06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

61. mál, sala á nokkrum hluta prestssetursins Hólma

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. flm. vildi halda því fram, að hjá mjer kendi misskilnings um þetta mál. Jeg hefi samt ekki getað sannfærst um að svo sje. Hv. flm. segir, að nokkur hluti landsins, sem Eskifjörður liggur á, sje í Reyðarfjarðarhreppi. Sá hluti mundi þá heyra þeim hreppi til. En svo er nú auðvitað ekki. Hreppamörkum hefir verið breytt og Eskifjörður stendur nú á því landi einu, sem Eskifirði heyrir til. Fasteignamatsbókin sýnir þetta og samkvæmt henni er landrýmið ekki lítið. Þar stendur:

Bleiksá, 138 hndr.

Lambeyri I, 69 hndr.

Lambeyri II, 115 hndr.

Samtals 322 hndr. Og eins og menn sjá, er þetta hreint ekki lítið.

Hv. flm. vildi halda því fram, að engin breyting yrði, þó að bærinn eignaðist jarðnæði í annari sveit. Þetta er reginmisskilningur. Hverjir ráða, hvað bygt verður í Hólmalandi, eftir að Eskifjörður hefir keypt það, og hverjir búa þar? Ekki íbúar Reyðarfjarðarhrepps, þó að þeir geti orðið að sæta afleiðingum af þessu. Þeir hafa enga íhlutun, en verða að bera ábyrgð eftir tiltekinn tíma, ef fólkið þarf hjálpar við. Og það er höfuðatriðið í málinu.

Það væri ólíkt nær að fá hreppamörkum breytt, ef Eskifjörður vill fá aukið land út frá kauptúninu. Jeg er alveg hissa á hv. flm., að hann skuli ekki koma auga á þessa hættu. (SvÓ: Það er engin hætta). Hvorugur okkar getur spáð neinu um það. En það verður að krefjast þess, að við sýnum alla varfærni í þessu efni, því að hjer getur verið um hættu að ræða fyrir hreppsfjelagið í Reyðarfirði, sem sjálfsagt er að koma í veg fyrir.

Það vill svo til, að ef þetta land er selt undan Hólmum, er tekinn fullur helmingur jarðarinnar. Þó að það sje kannske ekki notað mikið nú, er ekki hægt að segja um það, að hve miklum notum það getur orðið í framtíðinni. Og það liggur jafnlangt eða skamt frá Eskifirði eftir sem áður. Hv. flm. er að fara krókaleiðir í þessu máli og reyna að fá menn til að líta ekki á höfuðatriði málsins. Ef landinu er það mikið áhugamál að selja þennan jarðarhita, á fyrst og fremst að gefa Reyðarfjarðarhreppi kost á að eiga hann. Jeg býst við, að áður en langt um líður verði farið að nota landið meira en nú er gert. Annars finst mjer skjóta nokkuð skökku við, ef landið er ekki túskildingsvirði, eins og hv. flm. sagði, en er þó svona bráðnauðsynlegt fyrir Eskifjörð.

Hv. flm. sagði, að það væri tilgangslaust að vera að geyma útkjálka þessa lands. En við höfum fengið nóga reynslu í þessu efni. Fyrrum voru margar jarðir látnar, af því að einungis var litið á augnabliksþörf, stundum ímyndaða, en ekki á framtíðina. Jeg vænti þess, að hv. d. sýni rjettlæti í þessu máli og viðurkenni, að okkur er skylt að gæta rjettinda þess sveitarfjelags, sem hlut á að máli, en það er fyrst og fremst Reyðarfjarðarhreppur.