annara þjóða. Mjer er kunnugt um, að Rússar hafa sett hjá sjer algert bann við líkamlegum refsingum barna og unglinga. Í flestum löndum öðrum gildir að vísu ekki algert bann, en þar hafa skólahjeruðin heimild til að setja sjer sjerstakar reglur um refsingar. Og í ýmsum skólahjeruðum, sem eru mannfleiri en alt Ísland, ríkir ýmist algert bann gegn líkamlegum refsingum, eða þá að beiting þeirra er takmörkuð við hýðingar, sem framkvæmdar eru í viðurvist skólastjóra, eða af honum einum, að vel athuguðu máli. Það er því enginn skortur á erlendum fordæmum. Englendingar hafa t. d. þá aðferð, að binda rjettinn til refsinga við einn mann, t. d. skólastjórann. Það hefir þann kost, að hegningin líkist meira dómi, og er síður hætt við, að hefndartilfinningar blandist inn í. En það getur líka haft sína ókosti, t. d. varð skólameistarinn á Eton eitt sinn að hýða 40 stráka á einum degi!

Jeg held, að það verði ekki önnur regla betri hjer á landi en að banna allar líkamlegar refsingar í skólum og leggja tiltekna hegningu við, ef út af er brugðið, eða þá að banna allar líkamlegar refsingar í kenslustundum og barsmíði á höfuðið, en heimila hýðingu í alvarlegum tilfellum, sem framkvæmd sje að rannsökuðu máli á ábyrgð skólastjóra. Og raunar held jeg að í sama stað komi niður, hver aðferðin yrði höfð hjer á landi, algert bann eða hýðingar í því formi, sem jeg hefi hjer lýst, því þær tíðkast hjer ekki og mundu vart verða upp teknar, þótt heimilaðar væri.

Jeg er ekki sammála um þær hegningar, sem við brotum eru lagðar í frv., en það atriði má ræða í nefnd. En það er ekki að óttast, að það verði til að setja skrælingjamark á okkur, þó að við tökum í lög bann gegn líkamlegum refsingum eða takmarkanir á þeim. Það er ekki vegna þess, að slíkar refsingar sjeu algengar, eða til að forða börnum frá bráðum bana, að jeg álít rjett að lögtaka slíkt bann. Vil jeg í því sambandi mótmæla þeim orðum hv. flm., að alvarleg tilfelli slíkra refsinga sjeu algeng í ísl. skólum. Jeg veit ekki til, að slík tilfelli sjeu algeng. Hitt veit jeg, að líkamlegar refsingar þekkjast og er einstaka sinnum beitt. Það eru að vísu margir kennarar, er aldrei beita þeim og margir, er beita þeim afarsjaldan, en það hafa þó verið til skannns tíma kennarar, jafnvel hjer í höfuðstaðnum, er lögðu það í vana sinn að beita líkamlegum refsingum og það daglega. Það vita allir, að slíkt hefir átt sjer stað hjer í höfuðstaðnum. En þetta á sjer ekki stað um þá kennara, er starfa hjer í bæ nú, það jeg til veit.

Það er bæði vegna nemenda og kennara, að jeg tel rjett að banna líkamlegar refsingar í skólum. Vegna kennaranna tel jeg það rjett, því komi upp kærumál út úr slíku, þá er hætt við að kröfur almennings um refsingu kennarans verði óhæfilegar, ef refsingarákvæði er ekki áður til. Múgurinn ratar sjaldan meðalhófið, og vernd við einn getur snúist upp í grimd gagnvart öðrum. Því má það vera áhugamál kennara, að fá ákveðnar reglur um, hvernig með slíkar sakir verði farið.

Frá sjónarmiði allra ætti það að vera heppilegasta úrlausnin að banna líkamlegar refsingar með öllu eða setja fastar reglur um beiting þeirra, og leggja við hegningu, ef út af er brugðið. Væri æskilegt að fá löggjöf um það upp úr þeim umr., er staðið hafa yfir á síðasta vetri um slíka hluti.