17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

51. mál, yfirsetukvennalög

Forseti (G. Ó.):

Eins og hv. þdm. muna, frestaði jeg að fella úrskurð um þetta mál, þegar það var síðast á dagskrá hjer í deildinni. Sömuleiðis frestaði jeg úrskurði um 9. málið á dagskránni, um skipun barnakennara og laun þeirra. Beindi jeg þeim tilmælum til hv. deildar, að hún vildi greiða atkvæði aftur um það mál, en þess var ekki kostur, þar sem tveir hv. þm. andmæltu því. Mun jeg því að sjálfsögðu spara mjer að fara fram á, að deildin greiði atkv. á ný um þetta mál, því að mjög stendur líkt á með þessi í tvö mál, enda mun jeg úrskurða þetta í mál á sama grundvelli og með hliðsjón af sömu gr. þingskapanna sem við hitt málið. Jeg ætla þá að leyfa mjer að lesa upp 47. gr. þingskapanna, sem felur í sjer ákvæði, sem máli skifta í þessu sambandi: „Afl atkvæða ræður um úrslit mála og málsatriða, nema í öðruvísi sje ákveðið í stjórnarskránni eða þingsköpunum (sbr. 26. gr.). En það er afl atkvæða, ef meiri hluti þingmanna þeirra, sem á fundi eru og atkvæðisbærir, gera annaðhvort að játa eða neita.“

Í þessu tilfelli var það aðeins einn hv. þm., sem ekki greiddi atkv. Færði hann þær ástæður, sem jeg hafði þau orð um, að væru mjer óskiljanlegar, enda get jeg ekki metið þær að neinu. (HSteins: Hann færði fram ástæður á þessum fundi). Það kemur ekki til greina nú, úr því að hv. þdm. eru ekki fáanlegir til þess að greiða atkv. um málið nú á þessum fundi. Jeg tek því ástæðu hv. þm. Ak. ekki til greina. Verður því að líta svo á, að 14 atkvæðisbærir þm. hafi verið við atkvgr. Þar af greiddu ekki nema 7 atkv. með frv. En 47. gr. þingskapanna krefst ótvíræðs meiri hl. allra þeirra þm., sem á fundi eru og atkvæðisbærir. Með hliðsjón af því, verð jeg að úrskurða málið fallið, vegna þess, að ekki hefir fengist meiri hl. með því, er af 14 deildarmönnum atkvæðisbærum segja aðeins 7 já.