07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Dal. kvað kæruna gegn barnaskólastjóranum á Akureyri ekki vera af pólitískum rótum runna. Jeg vil þó minna hann á, að kæruskjalið var fjölritað og borið í hvert hús á Akureyri daginn fyrir kjördag. (BSt: Það var einskonar svar til „Verkamannsins“, sem fyrst hreyfði þessu máli.). Það er ljóst af greinum þeim, sem skólastjórinn hefir skrifað um málið, að hann hefir viðhafi þennan sið í mörg ár. Hvernig stendur á því, að „föðurhjartað“ komst ekki við fyr en þetta?

Kæran gegn skólastjóranum er af pólitískum toga spunnin og engu öðru, og stendur í sambandi við kosningarnar. Það er síður en svo, að jeg sje að mæla alhæfi skólastjórans bót. En almenningur hlýtur að draga þá ályktun af þessu máli, að hægt sje að flæma menn úr embætti, ef saksókn er hafin, þótt margir aðrir sitji kyrrir, sem gert hafa hið sama.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) segir, að ástæða sje til að banna, að kennarar beiti líkamlegum refsingum, en hann vill láta gera það með umburðarbrjefum! Auk þess segir hann, að viðurlög sjeu við slíku í 202 gr. hegningarlaganna. En þar segir svo: „Hver sem veður upp á mann með höggum og barsmíðum eða öðru líkamlegu ofbeldi“ o. s. frv. Jeg held nú, að hv. 1. þm. Skagf. sje altof vel að sjer í lögum til þess að halda, að það sje kallað að „vaða upp á menn með höggum og barsmíðum“, þó að kennari klipi í eyru eða gefi löðrung, eða móðir veiti barni sínu ráðningu, t. d. flengi það.

Hv. þm. Barð. var fullur af mildi og mannúð, eins og hann er vanur. Gekk hann svo langt, að hann vildi láta banna snoppunga, en taldi hinsvegar hýðingar geta komið að góðu haldi. Skal jeg lofa honum að hafa sínar skoðanir um þau efni í friði. En jeg vildi minnast lítið eitt á dagskrá hans. Dagskráin er í tveim hlutum, og er tekið fram í fyrri hlutanum, að mannúðin sje orðin svo rík, að ekki sje þörf á lagasetningu um þetta efni. En í seinni hlutanum er vikið að máli, sem er algerlega óviðkomandi frv., en hann og aðrir íhaldsmenn hafa talið að sýndi einmitt afskaplegt mannúðarleysi og harðýðgi.

Jeg vil enn benda hv. þm. á, að þrátt fyrir allar æsingar íhaldsblaðanna út af máli barnaskólastjórans á Akureyri, hefir ekki tekist að fá hann dæmdan. Finst hv. þm. þetta sönnun fyrir þeirri staðhæfingu, að mannúðin sje orðin svo rík, að ekki sje þörf á lagasetningu? Að mínu áliti ætti seinni hl. dagskrárinnar alls ekki að berast undir atkv. Hann er hrein vitleysa. Þar segir, að það, sem gerðist á Akureyri, heyri undir annan vettvang en Alþingi. Jeg hefi ekki heyrt svo til orða tekið áður. Má vera, að hjer sje um nýsmíði á máli að ræða. Jeg kannast ekki við það orðatiltæki „að heyra undir vettvang“. En út í það skal jeg ekki fara nánar. Jeg verð að líta svo á, að það sje til hneisu fyrir deildina, ef dagskráin verður samþ.