30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

102. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Mjer kom ekki á óvart yfirlýsing hæstv. fjmrh. Hún er nokkuð svipuð þeirri afstöðu, sem jeg bjóst við að hann hefði til málsins og drap á í fyrri ræðu minni.

Hæstv. fjmrh. vill ekki þiggja þann tekjuauka ríkissjóði til handa, sem honum er boðinn með frv. þessu, og kýs heldur að bíða eftir áliti milliþinganefndarinnar í skattamálum, sem m. a. á að rannsaka möguleikana fyrir því, að ríkið taki að sjer einkasölu á ýmsum vörutegundum.

En það er dálítið öðru máli að gegna um tóbakseinkasöluna en aðrar væntanlegar einkasölur. Í fyrsta lagi hefir tóbakseinkasalan verið rekin áður um fjögra ára skeið með góðum hagnaði, og í öðru lagi liggur málið nú fyrir svo vel undirbúið, sem föng eru á, og varla að vænta, að milliþinganefndin búi það betur úr garði, þó að hún hafi það til athugunar um eins árs skeið, því að ætla má að hún skili ítarlegu nál. fyrir næsta þing.

Ef það skyldi nú verða ofan á, að milliþinganefndin, eða meiri hl. hennar, tæki upp frv. um einkasölu á tóbaki og legði það fyrir næsta þing, þá væri enginn annar árangur af stefnu hæstv. fjmrh. en að ríkið misti tekjur um eitt ár og einmitt það árið, sem það hafði mesta þörf fyrir þær.

Hæstv. fjmrh. sagði með nokkrum drýgindum, að hann hefði lagst á móti öllum breytingum, sem fram hefðu komið á þessu þingi á skatta- og tolllögum. Jeg get vel skilið afstöðu fjmrh. sem gjaldkera ríkisins, þó að hann sje á móti því að leggja niður skattstofna. Það verður að álítast ekki nema mannlegt. Hitt er fátíðara, að gjaldkeri ríkisins leggi á móti því að fá peninga í ríkiskassann.

Hæstv. fjmrh. sagðist ekki vilja grauta í skattalögum. En jeg sje ekki betur en að hjer sje um heilsteypt mál að ræða og sjerstakan lið, og valdi engri grautargerð í skattamálum. Hann vildi líka setja framkomu þessa frv. í samband við till. þá, sem jeg hefi flutt um launabætur til embættismanna. Hæstv. fjmrh. má gjarnan gera það. Sú till. fer fram á aukin útgjöld, en með frv. þykist jeg hafa bent á tekjuauka, sem nægði til þess að greiða uppbæturnar svo að ekki hallist á.

Árangurinn af því starfi, sem varið hefir verið til þess að undirbúa þetta mál, virðist þá ætla að verða sá, að sumir hv. framsóknarm. og íhaldsmenn taki höndum saman og fallist í faðma til þess að koma frv. fyrir kattarnef. Það hefir eflaust fáa órað fyrir slíku bandalagi í þeim umr., sem urðu á milli þessara flokka um málið á þinginu 1925. Jeg má til með að biðja hæstv. forseta um leyfi til að lesa hjer upp úr Alþt. frá því ári nokkur vel valin kveðjuorð til föður tóbakseinkasölunnar, hv. 1. þm. Skagf., er hv. þm. Str., núverandi hæstv. forsrh., flutti af prestlegri mælsku, eins og vel við átti, við útför tóbakseinkasölunnar, og geta þá þessi orð verið jafnframt kveðja mín til hv. andstæðinga í minna í þessu máli; en þessi ummæli hv. þm. Str. (TrÞ) hljóða þannig:

„Jeg býst við, að eftir örfáar mínútur fari fram atkvgr. í þessu máli, svo að þetta verða síðustu orðin, sem jeg fæ að segja. Jeg vil því enda mál í mitt með örfáum orðum til viðbótar, sem þá eru kveðjuorð mín til föður þessa skipulags, sem eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) komst að orði, er skilgetinn faðir þess barns, sem nú er verið að bera út. Jeg ætla að kveðja hann með sögu úr fornu riti og það ljótri sögu. Það á ekki illa við, því það er ljótt mál, sem hjer á að koma í gegn, og ljótt verk, sem hjer er verið að vinna. Þessi saga er af því, að seint á Sturlungaöldinni fór Einar Ásgrímsson að Stað í Steingrímsfirði til þess að sækja heim Vigfús Gunnsteinsson. Sló hann hring um bæinn og kveikti í. Í liði Einars var Eyjólfur nokkur Rögnvaldsson. Rögnvaldur faðir hans var inni í eldinum, og það vissi Eyjólfur. Hann margbað föður sinn að ganga út, en það var árangurslaust. — Jeg efa ekki að hæstv. atvmrh. (MG) hefir gert margar tilraunir til þess að bjarga barni sínu, sem nú á að bera út. Jeg veit, að hann hefir margoft reynt að leiða flokksmönnum sínum fyrir sjónir, hvílíkt óhappaverk þeir væru að vinna, en það hefir ekki tekist, og því fer nú fyrir hæstv. atvmrh. (MG) eins og fór fyrir Eyjólfi. Eyjólfur sagði: „Brendu þá inni, djöfuls karlinn.“ Hæstv. atvmrh. segir: „Verði það þá borið út, barnið mitt.“

Svona eru þá endalokin á þessum þætti tóbakseinkasölunnar. Nú hjálpast þau bæði að því, Íhaldið og Framsókn, að bera barnið út.