07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

51. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

* *Ræðuhandrit óyfirlesið. Jeg gleymdi að taka það fram í fyrri ræðu minni, að mjer finst það galli á brtt. hæstv. fjmrh., að í þeim kennir ranglætis gagnvart þeim ljósmæðrum, sem sitja í lægst launuðu hjeruðunum, þar sem laun þeirra samkv. brtt. þessum geta ekki farið fram úr 400 kr. á ári. Þetta virðist mjer misrjetti, enda kemur það í bága við reglur, sem áður hefir verið farið eftir í þessum efnum, og á jeg þar sjerstaklega við laun læknanna, því eins og kunnugt er, hafa þeir læknar hæst laun, sem sitja í minstu hjeruðunum, og það verður að teljast sanngjarnt því að þeir hafa eðlilega minstan „praksis“. Brtt. hæstv. ráðh. eru því alveg gagnstæðar þessu. Þá vildi hæstv. fjmrh. halda því fram, að máli þessu væri engin hætta búin, þó að brtt. hans yrðu samþ., og það þar af leiðandi færi til Nd. aftur, því að aðrar brtt. við það lægju hjer fyrir, sem sennilega yrðu samþ. Við þessu er það að segja, að brtt. þær frá meiri hl. fjhn., sem hjer er um að ræða, eru svo lítilvægar, að þær geta engri mótspyrnu mætt í hv. Nd. Alt öðru máli er að gegna um brtt. hæstv. fjmrh., því að í þeim felast miklar efnisbreytingar á frv. Má því gera ráð fyrir, að Nd. felli þær burtu, því að miklar líkur eru á því, að hún vilji halda fast við sínar till. í málinu. En hvað verður þá um frv.? Það beinlínis dagar uppi og nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Brtt. þessar eru því beinlínis banatilræði við málið, svo framarlega sem þær verða samþ. Þetta vænti jeg að hv. þdm. geri sjer ljóst.

Hv. þm. A.-Húnv. þarf jeg ekki miklu að svara. Hann hjelt því fram, að það væri ekki mikið mark takandi á þessum kröfum frá læknum og sósíalistum, því að læknarnir væru kröfuharðastir um launakjör o. fl., af öllum embættismönnum landsins. Þetta verð jeg að telja óverðug ummæli. Að minsta kosti verð jeg að halda því fram, hvað mig snertir, að jeg hafi ekki verið ósparari á landsfje, síðan jeg kom á þing, en t. d. hv. þm. A.-Húnv., eða hver annar.

Þá kom þessi hv. þm. fram með nýja kenningu, sem sje þá, að það væri betra að vera án ljósmæðra en launa þær sómasamlega. (GÓ: Þetta er hreinn og beinn misskilningur). Jæja, ef svo er, þá skal jeg ekki fara frekar út í þetta atriði, en aðeins geta þess, að það er meining mín, að landsmenn yfirleitt telji starf ljósmæðranna svo mikilsvert, að þeir telji það seint í of launað.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að það var ekki rjett hjá þessum hv. þm., að engin rök hefðu verið færð fram með þessu máli. Hjer hafa einmitt verið færð fram gild rök því til framdráttar, þó ekki væru nema þau, að sýnt hefir verið fram á, að yfirsetukonur vantar í 30 umdæmi. Að vísu hefir þetta verið rengt af andmælendum frv.. en það er hægt að sanna það skjallega, hvenær sem vill. Jafnframt hefir verið sýnt fram á, og það með fullum rökum, að þessar starfskonur væru lægra launaðar en allir aðrir starfsmenn hins opinbera.