06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. minni hl. (JÞ) hjelt því fram, að ekki hefðu komið fram neinar aths. við frv. hans. En þetta er ekki rjett. Jeg nefndi framlag ríkissjóðs og undirbúning samkv. 2. gr. frv. Þar er sagt, að þegar æskt er eftir, þá skuli ríkisstjórnin láta fram fara rannsókn. Þessi ákvæði eru svo víðtæk, að einstakir menn geta smeygt sjer undir þau og krafist rannsóknar, án tillits til almenningsþarfar. Þannig geta máske fossaspekúlantar krafist athugunar á orku fossa og leiðslu frá þeim. Gæti það jafnvel orðið til þess, að gera vatnsrjettindakaup dýrari fyrir almenning, því að gjald fyrir orkuvatnið gæti hækkað, þegar búið væri að rannsaka aðstöðuna. Sama er að segja um tillag ríkissjóðs eftir 3. gr. frv., þar sem hann á að greiða fyrir aðkeypt efni til veitutauga um hjeruðin. En það mun nema sem svarar ½ kostnaðar við veitutaugarnar. Um þetta var talað í framsögu og einnig er farið allítarlega út í það í nál. meiri hl. Eftir rannsókn í Borgarfirði, myndi tillag ríkissjóðs til veitutauga nema 960 þús. kr. í því hjeraði. En svo er enn við það að athuga, eins og n. gekk út frá og hv. 3. landsk. gerir líka, að hvert heimili fær ekki meira rafmagn en nægir til suðu og ljósa. Þá vantar alveg til híbýlahitunar, nema þá til að ylja lítilsháttar haust og vor með afganginum, eins og rafmagnsstjórinn segir. Jeg held, að þeim heimilum, sem nú hafa komið sjer upp rafstöðvum, þætti þetta lítið. Ef miða ætti við rafmagn til allrar heimilisnotkunar, þá yrði þessi kostnaðarliður hærri en gert er ráð fyrir í nál. meiri hl., og þá þarf í að byggja stærri orkuver. Ef þetta er í tekið eins og gert er í áliti fossanefndarinnar frá 1919, á bls. 105, þá þyrfti um 65 þús. hestöflum meira, og kostnaðurinn yrði þá um 32 milj. kr. hærri en í nál. meiri hl. áliti fossan. er gert ráð fyrir því, að hæfileg rafmagnseyðsla á mann sje 875 watt, eða 1½ hestorka á túrbínumöndli. Þar er og gert ráð fyrir því, að meðalheimili þurfi 12 hestorkur til allra nota, ljóss, suðu og hita. Í áætluninni um rafveitu í Borgarfirði er ekki gert ráð fyrir meiri orku en 2 kw. á heimili, en í áliti sínu 1919 gerir Jón Þorláksson ráð fyrir því, að hvert heimili þurfi að meðaltali 8 kw.

Af þessu er auðsjeð, að áætlanir þær, sem meiri hl. kom með, eru alt of lágar. Og ekkert vit er í öðru, en miða stærð orkuvera við fylstu þarfir. Svo stórfelt fyrirtæki má ekki vera neitt hálfverk. Einkum er þetta áríðandi til sveita, þar sem upphitun er erfið og dýrir flutningar á eldsneyti. Í kaupstöðum er nokkru hægara um eldsneyti og þægilegri tæki, miðstöðvar, til að hita upp húsin með. Upphitun sveitabæja með raforku á því hjer að koma til greina við athugun málsins. En um leið eykst líka kostnaður við leiðslur og heimilistæki, auk þess sem orkuverin sjálf verða miklu stærri og dýrari.

Hv. aðalflm. (JÞ) vildi halda því fram nú í ræðu sinni, að frv. þetta gerði ekki ráð fyrir öðru en undirbúningi þessa máls. En í frv. er þó sagt fyrir um það, að ríkið skuli kosta allan tekniskan undirbúning þessa máls, og auk þess er sagt fyrir um það, hvern þátt ríkið skuli taka í framkvæmd verksins á hverjum stað. Hjer er því samkv. frv. um meira en undirbúning að ræða. Enda ef ekki væri um annað að ræða, þá gæti hv. flm. verið ánægður með, að frv. væri vísað til stjórnarinnar til undirbúnings. Steingr. Jónsson rafmagnsstjóri segir líka í brjefi til fjhn., sem prentað er á þskj. 184, að — með leyfi hæstv. fors.: „Ef hugsað væri til þess, að veita raforku um stóra landshluta, er nauðsynlegt, að fyrirfram sje rannsakað, hvar orkuverin eigi helst að vera, og í hvaða röð þau eigi að koma upp, m. ö o., það þarf að vera til ákveðið skipulag á þessu sviði. Það þarf einnig að vera gerð grein fyrir, hver eigi að eiga og reka orkuverið — —“. Það er einmitt þetta sama og felst í orðum rafmagnsstjóra, sem er aðalástæðan fyrir till. meiri hl. n. í þessu máli. Ef farið væri að till. minni hl. n. og frv. þetta samþ., þá gæti svo farið, að hver og einn heimtaði rannsókn hjá sjer og framkvæmd, án þess fyllilega væri rannsakað, hvernig haganlegast væri að skipuleggja þetta. Hvert hjerað vildi máske vera út af fyrir sig, og hver fjörður sömuleiðis. Þetta mál alt þarf því að rannsaka nákvæmlega, áður en byrjað er á framkvæmdum. Má vel vera, að rjettara sje að setja löggjöf um þá rannsókn, heldur en vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings.

