05.04.1929
Efri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Fjhn. hefir ekki getað orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa máls. Þó er ekki svo að skilja, að mikið beri á milli í grundvallarskoðunum. N. er öll sammála um það, að ýta þurfi undir þessar framkvæmdir og styrkja þær. En meiri hl. n. telur málið svo lítið undirbúið og útgjöld eftir frv. svo óákveðin, að hann sjer ekki annað fært, en að vísa því til ríkisstjórnarinnar til frekari undirbúnings og athugunar, og gerir það því að till. sinni. Eftir frv. á stjórnin að leggja til kunnáttumenn til að mæla og rannsaka fallvötn og undirbúa rafvirkjun, Þessar kröfur geta áreiðanlega orðið svo víðtækar, að jafnvel öll hjeruð mundu svo að segja strax biðja um þetta, ef frv. verður samþ. Ennfremur gætu einstakir menn, er fallvötn eiga, krafist hins sama, ef þeir mynda um þau fjelagsskap. Þetta er nú aðeins upphaf málsins, en síðar kemur svo krafa um fjárstyrk til undirbúnings og framkvæmda verksins. Getur það, eins og bent er á í nál. meiri hl., orðið allmikil upphæð fyrir alt landið. Þannig mundi virkjun, sem rannsökuð hefir verið fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, eiga að fá styrk úr ríkissjóði alt að 1 milj. króna. Auk þess yrði ríkissjóður að hlaupa undir bagga og ábyrgjast lán þau, sem hjeruðin þyrftu að taka til þess að byggja orkuverin, því að óhugsandi er, að þau geti af eigin rammleik lagt fram eða útvegað hjálparlaust fje til þeirra.

Ef því ætti á þennan hátt að styrkja öll hjeruð landsins, er greinilegt, að ríkissjóður gæti ekki risið undir þeim útgjöldum, sem af því mundi leiða. En þótt meiri hl. sjái þetta, játar hann einnig, að slíka styrki geti verið rjett að veita, en til þess að slíkt geti orðið, þarf traustari grundvöll og meiri undirbúning en enn er fyrir hendi í þessu máli. Leggur meiri hl. því til, að sú leið verði farin, að fá stjórninni mál þetta til frekari undirbúnings, að öðrum kosti er hætt við að ríkissjóður og Alþingi verði í stöðugri klípu að ráða fram úr því, hvort eða hvernig sinna beri þeim umsóknum, er til þess berast. Hver þm. myndi þá koma með umsókn frá sínu kjördæmi og heimta styrk, alveg á sama hátt og nú rignir yfir þingið frv. um hafnargerðir og hafnarbætur víðsvegar á landinu, sem auðvitað eru nauðsynlegar, en ríkissjóður getur ekki staðið straum af í einu.

Jeg vil í þessu sambandi víkja að orðum rafmagnsstjórans í Reykjavík, hr. Steingríms Jónssonar, er hann ljet falla á fundi nefndarinnar, þegar mál þetta var rætt. Hann bjóst við því, að kostnaðurinn við virkjun fyrir alt landið til almennings þarfa, án þess þó að gert væri ráð fyrir rafmagni til hita, mundi verða um 75 milj. kr. Síðar hefi jeg átt tal við hann um þetta, og kvað hann þá að gera mætti ráð fyrir, að kostnaður yrði ef til vill ekki nema 71 milj. 500 þús. kr. — Nú er þetta auðvitað ágiskun, og er enginn vali á því, að þessar tölur eru of lágar, einkum þegar þess er gætt, að hjer er ekki reiknuð þörf almennings á rafmagni til hita, en sú krafa mundi þegar koma fram, að fá rafmagn til hitunar, bæði í sveitum og kaupstöðum. Nauðsyn þess er mjög mikil til sveita, enda hefði það ekki lítið að segja, ef hægt væri að hita bæi í sveitum upp með rafmagni og gera híbýlin þannig vistlegri en þau hafa verið. Það hefir lengst af verið svo til sveita, að menn hala orðið að „klæða af sjer kuldann“, því að oft hefir ekki verið nema ein eldstó á bænum. Verður ekki reiknað, hve mikið böl þetta hefir af sjer leitt, og hver áhrif það hefir haft á heilsufar þjóðarinnar.

