07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

51. mál, yfirsetukvennalög

Jónas Kristjánsson:

Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. forseta. Honum tókst að vekja hlátur og kátinu í deildinni með því að tala þannig um „hreinar hendur“, að helst mátti á honum skilja, að hann áliti slíkt hjegóma einn. En jeg geri nú ráð fyrir, að það færi af mönnum brosið, ef læknir ætti að fara að gera holskurð á honum, og hefði kumlaðar og særðar hendur af erfiði, sem ekki væri unt að hreinsa til fullnustu. Þetta hefir sömu þýðingu fyrir ljósmæðurnar og þær, sem hjálpar þeirra njóta. Jeg þykist ekki þurfa að orðlengja frekar um þetta atriði; mönnum er það sjálfsagt ljóst, að hvort sem um er að ræða lækna, hjúkrunarkonur eða yfirsetukonur, þá eru hreinar hendur eitt hið allra nauðsynlegasta skilyrði, og hæstv. forseti getur því sparað sjer að gera gys að því.

En svo að jeg snúi mjer nú að efninu, þá horfir það til hinna mestu vandræða að útvega góðar ljósmæður í umdæmin nú á dögum, vegna þess hve þeim er ljelega borgað. Stúlkur fást ekki til þess að gefa sig til ljósmóðurnáms, nema þá helst þær, sem ekki eiga betri úrkosti. Af þessu stafar þjóðfjelaginu mikil hætta, því að það skiftir miklu að eiga vel hæfa og mentaða ljósmæðrastjett. En launakjör þeirra eru svo bágborin, að ef ekki er nú úr því bætt, þá horfir slíkt til vandræða. Hjúkrunarkonur, sem helst má bera ljósmæður saman við, að því er starfið snertir, hafa þetta 200–250 kr. á mánuði. Bæði barnakennarar og hjúkrunarkonur hafa betri laun, og jafnvel vinnukonur hjer í Reykjavík fá hærra kaup en yfirsetukonur alment. Verður að kippa þessu í lag, ella geta vandræði af hlotist fyrir þjóðfjelagið. Það verður að launa ljósmæðrum svo ríflega, að það fáist góðar og vel þar til fallnar stúlkur, til þess að taka að sjer þessi störf. Þetta vil jeg biðja hv. þm. að hafa í huga, þegar þetta frv. kemur til atkvgr.