Þá tók hv. frsm. minni hl. til yfirvegunar útreikninga meiri hl. fjhn. um leiðslukostnað á öllu landinu. Komst hann samkv. þeim útreikningi að þeirri niðurstöðu, að það væri í hæsta lagi 11% milj. kr., sem kæmi í hluta ríkisins að greiða, ef leiðsla á hvern km. kostaði 3000 kr. Og hann áleit, að það gæti orðið minna, ef ódýr járnþráður væri notaður á afskektar línur. Jeg hefi nú áður minst á það, að jeg held, að leiðslan sje of lágt reiknuð á 3000 kr. Jeg sje, að rafmagnsstjórinn í Reykjavík gerir ráð fyrir því, að km. af háspennuleiðslu kosti 4000 kr. — Er það 1000 kr. hærra en við áætluðum. Á jeg þar við áætlun um rafmagnsleiðslur í Hólshreppi í Ísafjarðarsýslu. Og þar er gert ráð fyrir því, að ef leiðslan verður lögð yfir Hnífsdalsheiði, frá Bolungavík til Hnífsdals, þá muni hver km. kosta um 5500 kr. — Þetta vjelritaða plagg mun ekki hala komið til þingsins fyr en eftir að nál. meiri hl. var komið í prentsmiðjuna.

Ef þátttaka ríkisins á að koma að haldi, þá má ekki fjárveiting ríkissjóðs vera minni en frv. gerir ráð fyrir, ef ekki miklu meiri. Býst jeg við, að flest heimili mundu eiga fult í fangi með að standa straum af öðrum kostnaði, vöxtum og afborgunum, nema tillag ríkissjóðs sje meira en í frv. Og ef ráðist verður í raforkuveitur út um sveitir landsins, þá er einsætt, að ríkið verður að hlaupa undir bagga, bæði með lánum, ábyrgðum og beinum fjárframlögum. Um þetta býst jeg við að við hv. 3. landsk. sjeum sammála, enda ber nál. meiri hl. vitni um það. Get jeg í þessu sambandi bent á hafnir, sem ríkið lánar eða veitir fje til og ábyrgist aukreitis framlög hjeraðanna, sem flest þurfa að taka framlögin að láni. En þó er þetta tvent nokkuð ólíkt að því leyti, að hafnir gefa venjulega miklu meiri tekjur en raforkuveitur, enda þótt hinir óbeinu hagsmunir, þægindi og sá myndarbragur, sem fylgir aukinni notkun rafmagns, sje vitanlega mjög mikils virði. Hv. frsm. minni hl. mintist á virkjun Sogsins og sagði, að rjett væri að athuga áður, hvort ekki væri heppilegast að nota afl þess og veita orkunni um alt Suðurland, alt frá Vík í Mýrdal og vestur að Snæfellsnesi. Jeg tel líklegt, að afl Sogsins megi nota til þess að fullnægja raforkuþörf þessa svæðis. Jeg man ekki betur, en að hv. 3. landsk. hafi gert ráð fyrir þessu í ritgerð sinni um „Vatnsorku. á Íslandi“, sem hann reit í nál. meiri hl. fossanefndarinnar. Á þessu svæði býr meir en helmingur landsmanna, að því er talið er. Væri því rjett að rannsaka, hvort ekki væri heppilegast, að Reykjavík byrjaði þegar á virkjun Sogsins, því síðar má bæta við virkjun þess, ef hnigið verður að því ráði, að veita orkunni út um hjeruðin. Við getum annars ímyndað okkur hvernig framkvæmdum yrði hagað ef, samkvæmt frv., hvert hjerað ætti einungis að hugsa um sig í þessum efnum. Jeg býst við, að hvert hjerað myndi fyrst og fremst reyna að nota það vatnsafl, sem í heimahögum væri, það myndi auka hreppapólitíkina, og hvert einstakt hjerað reyna að pota sjer. Og frv., ef samþ. yrði, myndi ýta undir þessa hreppapólitík.

