02.03.1929
Efri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Flm. (Jón Þorláksson):

Nú á síðari árum hafa orðið nokkrar framkvæmdir í því, að einstök heimili til sveita hafa komið sjer upp raforkustöðvum til notkunar fyrir heimilin. Eru þær yfirleitt svo stórar, að þær fullnægja þörfum heimilanna til ljósa, matreiðslu og heimilisiðju, þar sem um slíkt er að ræða, og til nauðsynlegustu herbergjahitunar. —

Það hefir nú fljótlega orðið ljóst, að slíkar stöðvar veita heimilunum einhver hin mestu lífsþægindi, sem um er að ræða til sveita. Má jafnvel heita, að mörgum finnist tilveran gerbreytt hjá þeim mönnum, sem þessi þægindi hafa fengið, samanborið við hina, sem ekki hafa fengið þau. Þar við bætist ennfremur, að á þeim býlum, sem hafa komið slíkum stöðvum upp, breytast ræktunarmöguleikarnir að stórum mun, þar sem ekki er lengur þörf á að nota áburðinn til eldsneytis.

Þrátt fyrir hina miklu kosti, sem stöðvar þessar hafa, fylgja þeim þó líka töluverðir gallar, sem einkum eru „teknisks“ eðlis. Án þess að jeg að þessu sinni ætli að fara mikið út í að ræða þá, vil jeg geta þess, að miklir örðugleikar hafa orðið á því við þessar smástöðvar, að fá sjeð um að spenna rafmagnsins haldist jöfn, þrátt fyrir mismunandi notkun. Á síðari árum hafa þó erlendar verksmiðjur gert ítarlegar tilraunir til þess að gera vjelarnar þannig, að spennan haldist jöfn, en enn sem komið er, hefir þó ekki tekist að bæta úr þeim galla til fullnustu. Þannig hafa sumar vjelarnar reynst illa, en aðrar vel, ef þær hafa verið hirtar af sjerfróðum mönnum. Meðan svo er, að ekki er hægt að halda spennunni nokkurnveginn jafnri, geta t. d. ljósin ekki verið í lagi, og öllum raftækjunum er beinlínis hætta búin, og það því fremur, sem þessar smástöðvar hafa yfirleitt verið gerðar sem ódýrastar, og því margt til þeirra sparað. Er því ýmsum hlutum þeirra hætt við bilunum, og því jafnframt hætt við að þær endist ekki lengi.

Þótt menn geri sjer nú vonir um, að hægt verði að sigrast á þessum teknisku erfiðleikum, þá er annar höfuðgalli þessarar tilhögunar sá, að fjöldi af býlum landsins er þannig settur, að þau eiga engan kost á þeirri orku, sem til þess þarf, að koma upp hjá sjer slíkri heimilisstöð. Fram hjá þessum örðugleika viljum við flm. sneiða með frv. því, sem hjer er til umræðu, þar sem við ætlumst til, að komið verði upp sameiginlegum raforkuveitum til almenningsþarfa. Erlendis hefir þessum málum verið líkt háttað og hjer, einstök heimili eða smáhverfi hafa í fyrstu komið upp hjá sjer raforkuveitum til eigin þarfa, en gallar smástöðvanna hafa komið þar fljótlega í ljós. Hefir það því orðið ofan á, að koma upp stærri stöðvum með orkuveitutaugum yfir stór svæði, og yfirleitt hefir stefnan í þessum málum orðið þar sú, að svæði þau, sem hvert einstakt orkuver nær yfir, hefir altaf verið að stækka. Þannig hafa t. d. ekki aðeins orkuver einstakra heimila verið lögð niður, heldur einnig stöðvar, sem eru stórar eftir okkar mælikvarða, stöðvar sem hafa jafnvel fullnægt stærri borgum en Reykjavík, ef kostur hefir orðið á orku frá stærra veri. Milliþinganefndin í vatnamálum, sem starfaði 1918, kynti sjer þessi mál mjög rækilega, og var hún ekki í neinum vafa um, að endanleg úrlausn þeirra yrði að vera sú, að hjer væri komið upp raforkuveitum til almennings þarfa. Þessi sannfæring milliþinganefndarinnar mótaði mjög starf meiri hlutans, og jeg get gjarnan sagt frá því hjer, að afstaða sú, sem hann tók um rjettindin til vatnsorkunnar, mótaðist ekki hvað síst af því, að honum var þá þegar ljóst, að fljótlega myndi koma að því, að almenningsþörf krefðist þess, að unt væri að fá fallvötn afarkostalaust til almenningsþarfa.

