04.03.1929
Efri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta flyt jeg að tilmælum bæjarstjórnarinnar í Nesi í Norðfirði og fylgir því allskýr greinargerð frá bæjarstjórninni, svo að jeg þykist ekki þurfa að láta fylgja því langa framsögu.

Fyrir síðasta þingi lágu tvö frv. líks eðlis, og gengu þau greiðlega í gegn um þingið. Jeg vænti þess því, að þetta frv. verði látið sæta svipaðri meðferð. Mjer þykir rjett að geta þess, að sá hluti, sem hjer er farið fram á að selja bæjarsjóði Neskaupstaðar, hefir ekki verið eign Neskirkju frá fornu fari. Það var árið 1896–97, sem höfð voru makaskifti á 7 hundruðum að fornu mati úr jörðinni Nesi og kirkjujörðinni Grænanesi, sem er skamt fyrir innan bæinn. Þessi kirkjujörð er ljelegt kot, og sjest það best á því, að hún er eign ríkissjóðs enn. Eins og kunnugt er, eru flestar skárri jarðirnar seldar. Hins vegar er þessi hluti af Nesjörðinni nú margfaldlega stiginn í verði við það, sem hann var þá er hann komst í eign kirkjunnar. Bæjarstjórnin ætlast auðvitað ekki til að fá þennan hluta keyptan nema við fullu verði. En það er skiljanlegt öllum, sem til þekkja á Norðfirði, að mjög er erfitt að koma skipulagi á bygð bæjarins, ef ekki fást meiri umráð yfir landi því, sem bærinn stendur á, en verið hefir hingað til.

Jeg get tekið það fram, að með tímanum hugsar bæjarstjórnin sjer, að bæjarsjóður eignist alt landið, sem bærinn stendur á, það er: alla jörðina Nes með hjáleigum. En það mun taka langan tíma að koma því í kring, því að enn eru 2/3 hlutar þess eign einstaklinga. Eigendur munu vera 17 að tölu. Jeg hygg samt, að þetta muni ganga sæmilega greiðlega, ef bæjarstjórn hefir vilja á að nota tækifærin þegar þau gefast. Bærinn hefir þegar getað fest kaup á tveim hlutum, þótt ekki sjeu þeir stórir. Þetta verður sjálfsagt nokkuð dýrt, en við því er ekki hægt að gera. Jarðir þessar hafa stigið í verði fyrir atvik, sem ekki á neinn hátt hafa orðið fyrir tilverknað eigendanna, heldur fyrir framtakssemi íbúa kauptúnsins.

Jeg vænti þess, að frv. verði vísað til allshn., og þingið taki því vingjarnlega, einkum þar sem það kom greinilega í ljós á síðasta þingi, að þingið hafði fullan skilning á því, hversu þýðingarmikið er fyrir bæina að eiga það land, sem þeir standa á og að þeim liggur.