21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Jón Þorláksson:

Það gladdi mig að sjá upphafið á áliti allshn. á þskj. 136, því þar viðurkennir nefndin, að kaupstaðir og kauptún þurfi að eiga land það, er þau standa á, ásamt nálægu landi til ræktunar. Jeg mintist þá þess, að er jeg var í Nd. kom þar fyrir svipað mál, og urðu nokkrar deilur út af. Var það hvort Siglufjarðarkaupstað skyldi selt land prestssetursins Hvanneyrar, og hallaðist jeg þá að því, að það skyldi gert, og yfirleitt hefi jeg hallast á þá sveifina við önnur slík tækifæri, og svo er því nú farið, en jeg vil ganga lengra en haldið er í frv. þessu, og því hefi jeg komið fram með brtt. á þskj. 166. Jeg vil að leyft verði einnig að selja Siglufjarðarkaupstað land prestssetursins Hvanneyrar, að undanskildum nauðsynlegum lóðum handa því og öðrum opinberum byggingum. Því er líkt farið með Siglufjarðarkaupstað og Neskaupstað, að verið er í báðum stöðunum að gera skipulagsuppdrátt, og jeg tel rjett að undanskilja þegar í upphafi þær lóðir, er þarf til opinberra bygginga. Jeg vona, að hv. allshn. taki vel í þessa brtt. mína, samkvæmt stefnu sinni, og að hún fáist samþ. í þessari hv. deild.