19.04.1929
Efri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

60. mál, einkasala á lyfjum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það er alveg rjett, sem hv. frsm. minni hl. sagði, og sem líka er minst á í brjefi læknafjelagsins, að það er okurtollur, sem lagður er á í áfengisverslun ríkisins. En hitt verður um leið að athuga, að þetta er með vilja gert. Er þetta því hvorki ástæða með eða móti frv. Þingið sjálft hefir ákveðið að hafa þetta svo. Það er líka verk þingsins að leggja háan toll á spíritus, og kemur því heldur ekki þessu máli við. Ef hv. frsm. minni hl. vill láta lækka áfengið, þá verður hann að fá samþ. till. um að fella niður tollinn. (JóhJóh: Jeg talaði aðeins um lyfjaáfengi og lyfjaspiritus!). Hv. þm. gerði þau orð í áliti Læknafjelagsins að sínum orðum, að verð á áfengi væri hið versta okur. Og það á að tolla áfengið. En lyfin eiga að vera með vægu verði. Það var nú auðheyrt á ræðu hv. frsm. minni hl., að hann í raun og veru vill ekkert gera til að lækka verð á lyfjum. Hann gaf reyndar í skyn, að hið háa verð á lyfjum mundi stafa af slælegu eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar. En landlæknir hefir í áliti sínu frá 1921 gert glögga grein fyrir því, hversu erfitt sje að framkvæma slíkt eftirlit á annan hátt en með einkasölu. Jeg veit nú að vísu ekki hvort heilbrigðisstjórnin rækir svo eftirlit sitt sem skyldi. En hún fær harðan dóm, bæði hjá hv. frsm. minni hl. og hjá Læknafjelagi Íslands. En það virðist vera undarlegt að ásaka aðra, en vilja sjálfur ekkert gera til að kippa því í lag.

Þá talaði hv. frsm. minni hl. um það, að hann tryði ekki neinum unglingi til að standa fyrir lyfjaversluninni, eða framkvæma það eftirlit með lyfjabúðum, sem ætlast er til að gert verði. Hann vildi fá reyndum og ráðsettum manni það starf í hendur. Jeg get nú best trúað, að þetta sje öfugt. Ungur maður, vel mentaður, mundi verða athafnameiri og duglegri til þessa starfs heldur en fullorðinn maður, sem stirðnaður væri í því ástandi, sem nú er og verið hefir. Sá yngri myndi verða röskari að bæta ástandið.

Þá leit svo út sem hv. frsm. minni hl. vildi, að fram kæmi þál. till. um að skerpa eftirlit með verði lyfja. En þá er einmitt komið að því aðalatriði, hve erfitt er að framkvæma slíkt eftirlit undir núverandi ástandi, sem er hið sama og það var 1921, þegar landlæknir lýsti því. Nú vill hv. frsm. minni hl. láta líta svo út sem landlæknir sje ekki með einkasölu á lyfjum. Er það hið sama sem að bera í honum á brýn skort á einlægni. Hjer liggur nú álit landlæknis fyrir, og vísar hann í því til álitsins frá 1921. Og í þessu frv. er aðeins eitt atriði, sem hann felst ekki á.

Sú breyting er líka á þessu frv. frá því, sem var 1921, að ekki skuli leggja á lyfin, og felst landlæknir á þá breytingu.

Þá kallaði hv. frsm. minni hl. frv. þetta einokunarfrv. og þess háttar nöfnum. Slíkt heyrist nú svo oft, að það er hætt að hafa mikil áhrif. En svo sagði hann, að fylgi jafnaðarmanna við þetta frv. stafaði af því, að þeir óskuðu eftir einkasölu á öllu, og þetta væri einn hlekkur í þeirri keðju. — Hjer getur nú varla verið um þá ástæðu að ræða, þar sem þetta frv. lýtur hvorki að smásölu lyfjanna nje framleiðslu á þeim.

Þá mælti hv. 6. landsk. nokkur orð á móti frv. Hann var þó á því, að sá þungi dómur, sem upp hefir verið kveðinn gegn lyfjabúðunum um okurverð á lyfjum, væri rjettur. Kemur hann síðan fram með dagskrártill., — sem vísar málinu frá. Held jeg, að lítið vinnist með því, einkum þegar þess er gætt, að hvorki hann nje hv. frsm. minni hl., hafa á nokkurn hátt bent á það, hvernig þessu eftirliti eigi að vera fyrir komið, sem landlæknir telur svo erfitt að framkvæma. Trúi jeg því ekki, að það sem fulltrúi heilbrigðisstjórnarinnar segir um þetta mál, sje ósatt. Hefi jeg á engan hátt reynt hann að því, að fara með ósannar staðhæfingar, enda trúi jeg honum betur í þessu máli en fullyrðingum hv. þm., sem talað hafa móti þessu frv.

Þá talaði hv. 6. landsk. um það sem ástæðu gegn frv., að meðul þyldu ekki að verða gömul og yrði þá að eyðileggja þau. Það er alveg rjett, að það á að eyðileggja meðul, sem orðin eru „forlegin“, sem kallað er. En það var eins og að í þessari mótbáru hv. þm. feldist sú hugsun, að ekki væri nú alveg víst, að lyfjabúðirnar gerðu það æfinlega. Og ef það væri rjett, þá væri það vitanlega einn kostur einkasölu á lyfjum, að koma í veg fyrir það, að mönnum væru seld gömul og skemd lyf. —

Það getur vel verið, eins og hv. þm. hjelt fram, að einkasalan yrði að borga hærra kaup en nú tíðkast hjá lyfjaverslunum. Þær verslanir greiða nú a. m. k. lægra settum starfsmönnum afarlágt kaup. En það er kostur á hverri stofnun, ef hún greiðir starfsmönnum sínum lífvænleg laun.

Hv. 6. landsk. talaði um annað frv., sem væri á ferðinni hjer í þinginu, og lagt hefði verið fram í hv. Nd., og vel má taka til athugunar. En verði það til að fjölga lyfjabúðum mjög, tel jeg það til hins verra. — Því fleiri verslanir með þessar vörur, því hærra verð.

Jeg mun greiða atkv. á móti dagskrá hv. 6. landsk., þó að telja megi, að í henni felist umvöndun til stjórnarinnar og hvatning til þess að gera eitthvað. Að forminu til er þetta frávísun málsins, enda er engin trygging fyrir því, að ríkisstjórnin aðhafist nokkuð í málinu, og síst að hún taki það svo föstum tökum sem vera ber og nauðsyn krefur.