07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

51. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Snæf. út af þeim ummælum hans, að samkv. till. mínum yrðu þær ljósmæður, sem minst hefðu umdæmin, harðast úti; þeim hefir hv. frsm. minni hl. svarað. Þó vil jeg geta þess, að þessi ummæli hv. þm. voru mjög villandi, eins og bent var á, því að brtt. mínar stefna einmitt að því marki, að þær ljósmæður, sem hafa minstu umdæmin, fái sem mesta launabót.

Þá vildi hv. frsm. meiri hl. altaf efast um það, að skýrsla sú, sem jeg hefi látið gera um laun þau, sem ljósmæður hafa nú, og um laun þau, sem þær koma til með að fá samkv. frv. þessu, væri rjett, og að það væri því rangt, áð launahækkunin væri sumstaðar 100%.

Þessu er því að svara, að það er ekki aðeins rjett, að launahækkunin geti í sumum tilfellum orðið 100%, heldur er hækkun útgjalda ríkissjóðs til sumra yfirsetukvennaumdæmanna á annað hundrað %.

Þá þýðir ekkert fyrir okkur hv. frsm. meiri hl. að vera að þrátta um það, hvort sveitarstjórnirnar eigi að vera að skifta sjer af þessum málum. Jeg fyrir mitt leyti tel rjett, að þær geri það. Jeg tel þær í þessum efnum hliðstæðar skólanefndum, því að eins og kunnugt er, gera skólanefndirnar altaf sitt til þess að fá einhvern ákveðinn mann fyrir kennara, enda þótt auglýst sje að forminu til eftir kennurum.