06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Sveinn Ólafsson:

Mjer er það vel ljóst, að niðurstaða meiri hl. allshn. í máli þessu er að miklu leyti bygð á ókunnugleika á staðháttum þarna austur frá. Hv. frsm. sagði, að í kaupstað mættu prestar ekki búa og ættu ekki að búa á jörðum. Hví skyldi það? Jeg veit, að svo er að vísu ástatt í sumum bæjum, en hitt er algengt, að prestar í kauptúnum búi á jörðum eða jarðarpörtum, og á Nesi búa nokkrir menn litlu sveitabúi og hafa jarðnæði. Nú er svo ástatt með Nes, að 1/3 jarðarinnar eða 10 forngild hundruð, er í eign ríkis og kirkju. Einstakir menn eiga 2/3 hluta og þar af á bærinn 2 hndr., er fylgdu með eignum nokkrum, er bærinn hefir keypt af þrotabúi einu. Þetta er alt og sumt, sem bærinn á, og jeg þori að fullyrða, að eigendur landsins eru yfirleitt ófúsir til að láta það falt, m. a. vegna þess, að land stígur þarna ört í verði og vill enginn því sennilega farga eign sinni og gróðavon. Hv. frsm. sagði, að presturinn mundi verða þarna lóðasali, ef kirkjan ætti landið eftirleiðis. Þetta er misskilið. Það er gengið frá þessu með samþykt milli allra eigenda eignarinnar frá 1914. Landið alt er óskift og enginn sjerstakur landskiki, sem kirkjan eða ríkið eiga. Allar tekjur af eigninni, aðrar en grasnyt sú, sem ábúöndum er úthlutuð eftir stærð jarðnæðis, skiftast eftir eignarhlutföllum milli allra eigenda og aðilja. Presturinn getur ekki út af fyrir sig selt eða leigt eina einustu lóð. Það gerir sjerstök nefnd, sem nefnist byggingarnefnd. En hitt er auðvitað, að presturinn, ef hann hefir afnot jarðarhlutans, fær lóðargjöld af þeim hluta, sem hann hefir umráð yfir. Eftir samþyktinni getur nefnd þessi mælt út lóðir í túnum einstakra manna og eins þá túni prestsins. Og bærinn getur fjór- til fimm- faldast áður en hann skortir lóðir. Það er engu ríkari ástæða til að svifta prestinn jarðarafnotum en aðra búendur þarna, en hugsanleg er takmörkun á grasnytjarjetti hans, þegar þrengist.

Eins og jeg tók fram áður, þá sje jeg út af fyrir sig ekkert athugavert við það, að ríkið selji bænum þær álnir, er það á sjálft í jörðinni, ef fylgt er þeim mælikvarða, sem jeg fyr nefndi. En að taka öll jarðarafnot frá prestinum að honum og sóknarnefnd fornspurðri, finst mjer mjög óviðfeldið og ekki rjettlátt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Mjer finst það sjálfsagt að afgreiða öll þessi mál á sama veg, en vera ekki að slíta eitt og eitt út úr og þá allra síst, eins og hjer er gert ráð fyrir, að eyða prestssetrinu. Alstaðar annarsstaðar, þar sem um sölu prestssetra hefir rætt, hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að presturinn hjeldi eftir nauðsynlegu landi handa sjer, en væri ekki öllu sviftur.