12.03.1929
Efri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

60. mál, einkasala á lyfjum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg bjóst við aths. við frv. þetta, en síst frá læknum. Jeg bjóst við að þeir mundu veita því stuðning, þar sem hjer er fullkomlega sjeð fyrir hag lækna og þeim trygð vörugæði. Meginástæður fyrir þessu frv. eru hinar sömu og athugasemdir landlæknis við frv. 1921. Ef því hv. 5. landsk. vill glíma við þær röksemdir, þá getur hann snúið sjer til landlæknis og sagt honum, að það sje tóm vitleysa, sem hann hafi talið málinu til gildis og hann hafi verið að smíða einokunarklafa með frv. 1921. Hv. þm. sagði, að þetta væri nýr skollafingur, en frv. er nú einmitt gamalt hjer í deildinni, og var þá borið fram og farið höndum um það af þeim, er best máttu hafa vit á því. Jeg skal því ekki rífast við hv. 5. landsk. um gildi frv., enda færði hann engin rök gegn því.

Hv. þm. sagðist engan lækni hafa heyrt kvarta undan fyrirkomulagi því, sem nú er. En jeg hefi heyrt lækna kvarta yfir því. Og í morgun hringdi nágrannalæknir hv. 5. landsk. til mín, og lýsti ánægju sinni yfir því, að þetta frv. væri fram komið og óskaði þess, að það yrði að lögum sem fyrst. Það eru því ekki allir læknar sammála um þetta.

Það má segja, að hv. 5. landsk. færði engin rök móti frv. önnur en þau, að hann kvaðst mótfallinn einkasölu alment. Nefndi hann máli sínu til stuðnings einkasölu á olíu og tóbaki. Hv. þm. sló því fram, að þessar einkasölur hefðu reynst illa, en færði engar sannanir fyrir því. En jeg vil nú benda hv. 5. landsk. á það, að hv. 1. þm. Skagf. (MG), sem hv. 5. landsk. trúir á og fylgir í öllum hlutum, var upphafsmaður tóbakseinkasölunnar og lýsti því yfir, að hún hefði uppfylt allar þær vonir, sem hann gerði sjer um hana í upphafi, þótt hann gerðist banamaður hennar með því að sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Jeg vil skora á hv. 5. landsk. að leita upplýsinga um þetta hjá þessu átrúnaðargoði sínu. Steinolíueinkasalan er nú að vísu nokkuð flóknara mál. En sá, sem flutti það inn í þingið, var hv. 1. þm. G.-K. (BK). Jeg get því bent hv. þm. á það, að „autoritetin“ fyrir þessum einkasölum báðum er að finna í hans eigin liði. Ef hv. þm. trúir á þessi „autoritet“, sem jeg að vísu geri ekki, þá ætti hann að vera vel ánægður með einkasölufyrirkomulagið.

Þá sagði hv. 5. landsk. (JK), að eigi væri trúandi fyrir slíkri verslun mönnum, sem ekki væru fróðir í þeim efnum, og vitnaði í það, að eftir frv. væri forstöðumanni Áfengisverslunarinnar ætlað að sjá um kaup á lyfjunum. Það er rjett hjá hv. þm., að til þess er ætlast í frv., en hann veit einnig, að í lögunum um áfengisverslun ríkisins er það til tekið, að maður með lyfjafræðiprófi skuli hafa eftirlit með lyfjasölu áfengisverslunarmnar. Hygg jeg það vera í 4. gr. laga um áfengisverslun ríkisins. Ætti lyfjaverslunin því að vera í góðum höndum, og virðist mjer varla hægt að ganga lengra, en að umsjón sje falin sjerfróðum manni. (BK: En ábyrgðarlausum). Hv. 1. þm. G.-K. getur auðvitað slegið slíku fram, en ef eitthvað ber út af, yrði maðurinn annaðhvort látinn fara frá eða sæta ábyrgð, ef um stórvægilegt brot væri að ræða.

Að lokum vil jeg benda á það, að svo er til ætlast í frv. á þskj. 86, að einkasalan selji lyf í stórsölu til lækna og lyfsala. Að vísu er ætlast til, að lagt verði lítilsháttar gjald í varasjóð, ef töp yrðu á versluninni, en jeg tel sjálfsagt, að lyfin verði seld við svo vægu verði sem unt er. Mundi einkasalan því tryggja það, að gerð yrðu betri innkaup, og ennfremur, að varan væri betri.