Ef hinsvegar ríkið ætti að hafa allan undirbúning með höndum, myndi rannsóknum hagað nokkuð á annan veg, t. d. hvort ekki væri tiltækilegt og hagkvæmast að veita orkunni úr Soginu út um Suðurlandsundirlendið, ellegar hvort ódýrast væri, að hvert hjerað bygði orkuver út af fyrir sig. Þetta er sá meginmunur, sem er á því, að láta ríkið eða sveitarfjelögin hafa rannsóknina á hendi.

Það er misskilningur hjá hv. 3. landsk., að brtt. minni hl. bæti mikið úr frv. Slík yfirstjórn, sem þar er gert ráð fyrir, er með öllu gagnslaus. Sú leið, sem við viljum fara, er að ríkið athugi virkjunarskilyrði, sjerstaklega með tilliti til þess, hvort hægt sje að veita orkunni út yfir stórt svæði. En frv. gerir ráð fyrir, að frumkvæðið komi frá hjeruðunum. (JÞ: Skárri var það nú ógæfan). Mjer hefir skilist hv. 3. landsk. vera mjer sammála um það, að betra sje að hafa fá, stór orkuver, heldur en mörg og lítil, ef virkjunarkostnaður er ekki gífurlegur í upphafi. Nú er Sogið hentugasta vatnsfall, hvað virkjunarskilyrði og aðstöðu snertir, sem fáanlegt er um þessar slóðir, og myndi sjálfsagt geta fullnægt raforkuþörfum sveita og kaupstaða um þetta áðurnefnda svæði.

Hv. frsm. minni hl. þótti þessar fjárhæðir ekki gífurlegar, sem nál. meiri hl. nefnir. Það er rjett, að 11% milj. er ekki mikil upphæð, ef talað er um langt árabil, en jeg vil benda á, að um slíkar framkvæmdir gegnir nokkuð öðru máli en um vegagerðir, því að í vegagerðir er ávalt auðvelt að stöðva í miðju kafi, eftir hentugleikum, en byggingu raforkustöðva yrði ávalt að ljúka við, ef þær ættu að koma að notum, og ef það fje, sem í þær hefir verið lagt, á ekki að fara til ónýtis.

Þetta er sá mikli munur. Þó verður því ekki neitað, að sum ár mun ríkissjóður tæplega vera fær um að láta af hendi 1 milj. kr. til þessara framkvæmda, og halda auk þess uppi öllum öðrum framkvæmdum, sem að kalla. Ef ríkið á að hafa forystuna í þessum efnum, er áreiðanlega stutt að hagkvæmari og hagsýnni framkvæmdum. Ef hinsvegar hjeruðin ættu að sjá um þessi mál, er mjög hætt við, að sama yrði upp á teningnum og við lendingarbætur eða þvílíkar framkvæmdir, sem hjeruðin hafa með höndum með tilstyrk ríkissjóðs, en því miður oft með alt of litlu eftirliti ríkisins. Hafa slíkar fjárveitingar oft farið eftir dugnaði hlutaðeigandi þingmanna um fjárútveganir á þingi, en ekki altaf eftir nauðsyn. Mundi svo og fara í þessu máli, ef leið frv. yrði farin.

Ef hv. 3. landsk. vildi koma með löggjöf, þar sem ríkið ætti að hafa forystuna með allar rannsóknir og framkvæmdir, þá gæti jeg lagt henni fylgi mitt.

Hv. 3. landsk. sagði, að ekki þyrfti að auka veltufje Ræktunarsjóðs til muna, þótt hann tæki á sig lánveitingar í stórum stíl, vegna nýrra rafmagnsstöðva, en játaði, að ef mikil aðsókn yrði, þá væri óhjákvæmilegt að útvega sjóðnum handbært fje. En ef veitt væri stórfje úr sjóðnum til að koma á fót rafveitum, þá fer það fje áreiðanlega til alt annars en það var upphaflega ætlað til.

Hv. frsm. minni hl. spurði, hvort meiri hl. vildi ekki fresta till. sinni um að vísa málinu til stjórnarinnar til 3. umr. Hv. frsm. færði engar ástæður fyrir þessu, en vildi einungis draga málið á langinn. Jeg hefi ekki ráðgast um þetta við meðnefndarmenn mína, en í fljótu bili sje jeg ekki ástæðu til að fresta málinu frekar, og geri jeg því tæplega ráð fyrir, að nefndin verði við tilmælum þessum.