12.03.1929
Efri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

60. mál, einkasala á lyfjum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. er ekki nýr gestur hjer á Alþingi. Það hefir verið hjer á ferðinni áður og þá einnig í Ed. 1921 var það lagt fram hjer sem stjfrv., og hafði þáverandi og núverandi landlæknir, Guðm. Björnsson, skrifað aths. þær, er fylgdu frv., og hefir að sjálfsögðu átt mestan þátt í samningu þess. Maður skal því ætla, að sá maður, sem haft hefir æðstu stjórn heilbrigðismálanna með höndum um langt skeið, hafi sjeð brýna þörf og hagsmuni fyrir setningu slíkra laga, enda virðast ástæður þær, sem frv. er rökstutt með, afarsterkar.

Hvað sem annars má segja um rjettmæti lyfjanotkunar, þá er hitt víst, að lyfjakaup eru stór útgjaldaliður hjá almenningi. Og þótt segja megi, að lyfjanotkun sje um of, þá hefir reynslan sýnt, að ekki er þægilegt að fá því breytt. Þess eru dæmi, að sumir af okkar allra bestu læknum hafa í byrjun ætlað sjer að draga úr lyfjanotkun með því að gefa sjúklingunum aðeins góð ráð í þeim tilfellum, er þeir töldu meðul óþörf eða gagnslaus. En reynslan hefir orðið sú, að sjúklingarnir hafa leitað til annara lækna og fengið meðul hjá þeim. Þessir læknar, sem draga vildu úr lyfjanotkun, hafa því bráðlega orðið að taka upp í sinn praksis að gefa út lyfseðla, þótt þeir væru sannfærðir um, að lyfin gerðu hvorki til nje frá. Hjer er aðeins um trú fólksins á lyfin að ræða. Og þeirri trú er ekki auðvelt að breyta. Lyfin verða því talsverður útgjaldaliður hjá almenningi, og spurningin er þá bara sú, hvernig hægt sje að lækka þann lið. Er það einn tilgangur þessa frv. — Annars liggja margar aðrar ástæður fyrir því. Skal jeg til glöggvunar leyfa mjer að lesa upp kafla úr grg. þeirri, sem fylgdi frv. 1921. Þar segir landlæknir m. a. — með leyfi hæstv. fors.: „Hinsvegar er það eins og hjer háttar til afarerfitt að tryggja sjer það, að þær vörur, sem lyfsalar flytja inn, sjeu jafnan ósviknar og óskemdar og í alla staði svo vandaðar sem vera ber. Og jafnframt leikur jafnan svo mikill vafi á um innkaupsverð þeirra, að það er mjög erfitt fyrir heilbrigðisstjórn landsins að ákveða útsöluverð lyfja svo að hvorugt vilji til, að þröngvað sje hag lyfsala, eða þeim ætlaður óþarflega mikill ágóði.

Af þessum ástæðum hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að það horfi þjóðinni í alla staði ótvírætt til heilla, að ríkið taki í sínar hendur allan innflutning og alla stórsölu á lyfjum, umbúðum og hjúkrunargögnum.“ Landlæknir getur þess í sömu athugasemd, að innkaup á þessum lækningavörum muni nema —1 miljón kr. Að vísu var það í mestu dýrtíðinni. En hinu má og gera ráð fyrir, að notkun hafi aukist sem svarar þeirri verðlækkun, sem síðan hefir orðið. Hjer sje því um alt að milj. kr. innkaup að ræða. Er því augljóst, að allmiklu getur munað, hvernig innkaupin eru gerð. Ef alt er á einni hendi, er samkvæmt algengri verslunarreglu trygging fyrir, að varan fáist með lægra verði heldur en ef margir kaupa sama magn í smáskömtum. Um það er ekki hægt að deila með rökum. Þá er og hægara að komast í bein sambönd við framleiðanda. Nú mun það vera svo, að mikill hluti lyfja er keyptur frá dönsku firma, Alfred Bentzon, sem er eitt af stærstu lyfsölufirmum. Það hefir selt hingað mest öll lyf og eins þau, sem framleidd eru í öðrum löndum, enda sagt, að það hafi fengið einkaumboð fyrir Danmörku og Ísland hjá ýmsum verksmiðjum, þar sem þeir eru einna þektastir umboðsmenn í Danmörku. Hjer er því um hliðstætt dæmi að ræða því, sem var með áburðinn. Þar var líka firma í Danmörku, sem hafði umboð fyrir Ísland. En þegar ríkisstjórnin hjer tók söluna í sínar hendur, þá fjellust þýsku seljendurnir á að láta áburðinn án milliliða. Sennilega verður það eins í þessari grein og verður þá komist fram hjá þessum öðrum óþörfu umboðsmönnum, sem ekki tekst núna.

Nú hefir það gengið svo til í Danmörku og sennilega eins hjer, að þetta firma, Alfr. Bentzon, hefir lagt lyfsölum fje til að byrja með atvinnurekstur sinn. Lyfsalarnir hafa því orðið háðir þessu finna og lent í skuldafjötrum og setið í þeim alla tíð. Veit jeg ekki, hvort svo hefir gengið til hjer. En svo hefir það verið í Danmörku, eftir því sem dönsk blöð herma. Ef hægt væri að komast hjá milliliðum, eru líkur til að hægt verði að ná betra innkaupsverði en nú. Jeg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta nú. Vil aðeins vísa til hins rækilega álits landlæknis, er jeg gat um áður. Óska svo, að frv. þessu verði vel tekið og því að umr. lokinni verði vísað til allshn.