07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

51. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Á undanförnum þingum hafa verið flutt frv. í svipaða átt og þetta. Þau hafa hlotið misjafnar viðtökur, en yfirleitt má segja hv. Ed. til hróss, að meiri hl. hennar hefir jafnan verið með þeim. Hinsvegar hefir hv. Nd. ekki brugðist eins vel við þeim. En nú hefir Nd. með miklum atkvæðamun afgr. þetta frv. til Ed. En það lítur út fyrir, að Adam eigi ekki að vera lengi í Paradís, því að nú koma brtt. frá hæstv. fjmrh., sem rýra svo mjög gildi frv., að það verður lítils virði, ef þær verða samþ., og bæturnar hálfgerðar smánarbætur. Mjer finst, að ekki hefði átt að einblína á flísina hjá þessum starfskonum, þar sem maður er altaf að reka augun í ýmsa bjálka á sviði fjármálanna annarsstaðar. Jeg ætla ekki að endurtaka þau rök, sem færð hafa verið fyrir þessu máli, bæði á undanförnum þingum og í Nd. Jeg vil aðeins leggja áherslu á, að ljósmæðurnar hjer eru lægra launaðar en flestar aðrar stjettir þjóðfjelagsins. Hæstv. ráðh. gat bara nefnt tvær stjettir, sem væru jafnlágt launaðar. Jeg játa fúslega, að hæstv. ráðh. hefir á rjettu að standa hvað það snertir, enda er ástæða til að bæta kjör þeirra. En þótt einstöku starfsmenn kunni að vera lakar launaðir en ljósmæðurnar, er þar fyrir engin ástæða til að draga að bæta úr launakjörum þessara kvenna. Þó að miðað sje við til dæmis vinnukonur eða lausakonur, þolir það engan samanburð, hvað þær eru miklu betur launaðar en yfirsetukonurnar. Eftir að þær eru búnar að eyða miklum tíma og fje til náms, fá þær 200 króna laun á ári, hækkandi í 15 ár upp í 275 krónur, og fyrir 2 árum var veitt hálf dýrtíðaruppbót á þessa lágu upphæð, svo að hún varð eitthvað rúmar 300 krónur. Þetta eru sældarkjör ljósmæðranna.

Það þýðir ekkert að slá því fram, að ljósmóðurstörfin sjeu aukastörf. Hjer er um stöðu að ræða, þar sem konurnar eru alment mjög bundnar. Margar þeirra eru ógiftar og alveg einskorðaðar við það umdæmi, sem þær þjóna, og eiga því ekki kost á að leita sjer jafnarðvænlegrar atvinnu og aðrar konur. Þær geta í hæsta lagi gripið til kaupavinnu tíma og tíma á sumri, en allir sjá, að það er ekki arðvænlegt. Það má því ekki halda því fram, að hjer sje aðeins um aukastörf að ræða.

Jeg vil taka það fram, að nú eru 30 yfirsetukvennaumdæmi laus. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri orðum aukið, en eins og hv. 4. landsk. benti á, er hægt að sanna þetta skjallega. Eftir skýrslum ríkisgjaldanefndarinnar voru 210 ljósmæður á landinu árið 1926; af þeim voru 189 skipaðar, þar af 5 ólærðar. Og síðastliðið sumar var auglýst eftir 5 ljósmæðrum í einu, en engin sótti. Það vill engin kona læra ljósmóðurfræði, þegar hún á í vændum þessi smánarlaun. Afleiðingin verður sú, að starfinu fara að gegna ólærðar konur. En það er ósamboðið hverri menningarþjóð. Þetta er svo vandasamt og ábyrgðarmikið starf, að þó að það kunni að hafa komið fyrir, að ólærðum konum hafi tekist það vel, er mikill ábyrgðarhluti og með öllu ósæmilegt að hafa ekki lærðar ljósmæður.

Hv. 3. landsk. sagði, að hjer væri stigið svo stórt spor og aðrir starfsmenn mundu koma á eftir og heimta það sama. Jeg sje ekki, að hjer sje um svo stórt spor að ræða. Jeg er ekkert hræddur um, að aðrir starfsmenn komi á eftir, neina þá ef til vill hreppstjórar og oddvitar. En af hverju má ekki bæta þeirra kjör?

Hæstv. fjmrh. sagði sem rjett var, að launakjör ljósmæðra hefðu verið ákveðin 1919 um leið og laun embættismanna, og virtist ólíklegt, að þingið hefði gert upp á milli þeirra. Það var nú samt svo. Jeg var í launamálanefndinni og get borið um, að hún tók þetta alls ekki til meðferðar. Enda sjest það best á því, að við laun yfirsetukvennanna var engin dýrtíðaruppbót ákveðin. Þeirra laun stóðu í engu sambandi við laun annara embættismanna ríkisins.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að það væri fylgt fylstu kröfum ljósmæðra, ef frv. yrði samþ. Það er alveg rangt. Jeg skal minna hæstv. ráðh. á það, að þegar þetta frv. kom fram í þeirri mynd, sem ljósmæður fóru fram á, var lágmarkið 400 kr., hækkandi upp í 700 kr. og auk þess eftirlaun. En það þótti ekki fært að bera það fram í þeirri mynd. Þetta er ekki nema helmingurinn af fylstu kröfum ljósmæðra. Jeg verð að segja, að jeg tel brtt. hæstv. fjmrh. varhugaverðar af tveim ástæðum. Fyrst og fremst rýra þær svo mjög þær umbætur, sem farið er fram á, að frv. verður lítils virði, og bæturnar smánarbætur. Þá má og telja það víst, að ef brtt. hæstv. ráðh. verða samþ., þá er frv. strandað á þessu þingi. Ef jafnmiklum breytingum verður hleypt inn, má ganga að því vísu, að nú, þegar svo langt er liðið á þingtímann, muni hv. Nd. ekki afgr. mál, sem svo mikill ágreiningur er um, og jeg hygg, að hæstv. ráðh. muni ekki dyljast, að svo muni fara. Jeg vona því, að aðstaða hv. d. sje sú sama í þessu máli nú og á undanförnum þingum og hún samþ. frv. óbreytt.