11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Magnús Jónsson:

Það var fjarri því, að jeg ætlaði að koma með almennan dóm um afstöðu Alþingis til kirkjunnar og hennar mála í þeim fáu orðum, sem jeg sagði áðan. En hv. 2. þm. Árn. (MT) getur ekki neitað því, að svo að segja á hverju þingi undanfarið, hafa komið fram frv. í þá átt, að taka hluta eða hlunnindi undan prestssetursjörðum. Það er skemst að minnast 1. um sölu Mosfellsheiðarlands. (TrÞ: Það er óselt enn þá). Jeg er hæstv. forsrh. þakklátur fyrir, að svo er. (TrÞ: Það er hæstv. dómsmrh., sem ber að þakka fyrir það). Ekki er mjer síður ánægja í því að tjá honum þakkir fyrir að hafa ekki látið söluna fara fram, enda hefði það sannast að segja verið heldur óheppileg ráðstöfun, ef svo hefði verið gert, þar sem nú er verið að leggja veg yfir landið.

Jeg veit ekki hvort hv. 2. þm. Árn. langar í Strandarkirkju-eldhúsdag út af þessu máli. Jeg sje það, að áheitunum heldur áfram, þrátt fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar voru í fyrra, enda er fólk svo hjátrúarfult, að lítil líkindi voru til, að áheitin mundu hætta af þeirri ástæðu. Það sem mig og hv. 2. þm. Árn. greindi á um, var það, hvort rjett væri að verja áheitapeningum eins og þingið samþ. í fyrra, en jeg nenni ekki að fara nú að rífast um þetta mál, og býst líka við, að hæstv. forseta þætti nóg um, því að það mál liggur allfjarri því, sem hjer er á dagskrá.