06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Jörundur Brynjólfsson:

Ef hjer væri um það að ræða, að Eskifjörður hefði of lítið land til umráða og ætti ekki kost á öðru landi nær en þessu, myndi jeg vera því fylgjandi, að hann fengi það, en eins og fram hefir komið, er ekki um það að ræða. Jeg get því ekki annað sjeð, en að hv. frsm. minni hl. og hv. 1. þm. Reykv. hafi hjer rjett fyrir sjer, og er þeim fyllilega sammála. Jeg vildi ennfremur bæta því við sökum þess að jeg hygg, að það hafi ekki komið nógu greinilega í ljós, að þessi jörð tilheyrir öðrum hreppi, og það getur verið hættulegt fyrir Reyðarfjörð að fá þá gesti til sín, sem Eskifjörður kann að senda þeim til vistar. Sjerstaklega þar sem um allfjölment kauptún er að ræða og sem getur orðið miklu fjölmennara en það er nú.

Menn munu fara nærri um, hve þungum búsifjum slíkir nágrannar geta valdið hreppsfjelaginu, ef kauptúnið á kost á jarðnæði og er einrátt um hverjir búa á slíkum stöðum. Það hefir átt sjer stað hjer á landi, þó að það hafi ekki víða komið mikið að sök, að menn, sem ekki hafa verið sjálfbjarga, hafa verið settir á jarðnæði sem kaupstaður (Akureyri) á í annari sveit til þess að þeir yrðu sveitlægir þar. Það er vert að íhuga þetta, þegar talað er um að gera slíka breytingu, sem hjer er farið fram á. Fólkstala í Eskifjarðarhreppi var árið 1927 760 manns, og má vel gera ráð fyrir að fjölgi frá því sem er. Þó að ekki sjeu nema þessar ástæður fyrir hendi, nær engri átt að selja kauptúninu þennan jarðarhluta, og það því síður, sem kauptúnið getur fengið jarðnæði á jörðum, sem liggja nær því. Og um þetta á vitanlega að semja við hlutaðeigandi sveitarstjórn, en ekki Alþingi. Jeg vil undirstrika þau ummæli hv. 1. þm. Reykv. að okkur er skylt að sýna höfuðbólum þann sóma og þá ræktarsemi að búta þau ekki í sundur alveg að óþörfu. Jeg hirði ekki um að fara út í ummæli biskups í brjefi hans. En það er engan veginn veigalítil ástæða hjá biskupi, að landsnytjar kunni að rýrna, ef kauptúnið nær eignarumráði yfir jarðnæðinu. Jeg tek undir með hv. frsm. minni hl. (HK) um það, að jeg treysti hv. d. til að samþ. dagskrá þá sem hann bar fram.