04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

51. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Sigurður Eggerz):

Þetta mál hefir, því miður, átt örðugt uppdráttar hjer í þinginu. Í fyrra var það felt hjer í Nd. vegna þeirra sjerstöku óhappa, að menn, sem voru málinu hlyntir, voru fjarstaddir, er atkvgr. fór fram. Jeg hefi nú ásamt 5 öðrum hv. þdm. borið fram frv. þetta í sama formi og það var í síðast, er það var felt. Og þótt við sjeum allir sammála um þörfina fyrir framgang þessa frv., þá vil jeg þó geta þess, að jeg mæli hjer fyrir minn reikning. Lög um þetta efni eru frá 1912, en voru endurbætt 1919. Eftir l. frá 1912 er bæjar- og sýslusjóðum gert að skyldu að greiða laun yfirsetukvenna, en 1. frá 1919 breyta þessu þannig, að bæjarfjelög greiða öll laun sinna yfirsetukvenna. En í sýslunum greiðir ríkissjóður helming og sýslusjóður hinn helminginn. Við þetta hefir svo setið, að undanteknu því, að samviskan rumskaði einu sinni ofurlítið, þar sem hv. 1. þm. N.-M. bar fram till. um það, að ríkið greiddi dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna. Fylgdi áskorun til sýslunefnda og bæjarstjórna um að gera slíkt hið sama.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að laun yfirsetukvenna skuli greidd úr bæjarsjóði í kaupstöðum, en í sveituni að 1/3 úr sýslusjóði og 2/3 úr ríkissjóði, og fylgi dýrtíðaruppbót. Aðalatriðið í þessu máli er nú vitanlega það, hvort ástæða sje til þess að hækka laun þessara starfsmanna með tilliti til þess, hvaða þýðingu það hefir fyrir ríkið, að þeim geti liðið viðunanlega.

Launin nú eru 200 kr. þar, sem 300 íbúar eru eða færri. Fara svo hækkandi um 10 kr. fyrir hverja 5 tugi manna, en geta hæst orðið 1000 kr. — Nú vil jeg bera fram þá spurningu: Er ástæða til að hækka þessi laun?

Sem svar við þeirri spurningu má fyrst geta þess, að nú eru um 30 umdæmi, sem lærðar yfirsetukonur hafa ekki fengist í. Þetta sýnir það, að launin eru svo smánarlega lág, að ekki er hægt að fá efnilegar konur í þetta starf, einkum í hin minstu og afskektustu umdæmi. En þá er spurningin, hvort á að vera að hugsa um þau. Mannúðin segir hiklaust, að svo skuli gera og að mannslífin sjeu eins mikils virði í þessum fátæku og fámennu hjeruðum. Og mannúðin segir, að ekki þurfi hvað síst að muna eftir þeim hjeruðum, sem oft hafa hvorki síma nje lækni og eru allslaus og yfirgefin. Að neita þeim um alt þetta, er að ýta þeim út fyrir menninguna. Ekki ætti að þurfa að tala í bænartón til þess að fá umbætur eins og þær, sem hjer er um að ræða. Nei, það á heimta þær, svo þessari menningar- og mannúðarkröfu verði fullnægt, að yfirsetukonur fáist í öll umdæmin. Hvernig er hægt að búast við því, að sótt sje eftir þessum stöðum, sem gefa 200 kr. laun, þegar stúlkur hjer í Reykjavík fá um 600 kr. árslaun. Yfirsetukonur verða þó fyrst að stunda nám, sem kostar þær 600 kr. úr eigin vasa. Og svo fá þær í þessari þörfu og ábyrgðarmiklu þjónustu fyrir þjóðfjelagið 200 kr. á ári — aðeins 200 kr. Það er ekki von, að þær sjeu sólgnar í þessa stöðu. Sumir hreppar hafa líka skotið saman fje til að tryggja sjer yfirsetukonu. Og mörgum helstu læknum ofbýður vanræksla Alþingis að bæta launakjör þeirra svo, að yfirsetukonur fáist í öll hjeruð. Jeg vil því fastlega vona, að þessi hv. deild láti það ekki koma fyrir oftar, að hún hindri framgang þessa máls.

Um leið og launin verða hækkuð, má líka gera meiri kröfur til náms yfirsetukvenna. Hjer eru haldin námskeið, og geta því eldri yfirsetukonur ávalt haft tækifæri til að fylgjast með í öllum nýjungum á þessu sviði. Með núverandi launum er ekki hægt að ætlast til slíks. Þetta er eins nauðsynlegt eins og t. d. að læknar fari til útlanda. Þessi hækkun, sem hjer er farið fram á, er sú, að lágmarkslaun sjeu 300 kr., en eru hækkuð eftir 12 ára starf í 500 kr. í bæjum geta þau komist upp í 1500 kr. hæst, eftir vissum reglum, sem nánara er tekið fram í frv.

Eins og jeg tók fram, er hin knýjandi þörf á þessum breytingum aðallega vegna þess, að hin afskektari og mannfærri hjeruð verða nú útundan. Þar við bætist, að yfirsetukonur í þeim hjeruðum hafa svo að segja ekkert að gera. En jeg hefi ekkert á móti því, að þeim væru lagðar á herðar einhverjar fleiri skyldur en nú; mætti t. d. skylda þær til að vera lengri tíma hjá sængurkonum, jafnvel alt að viku.

Jeg skal nú ekki þreyta hv. deild á lengri ræðu um þetta frv. Þó að sumum kunni að þykja þetta lítilfjörlegt mál, þá tel jeg það í eðli sínu stórt og alvarlegt. Hvergi í víðri veröld eru kjör yfirsetukvenna jafnbágborin.

Vera má, að fyrsta ástæðan til þess, að þetta mál á svo örðugt uppdráttar hjer í þessari hv. deild, sje sá gamli og grátlegi misskilningur, að konum eigi ávalt að launa ver en karlmönnum, og það þó að þær vinni nákvæmlega sömu störf. Jafnvel þó að konur hafi hlotið fullkomið jafnrjetti við karlmenn, eimir enn eftir af þessu hróplega ranglæti. Og jeg er satt að segja alveg forviða á því, að hin íslenska kvenþjóð skuli ekki einum rómi mótmæla þvílíkum ójöfnuði.