06.03.1929
Neðri deild: 15. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Frv. þetta er komið frá stj. og er til að staðfesta samhlj. bráðábirgðal., seni gefin voru út í júlí á síðasta sumri. Ástæðan til, að bráðabirgðalögin voru gefin út, er sú, að ákvæði eldri laga þóttu orka tvímælis, svo að nokkurt ósamræmi var í framkvæmd þeirra.

Fjhn. hefir orðið sammála um að mæla með, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. En þó hafa nokkrir nm. haft nokkra tilhneigingu til að gera þá breyt. á þessum lögum, að hækkaður yrði útflutningstollur á fiskúrgangi, þurkuðum beinum og hausum, og þá í því skyni að vernda þær innlendu verksmiðjur, sem kynnu að vilja kaupa þessar vörur í samkepni við Norðmenn, sem kaupa allmikið af þessum vörum til útflutnings. N. leit þó svo á, að málið væri ekki ennþá svo upplýst, að hún treysti sjer til þess að taka upp þessa till., og hefir því í þetta skifti orðið sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt.

Samkv. rannsókn málsins hefir n. komist að því, að full ástæða sje til að halda, að þeir útlendingar, sem keyptu þessar vörur til útflutnings, hafi beitt beinum svikum um útflutningsgjald þessarar vöru. N. hefir fengið skýrslu, sem hún að svo stöddu ekki þorir að fullyrða, að sje rjett, en samkv. henni eru fluttar út 2000 smál., án þess tollgjald komi af neina 750 smál. Á þessu mætti ráða bót, ef gert væri að skyldu að láta t. d. lögskipaða fiskimatsmenn votta vigt á slíkri útflutningsvöru. Er það skoðun n., að slíkt skipulag þurfi að komast á.

Að öðru leyti hefi jeg ekki önnur skilaboð að færa frá n. En n. væntir þess, að frv. megi ganga áfram og gerir sjer von um, að það geti orðið deilulaust í deildinni.