07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

51. mál, yfirsetukvennalög

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það eru einungis örfá orð að þessu sinni. Jeg finn mig knúða til að þakka hæstv. forseta fyrir þau ummæli í minn garð, að hin einu frambærilegu rök, sem flutt hefðu verið til stuðnings frv., hafi fólgist í ræðu minni áðan. Mjer finst skylt að þakka þessi ummæli og það gleður mig að heyra, að ræða mín hafi verið svona merkileg, þó stutt væri. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um málið að sinni. Get látið nægja að vísa til þess, sem jeg og aðrir meðmælendur frv. hafa sagt um málið, bæði við fyrri umr. og þessa. Einungis skal jeg taka það fram, að mjer virðist margir hv. þm. ekki gera sjer það fyllilega ljóst, í hversu mikill og tilfinnanlegur kostnaður það er fyrir ungar og einatt efnalitlar stúlkur, að fara langa leið að heiman og stunda ljósmóðurnám í 9 mánuði, og eiga að því loknu enga atvinnu vísa, nema þá svona ljelega launaða. Þetta vildi jeg biðja hv. þdm. að leggja sjer ríkt á minni. Þetta eru í sjálfu sjer mikil rök í málinu.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að engum ofbyði þessi kostnaður. Það má vera, að ljósmæðraefnum yxi hann ekki svo mjög í augum, ef til mikils væri að vinna eða af miklum efnum að taka. En nú fer því fjarri, að svo sje venjulega. Það hefir þó rjettilega verið viðurkent, að störf ljósmæðra væru næsta þýðingarmikil. Hv. þm. A.-Húnv. sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið, að störf þeirra væru ekki mikil, en mikils virði. Ef það er rjett, að störf ljósmæðra sjeu ekki mikil, þá leiðir af því það, að aukatekjur þeirra eru að sama skapi litlar. Hinsvegar vita allir, hversu ljeleg hin föstu laun þeirra eru. Einhver hv. þdm. komst þó svo að orði, að laun ljósmæðra væru hneykslanlega há. (GÓ: Ekki voru það mín orð) Nei, engan veginn, en það er býsna hart að þurfa að heyra slík orð af vörum nokkurs hv. þm. Hinsvegar hafa margir talið óráð að fara nú að hreyfa við þessum launaflokki, með tilliti til þess, að endurskoðun launalaganna í heild liggi fyrir á næstunni. En er nú hægt að ætlast til þess, að þessir verst launuðu starfsmenn þjóðarinnar geti beðið mörg ár enn án þess að gera sjálfsagðar og rjettmætar kröfur um jafnrjetti við aðra starfsmannaflokka? Er nokkur furða, þótt þeir starfsmenn ríkisins, sem verst eru launaðir allra, samanborið við þau störf, sem þeir inna af hendi, krefjist nokkurrar sanngirni af hálfu hins opinbera? Núverandi ástand getur ekki og má ekki haldast til langframa. Jeg vona, að hv. þm. skilji það, hversu ábyrgðarmikil störf lækna, ljósmæðra og hjúkrunarkvenna eru, og að launakjör þeirra verða að vera svo góð, að þau geti gefið sig að starfi sínu með elju og áhuga en þurfi ekki að hafa það einungis í hjáverkum og ígripum. Svo er og ekki lítils um það vert, að hæfar konur veljist til ljósmæðrastarfsins, en ef trygging á að fást fyrir því, þá verður að bæta laun þeirra. Þetta verða hv. þdm. að skilja. Kröfur ljósmæðra eru ekki einungis sanngjarnar, heldur felst og í þeim þjóðfjelagsleg hagsýni, og hv. þdm. ættu þó að minsta kosti að geta litið á þá hlið málsins.

Það hefir verið minst á handaþvott og „hreinar hendur“ í sambandi við þetta frv. En jeg vil aðeins benda þeim hv. þm. á það, að til er margskonar handaþvottur. Þætti mjer ekki ósennilegt að þeir, sem nú leggjast hvað fastast á móti framgangi þessa máls, muni síðarmeir ef til vill þurfa að grípa til „handaþvottar“ í einhverri mynd til þess að hreinsa sig af þeirri ávirðingu, að hafa orðið til þess að bregða fæti fyrir þetta mál. Annars mun ekki þurfa að taka það fram, að hreinlæti er einn öflugasti liðurinn í læknavísindum nútímans, svo að vel mættu hv. þm. láta ógert að hafa það í flimtingum. Það má ennfremur vera hv. þm. fullkunnugt, að t. d. hjúkrunarkonur mega ekki hafa sprungnar nje óhreinar hendur, og liggja til þess skiljanlegar og eðlilegar ástæður. Og jeg vildi aðeins óska þess, að öll þjóðin væri komin svo langt áleiðis á þessu sviði, að hún skildi, hvers virði það er að hafa hreinar hendur, og hvers virði hreinlæti er alment. En til þess að þetta megi verða, verða læknar, ljósmæður og hjúkrunarkonur að ganga á undan með góðu eftirdæmi. Það er óhjákvæmilegt skilyrði þess.

Að hjer sje að ræða um byltingu, þótt farið sje fram á bætt launakjör ljósmæðra, er vitanlega slík firra, að jeg mun leiða hjá mjer að svara því. Slíkt má segja við börn, en ekki við roskið og fullorðið fólk, sem eitthvert skyn ber á þetta mál. Það lægi þá nær að kalla það bylting, þegar lögð eru niður embætti undir sparnaðaryfirskyni, en síðan stofnuð önnur ný embætti í staðinn, sem hvert um sig er margfalt dýrara. Þess er skemst að minnast, að slíkt átti sjer stað.