07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Magnús Guðmundsson:

Út af ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann álíti, að vegna kennarastjettarinnar sje þörf slíkrar löggjafar sem þessarar. Það getur haft mikil áhrif á aðstöðu mína til þessa máls. Jeg hefði álitið, að það væri nægilegt, að fræðslumálastjóri sendi umboðsbrjef til kennara, þar sem þeim væri uppálagt að beita ekki líkamlegum refsingum við börn. Jeg hjó eftir því, að hv. þm. sagði, að hjer í Reykjavík hefði verið kennari, sem beitt hefði líkamlegum refsingum við börn þau, er hann hafði undir hendi. Jeg minnist þess að svo var, enda vakti það mikið umtal í bænum, og menn álitu, að þessum kennara ætti að víkja frá, en af hlífð var það ekki gert. Þetta mun vera einsdæmi, en ef fleiri kennarar beittu slíkum aga, þyrfti að koma í veg fyrir það.

Hv. flm. hefi jeg í rauninni fáu að svara, en það var eins og hann hefði gleymt, að til eru fleiri greinir í hegningarlögunum en § 204, sem jeg las hjer upp í morgun. Það er engum vafa undirorpið, að brot þess kennara, sem hjer hefir verið mest um rætt, heyrir undir þá grein. Hv. þm. vildi halda því fram, að þetta væri pólitísk ofsókn á hendur kennaranum, þar eð bæjarstjórnarkosningar hefðu staðið fyrir dyrum. Jeg þykist samt hafa ástæðu til að halda, að hv. flm. fari þarna villur vegar, enda ber skýrsla kennarans sjálfs það með sjer, að ekki hefir verið að ræða um neina pólitíska ofsókn á hendur honum, heldur rjettmætar kröfur foreldra þeirra barna, sem urðu fyrir barsmíðum hjá þessum kennara. Þá mintist hv. þm. á misþyrmingarmál úr Skagafirði. Það mál var rannsakað og dæmt af dómstólunum, en mörgum virtist dómurinn of vægur. Hygg jeg, að það hafi orsakast af ýktum blaðafregnum, sem borist höfðu um mál þetta, og að það hafi ekki verið eins svívirðilegt og frá hefir verið skýrt, þótt jeg vilji ekki mæla því bót að neinu leyti. Það er ennfremur ekki rjett hjá hv. þm., að almenningsálitið sje á undan lögunum. Því til sönnunar mun jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp § 202 í hegningarlögunum, sem hljóðar svo: „Hver, sem veður upp á annan mann með höggum og barsmíði eða öðru líkamlegu ofbeldi, en veitir honum samt ekki áverka eða annan skaða, skal gjalda sektir, ef sá, er misgert er við, höfðar mál og krefst þess; þó má beita fangelsishegningu eftir málavöxtum, einkum ef ofbeldið hefir verið fyrirhugað“. Það er enginn efi á því, að afbrot kennara geta heimfærst undir þessa grein.