04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

51. mál, yfirsetukvennalög

Hannes Jónsson:

Hv. flm. þessa frv. hefir nú haldið langa ræðu og af mikilli tilfinningu. Og jeg býst satt að segja við, eftir því sem mál þetta er vaxið, að hann kjósi fremur að ræða það með tilfinningu en rökum, af því hann mun hafa fundið sig vanfæran til þess að beita rökum í málinu. Mjer kemur mjög einkennilega fyrir sjónir, á hvaða grundvelli mál þetta er flutt. Mjer virtist hv. flm. ætla að telja mönnum trú um, að frv. ætti að hjálpa þeim hjerðum, sem afskekt eru og hafa fáa íbúa, en jeg sje ekki betur en að launahækkunin samkv. frv. gangi lengra í þeim hjeruðum, sem hafa marga íbúa. Sýnist mjer það nokkuð öfugt að farið, því að þar eru aukatekjur vitanlega meiri. Mjer hafa tjáð kunnugir menn, að hjer í Reykjavík muni yfirsetukonum jafnaðarlega ekki greidd öllu lægri upphæð en 50–80 kr. fyrir hvert barn, sem þær taka á móti, og að þær yrðu ekkert hissa, þó að þeim væri boðnar 100–150 kr.

Ef hv. flm. hefði það fyrst og fremst fyrir augum, að engin hjeruð yrðu yfirsetukonulaus, þá hefði hann átt að hækka mest launin í afskektustu hjeruðunum.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir rjettilega bent á það, að laun yfirsetukvenna væru ekki lægri en annara sambærilegra starfsmanna í sveitunum. Þó hefir ennþá ekki fundist nein fær leið til að bæta kjör þeirra. Hv. þm. N.-Ísf. nefndi hreppsnefndaroddvitana, en jeg veit, að líkt stendur á um ýmsa aðra, t. d. hreppstjóra og skattanefndarmenn í sveitum, og mætti lengi halda áfram að telja svo. Niðurstaðan er ávalt sú að opinber skyldustörf í sveitum eru lakar launuð en algeng vinna, og miklu lakar en verkin eru verð. — Væri nú sýnilegur sá tilgangur í frv., að yfirsetukonur fengjust í öll umdæmi landsins, þá mundi jeg telja álitamál, hvort eigi bæri að fylgja því áfram í einhverri mynd. En það er bert, að frv. er fyrst og fremst sniðið til þess að hækka laun þeirra yfirsetukvenna, sem síst þurfa þess með.

Jeg mun því greiða atkv. gegn frv. þegar við þessa umr.