Af þessum ástæðum taldi meiri hluti nefndarinnar ekki rjett, að sá, sem land ætti að vatninu, gæti fengið aðstöðu til þess að selja orkuveitingarrjettinn afarverði. Eins og menn eflaust muna, varð einskonar málamiðlun ofan á hvað eignarrjett vatnsins snerti, þegar vatnalögin voru afgreidd, sem þó gekk ekki lengra en það, að meiri hluti milliþinganefndarinnar fjekk því framgengt, sem hann taldi mestu máli skifta, eins og 2. gr. laganna ber vitni um. Annars bera vatnalögin þess menjar, að milliþinganefndinni var fyllilega ljós þörf almennings á því, að fá raforkustöðvar til almennings nota. Eru í lögunum ýms ákvæði, sem eru nauðsynleg sem grundvöllur undir löggjöf um þau efni. Liggur því ekki fyrir nú að taka neitt af þeim ákvæðum upp í frv. þetta.

Mál þetta er í augum okkar flutningsmanna alþjóðarmálefni, sem ekki verður leyst til fullnustu nema með löngum tíma. Hjer er um það að ræða, að koma á umbótum í landinu, sem í okkar augum að minsta kosti verða að teljast hliðstæðar því, sem vita, síma og vegalöggjöf eru hver á sínu sviði. Við lítum ennfremur svo á, að þetta mál sje það áhrifamesta, sem nú er hægt að koma auga á, til þess að gera sveitirnar byggilegar til jafns við bæina, og byggi jeg þá fyrir mitt leyti skoðun mína á þeim mismun, sem jeg hefi sjeð á lífsþægindum þeirra heimila, sem fengið hafa slíkar raforkustöðvar sem áður voru nefndar, samanborið við þau heimili, sem ennþá hafa ekki átt kost á að njóta slíkra þæginda.

Við flm. frv. höfum eigi sjeð möguleika til þess að koma fram með kostnaðaráætlanir á þessu stigi málsins. Slíkar áætlanir var eigi heldur unt að gera, þegar vegalögin voru sett fyrst, og þessi lög mundu eftir eðli sínu verða hliðstæð vegalögunum að því leyti, að kostnaðaráætlanir yrðu að leggjast fram smátt og smátt um leið og hjeruðin væru tekin fyrir. Við flm. hugsum okkur, að um tilkostnað ríkissjóðs af þessum framkvæmdum ríki samskonar fyrirkomulag og fylgt er um aðrar framkvæmdir ríkisins, sem standa yfir áratugum saman, að ríkið standi straum af þeim með fjárveitingum á fjárlögum eða með lánum, eftir því sem best hentar og ákveðið verður í hvert sinn.

Því næst skal jeg víkja nokkrum orðum að ákvæðum frv. sjálfs.

