06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Sveinn Ólafsson:

Við 1. umr. þessa máls gat jeg um ýmsar misfellur á þessu frv. og gaf skýrslu um staðhættina á þessum stað, Nesi í Norðfirði. Jeg benti á það m. a., að með því að selja þennan jarðarhluta væri ekki aukið land eða landsnytjar kaupstaðarins, því að hann stendur á þessu landi. Ennfremur benti jeg á það, að prestssetrið, sem hjer er um að ræða, tilheyrir tveim sveitarfjelögum, sem sókn eiga að einni og sömu kirkju. Mjer virðist, að hv. allshn. hafi tekið lítið tillit til þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið í þessu máli. Hún færir þá einu ástæðu fyrir þessari sölu, að eðlilegt sje, að bæjarfjelögin ráði yfir þeim löndum, sem bæirnir standa á. Jeg get verið n. sammála um þetta, en þar með er ekki sagt, að eðlilegt sje að taka lönd kirkjunnar fortakslaust og selja. Fyrir nokkrum árum var prestssetrið Skorrastaður selt, en jafnframt eða áður voru kirkjunni afhent fyrir prestssetur 7 forngild hundruð, sem ríkið átti, úr jörðinni Nesi. Með því að selja þetta, er prestssetrið sama sem lagt niður, og prestinum gert svo erfitt um að dvelja þarna, að jeg gæti trúað, að það drægi úr þeim mönnum, sem annars hefðu ætlað sjer að sækja um þennan starfa. Það er ólíku saman að jafna um sölu á hluta ríkisins í þessu landi, en mjer finst ótilhlýðilegt að taka af prestinum þann hluta, sem honum hefir verið áskilinn.

Það er ekki rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að svo hafi ætíð verið farið að áður, þegar kaupstaðir hafa falast eftir slíkum kaupum, að prestssetrin hafi seld verið. Jeg minnist þess að minsta kosti, að Vestmanneyingum var synjað um slík kaup, og þegar prestssetrið á Akranesi var selt, var skilið eftir nægilegt land fyrir prestinn, og aðeins selt það, sem presturinn gat sjer að meinalausu verið án. Mjer finst, að hv. allshn. hafi tekið vetlingatökum á þessu máli og get ekki fallist á, að þessi niðurstaða, sem hv. n. komst að, sje á rökum bygð eða nægri rannsókn. Einn vottur þess er það, að aftur og aftur hefir verið talað hjer um sölu á skika úr Neslandi. Þetta er mesti misskilningur. Jörðin er sameign margra manna og afnotin hlutuð eftir eign hvers eins og allar tekjur af henni.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að hæfilegt væri að selja þetta land á 30 þús. kr. Jeg verð að upplýsa það, að ef miðað er við þær tekjur, sem ríkið hefir undanfarið haft af þeim 340 álnum, sem það á eftir í þessari jörð, þá ætti söluverðið að vera 40–50 þús. kr. En frv. slær þann varnagla, að salan skuli fara fram eftir fyrirmælum 1. frá 1907, um sölu kirkjujarða. Það vita nú líklega flestir hv. þdm., hvernig hagað hefir verið sölu kirkjujarða eftir þessum 1. Venjan hefir verið sú, að reikna út söluverðið með því að miða við afgjald síðustu tíu ára, þannig að haft hefir verið fyrir augum meðaltalsafgjald og 4% vextir. Jeg veit, að ef meta á hluta ríkis og kirkju í þessu landi eftir þeim reglum, verður söluverðið lægra en jeg nefndi áðan, en ef miðað er við hið sanna eftirgjald verður það 40–50 þús. kr. eða jafnvel hærra, því að gjaldið vex með ári hverju. Þetta gjald, sem ríkið hefir eftir sinn hluta í þessari landeign, hefir vaxið upp úr 37 kr. upp í 540 kr. á síðustu 19 árum, og það heldur vitanlega áfram að vaxa. Þótt eigi væri nema vegna þessara hluta, ætti að minsta kosti, ef um það er að ræða á annað borð að selja þessa jarðarhluta, að ákveða söluverðið í frv., en ekki að gera það með lauslegri skírskotun til 1. frá 1907, um sölu kirkjujarða.

Þetta mál hefir hvorki verið borið undir hlutaðeigandi prest eða sóknarnefnd, svo að mjer sje kunnugt. Jeg hygg meira að segja, að hvorugur þessara aðilja hafi fengið að vita um það nema á skotspónum, en þeir ættu þó að hafa rjett á að láta uppi álit sitt, áður en kirkju-hlutanum er ráðstafað á þennan hátt. Hinn setti prestur, sem þarna er, hefir gert fyrirspurn um það, hvort að því ráði verði snúið, að selja kirkju-hlutann; get jeg af því ráðið, að hann muni hugsa sig um tvisvar, áður en hann sækir um þetta brauð, ef prestssetrið hverfur með öllu.

Vegna þessa alls, sem jeg hefi nú tekið fram, og vegna fleiri mála af svipuðu tæi, hygg jeg, að best væri að afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá, svo að hægt verði að athuga önnur skyld mál jafnframt þessu til næsta þings. Virðist mjer ekki rjett að flana að afgreiðslu þessa máls svo óviðbúið. Jeg hefi því hugsað mjer að bera fram svofelda rökstudda dagskrá:

„Með því að eigi liggur fyrir umsögn prests eða sóknarnefndar um sölu kirkju-hlutans úr Nesi og sala hans, ásamt ríkissjóðshluta jarðarinnar, er aðeins einföld eigandaskifti, en engin aukning á landsnytjum kaupstaðarins, og með því ennfremur, að líkt er farið um aðra bæi, sem á opinberum eignum standa, að þeir óska eftir eignarumráðum landsins, og æskilegt er, að lík skipun verði hvervetna í þessu efni, en ætla verður, að ríkisstj. fram til næsta þings geti undirbúið þetta mál og önnur af sama tæi í samræmi við ástæður á hverjum stað, telur deildin eigi ástæðu til frekari aðgerða og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi afgreiðsla finst mjer eðlileg á þessu máli, með tilliti til annara mála af sama tæi, sem og vegna annara mála, er áður hafa verið afgreidd, en á alt annan veg. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, enda á jeg óhægt um vik vegna hæsi og kvefs.