07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. um, hvort jeg hafi ekki skilið hann rjett að því leyti, að hann hafi tekið ríkissjóðshlutann eins og hann er greiddur nú á þessu ári, og hann hafi látið reikna út dýrtíðaruppbótina eins og allar hefðu hámarkslaun. (Fjmrh.: Nei, eins og þau eru nú). Jeg held, að þá geti þetta ekki orðið eins mikið eins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Ljósmæður eru auðvitað ekki allar á sama stigi hvað laun snertir. Jeg verð að segja, að mjer finst, að tölur hæstv. ráðh. sýni ekki það rjetta í máli þessu.

Þá var annað, sem hæstv. ráðh. vjek að mjer. Hann sagði, að jeg hefði ekki farið rjett með, að það hefði átt að endurskoða launalögin 1925, heldur dýrtíðaruppbótina. En er þetta ekki eitt og hið sama? Er ekki dýrtíðaruppbótin hluti af laununum?

Ef á að endurskoða launalögin yfirleitt á næsta ári, þá hugsa jeg, að breytt verði grundvellinum undir öllum launagreiðslum, og er sennilegt, að því verði ekki lokið á þessu ári. Hvers vegna á þá að bíða með þetta?

Jeg held, að jeg hafi aldrei neitað, að till. hæstv. ráðh. væru til hins betra frá því, sem nú er, en jeg tel þó alveg sjálfsagt, að deildin felli þær, með því líka, að áður hafa verið feldar hliðstæðar till. frá hv. 2. þm. N.-M.

Annað var það ekki sjerstaklega, sem hæstv. ráðh. vjek að mjer. Honum þótti að vísu jeg vilja seilast helst um of niður í ríkissjóðinn. En það er engin dygð, að vilja ekki seilast eftir fje úr ríkissjóði til nytsamlegra hluta.

Mjer skilst, að hæstv. ráðh. hafi játað, að það vantaði ljósmæður í mörg umdæmi, og ennfremur virðist mjer hann frekar styðja mitt mál en sitt með því dæmi, sem hann tók, að ýmsar sveitarstjórnir veldu og kostuðu ljósmæðraefni til náms.

Þó að nógu margar komi í skólann, þá sannar það ekki neitt. Það er svo um námsfólk á öllum sviðum, eins og hæstv. ráðh. benti á, að ýms atvik valda því, að það hverfur frá því, sem það einu sinni hefir hugsað sjer. Eins hygg jeg að sje með þessar stúlkur, margar hverjar. Þær hafa hugsað sem svo í upphafi, að þær mundu geta fleytt sjer áfram á þessu, en komist síðar að raun um eða sjeð fram á það, að þess er enginn kostur með þeim launakjörum, sem ljósmæður eiga nú við að búa. Þær hafa komið í skóla með styrk frá heimilum sínum, eða frá sveitarfjelögum, en þegar þær eiga að standa á eigin fótum, verður þeim fyrst ljóst, að á þessu geta þær ekki lifað, og neyðast þá til að snúa sjer að einhverju öðru lífvænlegra.