Það, sem við teljum fyrsta aðalatriðið í því, er að ríkið styðji fyrirtækin með því að leggja þeim til aðstoð kunnáttumanna, sem það annaðhvort hefir nú í þjónustu sinni eða tekur í þjónustu sína síðar. Ætti ríkið þannig að sjá um allan verkfræðilegan undirbúning orkuveitanna. Samkvæmt þeim grundvelli, sem lagður var með vatnalögunum, eru það hreppsnefndir og sýslunefndir og svonefnd orkuveitufjelög, sem eiga að hafa forsjá þessara mála utan kaupstaða. Þegar um orkuveitufjelög er að ræða, koma frumkvöðlar fjelagsstofnunar í stað sýslunefndar eða hreppsnefndar, þangað til fjelagið er fullstofnað. Eftir frv. því sem hjer liggur fyrir, eiga þessir aðilar að snúa sjer til stjórnarinnar, ef þeir æskja rannsóknar með tilliti til væntanlegrar virkjunar, og leggur hún þá til ókeypis verkfræðiaðstoð við rannsóknina. Jeg vil taka það fram, að jeg álit að orkuveitufjelögin þurfi ekki endilega að vera bundin við hrepp eða sýslu, heldur megi tveir hreppar eða fleiri gjarnan mynda fjelag út af fyrir sig, ef það hentar betur. Nú geri jeg ráð fyrir, að ríkið kosti þennan undirbúning að mestu. Og í samræmi við ákvæði vatnalaganna er svo fyrir mælt í frv., að vegamálastjóri skuli vera ráðunautur stjórnarinnar við þennan undirbúning. Meiri hluti vatnamálanefndarinnar lagði að vísu til, að yfirráð þessara mála yrðu falin sjerstakri vatnamálastjórn, en að svo komnu máli sjáum við okkur ekki fært að fara fram á neina slíka aukning á starfsmannahaldi, enda teljum við þess eigi brýna þörf, að svo stöddu, þótt það fyrirkomulag gæti verið æskilegt, er framkvæmdir aukast.

Hitt aðalákvæðið er um framlög ríkisins til framkvæmdanna sjálfra. Tvær ástæður mæla með slíkum framlögum. Í fyrsta lagi er það altítt, að ríkið leggi fram fje til fyrirtækja einstaklinga og hjeraða, ef álitið er að það muni koma almenningi að gagni, en hlutaðeigandi á erfitt með að koma því af stað í byrjun. Í öðru lagi stendur alveg sjerstaklega á um þau fyrirtæki, sem hjer ræðir um, vegna þess að óvenjulega miklir örðugleikar eru á að koma þeim í framkvæmd. Veldur þar eigi síst strjálbýli landsins og fámenni. Nú leggjum við flm. til, að framlögum ríkissjóðs verði fyrst og fremst varið til þess að vega á móti þeim erfiðleikum, sem stafa af hinum sjerstöku aðstæðum hjer á landi, þ. e. strjálbýlinu. Því ætlumst við til, að ríkið ljetti einkum undir við kaup á efni til taugakerfisins eða háspennutauganna, sem stundum eru nefndar. Höfum við helst hugsað okkur að framlag ríkissjóðs yrði miðað við andvirði þess efnis.

Sje gengið út frá því að ríkið leggi fram fje, að því leyti, sem jeg nú hefi talað um, en hvert heimili beri jafnframt að sínum hluta það af hinu sameiginlega verki, sem eðlilegt má telja að verði eign þess, þykir okkur ástæða til að búast við, að framkvæmdir yrðu ekki ókleifar. Væntum vjer flm. þess, að óhætt sje að setja markið svo hátt, að kostnaður hvers heimilis, þar sem aðstaða er bærileg til að framleiða raforku til almenningsþarfa, fari ekki fram úr tilsvarandi heimilis, sem hefir miðlungs góða aðstöðu til heimilisvirkjunar fyrir sig sjerstaklega.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við svona fyrirtæki falli með eðlilegum hætti í þrjá liði. Fyrst má þá telja aflstöðina sjálfa, sem kostuð verður í sameiningu af notendum aflsins. Það mun vera nokkurnveginn algild regla, að slíkar aflstöðvar verði því ódýrari á hvert hestafl, sem þær eru stærri. Fer það þó vitanlega nokkuð eftir aðstöðu til virkjunarinnar. Þau heimili, sem besta hafa aðstöðuna, geta ef til vill fengið ennþá ódýrara afl, með því að vera ein um virkjun, og svo slæm getur aðstaðan verið til að byggja stóra stöð, að hún verði nokkuð dýr í samanburði við stöðvar einstakra heimila. En aðalreynslan er samt sú, að því stærri sem stöðin er, því ódýrari verður hún tiltölulega.