Nú, þegar efnafólkið í bæjum og sveitum getur veitt sjer öll þægindi nútímans, rafmagn til ljósa og hitunar eða þá miðstöðvarhitun, verður sú krafa sterkari og sterkari hjá öllum almenningi, að hann fái einnig hlutdeild í þessum miklu þægindum.

Jeg sje, að hv. minni hl. líkir máli þessu við framkvæmdir á vegalögunum. Hann segir svo í áliti sínu, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar vegalögin voru fyrst sett, var engin vitneskja fyrir hendi um það, hve mikið mundi kosta að koma akvegi heim á hvern bæ. Samt voru vegalögin sett, og síðan hefir verið unnið að vegagerðinni nálægt 40 ár.“ — Þótt þetta í fljótu bragði kunni að virðast sambærilegt, þá er það þó eigi svo, við nánari athugun.

Það er hægt að hætta við vegarspotta, án þess að af því leiði verulegt tjón, en hinsvegar er ómögulegt að hætta við slíkt fyrirtæki sem þetta, er hjer um ræðir, í miðjum klíðum. Þegar byrjað hefir verið á orkuverinu og t. d. búið að kaupa allar vjelar, verður að halda áfram, þar til að stöðin er fullreist, og síðan verður að leiða rafmagnið heim til kaupandanna, því annars standa ef til vill miljónafyrirtæki arðlaus, en velta upp á sig þungum rentubyrðum. En um slíkar fjárhæðir er ekki að ræða í einstökum vegalagningum, og vegirnir koma líka að notum, svo langt sem þeir ná. Þetta tvent er því ekki sambærilegt.

Við getum tekið dæmi eins og Kjósarveginn. Árlega bætist við þann veg, og kemur hver vegarspotti að tilætluðum notum. En ef lítið fje er í ríkissjóði eitt árið, er hægt að lækka fjárhæðina til vegagerðar, og er þá ef til vill ekki lagður neina 5 km. langur spotti eitt árið, í stað þess, að áður hafa það verið 10 km. árlega.

Á þennan hátt er ekki hægt að reisa orkuverin. Þar má ekki fresta framkvæmdum árum saman, eftir að á þeim hefir verið byrjað.

Ennfremur gerir hv. 3. landsk. ráð fyrir því í frv. sínu, að heimilin eigi kost á því, að fá lán á sama hátt og með sömu kjörum og nú eru veitt þeim, er koma upp orkustöðvum á einstökum býlum. Svo að haldið sje við það dæmi, sem tekið hefir verið um í raforku handa Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, þá ætti hvert býli að eiga í kost á láni, vegna þeirra framkvæmda, í sem gerð er á heimilunum.

Nú hefi jeg spurt forstjóra Ræktunarsjóðs, hvernig þau lán væru veitt, er sjóðurinn veitti einstaklingum til heimilisvirkjunar. Hann sagði, að sjóðurinn lánaði alt að helmingi alls kostnaðar, en þó væri ekki venja að lána út á áhöld innanhúss. Myndu slík lán handa áðurnefndum hjeruðum nema mörgum hundruðum þúsunda, og þyrfti þá til slíks að hafa handbært fje í Ræktunarsjóði, og þegar alt landið, eða stór hluti þess, hefir fengið rafmagn, er ekki vafi á því, að auka þyrfti að miklum mun lánsfje Ræktunarsjóðs.

Við þessu er ekkert að segja, ef sjóðurinn getur samt sem áður fullnægt þeim kröfum, sem aðallega eru gerðar til hans, en ef þetta yrði til þess, að draga úr hinu eiginlega starfi sjóðsins, teldi jeg ver farið.

