21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Svo sem nál. á þskj. 136 ber með sjer, hefir allshn. lagt til, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, verði samþ. með lítilsháttar breytingum. Nefndin viðurkennir það öll, að kaupstaðir þurfi nauðsynlega að eiga land það, er þeir standa á, ásamt hæfilegu landi til ræktunar og hagbeitar til afnota kaupstaðarbúum. Breyting sú, er nefndin leggur til, að gerð verði á frv., er í því fólgin, að undanskilin verði hæfileg lóð undir og kringum íbúðar- og geymsluhús dánarbús Jóns prófasts Guðmundssonar. Jeg sje heldur ekki neitt, sem getur mælt á móti því, að lóð þessi verði undanskilin, en þar sem nefndin segir í áliti sínu, að ef hið opinbera teldi ástæðu til að kaupa það, þá ber ekki í að líta á það sem ábending frá nefndarinnar hálfu, heldur sem hugsanlegan möguleika, að svo kynni að fara. Svo stendur nú á, að eigandinn er prestsekkja, og við vildum láta þetta koma ljóst fram, að n. vill ekki á neinn hátt gera núverandi eiganda þessa húss erfiðara að selja húseignina, þó sala á landi kirkjunnar yrði leyfð. 2. brtt. skýrir sig sjálf. Þar er aðeins vitnað til laga um sölu þjóðjarða. Það mun hafa komið fram brtt. á þskj. 166, en jeg mun ekki víkja að henni fyr en hv. flm. hennar hefir fært fram rök sín.