11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf fáu að svara hv. 1. þm. Reykv. (MJ). Jeg kom ekkert inn á fylgi við kirkjuna nje hennar mál, og þarf ekki að tjá mig neitt um áhuga á þeim málum, enda kemur það þessu frv. ekkert við og stendur auk þess nær öðrum en mjer. Þó er flutningur frv. í þessari mynd fremur vottur um fylgi við kirkjunnar mál en áreitni við þá stofnun.

Eins og jeg tók fram í upphafi, er ætlast til þess í frv. að eftir verði sá hluti Hólmalands við söluna, sem verðmætastur og notadrýgstur er fyrir prestinn. Það er gert ráð fyrir að selja nokkurn hluta af beiti- og engjalandi jarðarinnar, sem prestinum er orðinn nytjalítill síðan hætt var sauðarækt og fráfærum, en aðaljörðin er eftir með flestöllum hlunnindum sínum og öllum verðmætustu landkostum.

Jeg sje ekki ástæðu til að koma inn á fleiri atriði úr umræðunum, en af 26 því að ágreiningur hefir risið um það, hvort vísa ætti málinu frekar til landbn. en allshn., vil jeg lýsa yfir því, að það er mín skoðun, að málið heyri beinlínis undir landbn. Það er ekki torskilið, að hjer er um hreint landbúnaðarmál að ræða. Kauptúnið á Eskifirði telur 700 manns. Það er landlaust með öllu og er því nauðsynlegt að fá þetta land til afnota. Landbn. ætti að vera færust til að meta, hvort þetta land fullnægir þeirri þörf og sömuleiðis það, hvort presturinn og búnaður hans er ekki sæmilega trygður með því landi, sem eftir verður. Annars geri jeg það ekki að neinu kappsmáli, til hvaða n. málinu verður vísað.