06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Ræðuhandrit óyfirlesið. Mig furðar á því, hve hv. frsm. minni hl. fer geyst í þessu máli, og dettur mjer í hug í því sambandi, það sem sagt var um einn mann, að öll sókn hans hefði byrjað í bráðræði og endað í ráðleysi. Hann byrjar á því að segja, að það komi málinu ekkert við, hvað presturinn segir um þetta, en öll vörn hans byggist þó einmitt á því. Jeg sje, að jeg þarf að skýra þetta mál mjög nákvæmlega, ekki fyrir hv. þm. (HK) heldur deildinni. Hlutaðeigandi prestur samdi nákvæma skýrslu um málið og lagði þar til, að jörðin yrði seld, ásamt húseignum, sem hann átti þar. Þegar svo Eskfirðingar vilja ekki kaupa af honum þessi hús, semur hann nýtt álit um málið og snýst þá öndverður gegn sölu jarðarhlutans. En þrátt fyrir það er búist við, að af samningum verði, þegar búið er að ná samkomulagi við prestinn, og því er það vindhögg hjá hv. þm., að hjer sje verið að ganga á rjett ábúandans. Þá kem jeg að þeirri hlið málsins, er hv. þm. blandaði saman sölu þess og þessa landshluta, en þar er ólíku saman að jafna, því að þar var að ræða um land, sem ábúandinn hafði full afnot af, en hjer er aðeins farið fram á að seldur verði nokkur hluti jarðar, sem enginn hefir gagn af.

Hv. þm. misskildi alveg orð mín, er hann hjelt því fram, að jeg hefði sagt, að hann væri hlutdrægur. Það sagði jeg ekki, og datt síst í hug, en hitt sagði jeg, að upp úr áliti biskups væri ekki mikið leggjandi, þar eð hann yrði að gæta rjettar prests og kirkju. Jeg vil undirstrika það, að þar sem ríkið á land að kaupstað, er það tvímælalaus skylda þess að láta kaupstaðarbúa njóta góðs af því. Það eina, sem hjer stendur á, er að fá samþykki prests fyrir sölunni, og jeg hygg, að það muni fást, þar sem hann missir engin hlnnnindi við það, eins og t. d. dúntekju eða annað slíkt. Þá var það einnig ein af röksemdum hv. frsm. minni hl., að hreppurinn hefði lagt á móti þessu en það er nú altaf svo, að mótmæli koma frá þeim hreppum, sem verða að láta jarðarskika af hendi til kauptúna. Jeg sje svo ekki ástæðu til að eyða miklu af þingtímanum, eins og hann er nú orðinn dýrmætur, í orðalengingar um þetta mál, enda geri jeg ráð fyrir, að jeg hafi skýrt það nægilega fyrir hv. deild, að Eskifirði er nauðsynlegt að fá þennan jarðarhluta. Jeg mun ekki svara hnútum hv. þm. til mín, en geri ráð fyrir, að jeg geti samið eins vel nál. og hann. Læt jeg svo útrætt um málið að sinni.