Jeg er sammála hv. minni hl. fjhn. um það, að rjettara sje að hafa fáar en stórar orkustöðvar heldur en margar miðlungsstórar, og sjerstaklega er það varhugavert, ef hver hreppur færi að byggja sjer stöð, því að á þann veg yrði rekstrarkostnaður allur meiri. Hinsvegar er líklegt, að heimilisstöðvar einstakra manna geti borið sig, og verður því að leggja áherslu á að styrkja minstu og stærstu stöðvarnar.

En það er alveg órannsakað, hvernig máli þessu verður best komið í framkvæmd. Nú er mikið rætt um virkjun Sogsins, og er áætlun fullgerð, svo að ekki stendur á henni. Hitt hefir enn ekki verið athugað, að hve miklu leyti Sogið gæti veitt rafmagn til hjeraðanna hjer sunnanlands. Finst mjer lástæða til þess, að ríkisstjórnin láti taka til athugunar, hvort rafmagn frá Soginu ekki fullnægi þörfum hjeraðanna á Suðurlandsundirlendinu að miklu leyti, svo og Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, og ef til vill Hnappadalssýslu, og athugaði þetta auðvitað með hliðsjón af því, hvað það kostar að hyggja stöðvar fyrir hin einstöku hjeruð.

Ef hjeruðin og einstakir menn eru alveg látin ráða undirbúningi og framkvæmdum í þessu máli, getur farið svo, að þar verði hver höndin uppi á móti annari, eins og t. d. er um skólamál Sunnlendinga. Hvert hjerað mundi koma upp sinni stöð, og hver þm. kæmi með umsóknir um styrki til síns kjördæmis. Málinu væri þá komið í þann glundroða, sem ekki er víst að þingið gæti ráðið við, ef þeim tökum væri slept, sem meiri hl. álítur að Alþingi ætti að hafa í þessu máli.

Skoðun dómbærra manna á máli þessu er sú, að ríkið eigi að hafa hjer forgöngu á að athuga og undirbúa málið svo sem frekast er unt, enda sje það alls ekki nógu undirbúið nú til þess að hægt sje að setja um það lög, svo sem hjer er farið fram á.

Jeg hefi áður vikið að því örfáum orðum, hvaða aðalástæðu meiri hl. hefir fyrir því, að hann vill ekki samþ. frv. En þótt meiri hl. vilji ekki samþ. frv., er honum það engu að síður ljóst, að hjer er um mikilsvert mál að ræða, sem nauðsyn er á að halda vakandi. Stjórnin á að fela kunnáttumönnum að rannsaka það, á hvern hátt málinu væri ódýrast og best fyrir komið, hvernig ætti að virkja, og hvaða kostnað mundi af slíkri virkjun leiða fyrir hjeruðin, einstaklingana og ríkið.

Þá ætti einnig að rannsaka, hvernig raforkuveitum til almenningsþarfa væri hagað erlendis. Í Suður-Svíþjóð og jafnvel sumstaðar í Danmörku, hafa verið taldir erfiðleikar á því, að koma rafmagni heim á öll býlin, sökum strjálbygðar. Hvað mun þá verða hjer á landi?

Því hefir verið haldið fram, að reikna mætti 1½ km. að meðaltali á milli bæja. Sumir nefndarmenn meiri hl. álíta, að sú vegalengd sje áætluð alt of stutt, því að víða hagar svo til, sjerstaklega á útkjálkum landsins, að meðaltalsfjarlægð verður miklu lengri. En víða er líka þjettbýlt, svo að þetta getur jafnast upp.

Það er till. meiri hl., að málinu verði vísað til stjórnarinnar, en til þess að halda því vakandi, verði á fjárlögum veitt fje til þess að vinna að frekari undirbúningi.

Við höfum getið þess sjerstaklega í nál., að við óskuðum, að stjórnin hefði rafmagnsstjórann í Reykjavík, Steingrím Jónsson, með í ráðum, því að við teljum hann meðal þeirra, er mestan kunnugleika hafa á þessum málum.

Læt jeg þá lokið máli mínu og mun bíða átekta, þar til frsm. hv. minni hl. hefir gert grein fyrir sínum tillögum.