Þá kem jeg að 2. lið kostnaðarins, en það eru veitutaugarnar. Það er einmitt þessi liður, sem mestum erfiðleikum veldur hjer í strjálbýlinu. Og þennan lið viljum við einmitt ljetta með framlagi ríkisins, til þess að jafna aðstöðumuninn. Jeg ætla ekki að slá fram neinum tölum um það, hvað slík taugakerfi muni kosta. Liggja þó fyrir ýmsar athuganir um það efni. En þess er að gæta, að sú ítarlegasta af þessum athugunum var miðuð við verðlag á þeim tíma, þegar það var miklu hærra en nú, n.l. árið 1920, og er því minna hægt á henni að byggja. En nú liggur einmitt fyrir það rannsóknarefni, á hvern hátt sje unt að draga úr kostnaðinum við taugarnar. Eitt atriði vil jeg nefna, sem miklu veldur um þann kostnað. Hingað til hefir nærri eingöngu verið notaður kopar í slíkar leiðslur. En til álita gæti komið, hvort eigi mætti komast af með járnþráð sumstaðar í greinum og álmum slíks taugakerfis, og mundi það draga úr kostnaðinum til mikilla muna. En við lítum svo á, að ef ríkið gæti ljett nægilega undir þennan lið kostnaðarins, væru mestu erfiðleikarnir yfirunnir.

Þá kem jeg að þriðja liðnum, en það er spennistöðin heima á hverjum bæ, heimtaug og innanbæjarveita. Spennistöð fyrir einstakt heimili er einfalt áhald og ódýrt. Mætti setja hana þar sem hentugast þætti með tilliti til þess, að allar leiðslur yrðu frá henni heim að bænum. Kostnaðurinn við spennistöð og heimtaug yrði ekki nema lítill hluti þess, sem orkuver til heimilisnota kostar, því að bæði fellur burtu aflstöðin sjálf, og svo er lega hennar bundin við fallvatnið, og það er sjaldan svo nálægt, að kostnaðarlaust sje að koma rafmagninu heim þaðan.

Okkur er það ljóst, flm. frv., að með því að ráðast í fyrirtæki eins og rafmagnsveitu, er verið að leggja á þjóðina byrði, sem að mestu leyti lendir á þeirri kynslóð, sem kemur fyrirtækjunum upp. En orkuveri og veitum er svo háttað, að mikill hluti þessa endist mannsöldrum saman. Vjelar, sem snúast dag og nótt, árum og áratugum saman, ganga að vísu úr sjer og þurfa endurnýjunar. En mestur hluti verksins kemur þó að notum um langan aldur. Og við verðum að horfa fram á örðugleika þessara fyrirtækja eins og þeir eru og fara að gagnvart þeim eins og öðrum framfaramálum og láta ríkið leggja á sig byrðar eftir getu, til þess að sem flestir landsmenn geti orðið aðnjótandi þeirra hlunninda, sem það hefir í för með sjer.

Jeg skal taka það fram, að sumstaðar, einkum í afskektum sveitum og heimilum, sem fjarri eru bygðum, getur orðið ódýrara að virkja á annan hátt en hjer er gert ráð fyrir. Jeg geri því eigi ráð fyrir, að raforkuveitur þær til almenningsþarfa, Sem frv. fer fram á, þurfi að teygja sig út í hverja sveit og hvern bæ. Jeg álít, að þessar tvær úrlausnir raforkumálsins, almennings- og einstaklingsorkuveita, eigi að haldast í hendur, eftir því sem við á.

En það er okkur flm. ljóst, að ef beðið verður með fjelagsframkvæmdir í þessu efni, verður það til þess, að fjöldi einstakra manna reisir stöðvar á bæjum sínum, og tekur þá eðlilega eigi þátt í fjelagsskapnum, þegar hann verður stofnaður. Það er ekki í síst af þessum ástæðum, sem við álítum að aðgerðum í þessu efni af ríkisins hálfu beri að flýta.

Mun jeg svo eigi ræða mál þetta frekar að svo stöddu. Eftir efni frv. mundi það helst eiga heima hjá allsherjarnefnd. En hjer er um stórt fjárhagsatriði að ræða, og gæti jeg því vel í gengið inn á, að frv. yrði vísað til fjhn.