08.04.1929
Efri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hv. frsm. meiri hl. (JBald) var að reyna að finna einstök atriði í frv. til að setja út á, eftir að jeg hafði skorað á hann að gera það.

Fyrst fann hann það til, að heimild 2. gr. um rjett sýslunefnda, hreppsnefnda og frumkvöðla fjelagsstofnana til rannsóknar á fallvötnum, væri of víðtæk. Hún gæti þýtt það, að eigendur einstakra fallvatna fengju rjett til að láta rannsaka þau á ríkiskostnað sjálfum sjer til hagsbóta. En hv. frsm. hefir eigi athugað nógu vel, hvað í gr. stendur. Því eftir henni getur enginn krafist rannsóknar á fallvatni nema það verði haft til almenningsnota. Það segir sig sjálft, að enginn getur notað gr. til að fá ákveðið vatnsfall rannsakað sjerstaklega. Kunnáttumenn líta vitanlega á fallvatn það, er rannsóknar er beiðst á, og athuga aðstæður, en ef þeim líst það ekki verða hagkvæmasta úrlausnin fyrir þarfir umdæmisins, þá rannsaka þeir það ekki, heldur snúa sjer að þeim úrlausnum, er líklegri virðast.

Að því er það snertir, að frumkvöðlar fjelagsstofnana eru teknir með, þá skal jeg geta þess, að svo er frá vatnalögunum gengið, að þeir eru hliðstæðir á sínu sviði við hreppsnefndir og sýslunefndir. En með ákvæðum vatnalaganna er alveg fyrir það girt, að einstaklingur geti komið á stað þessari rannsókn og undirbúningi, hafi það einungis þýðingu fyrir hann sjálfan en ekki almenning. Því er heimildin ekki of rúm, ef halda á löggjöfinni á þessu sviði á þeirri braut, er vatnalögin afmarka.

Hv. frsm. meiri hl. vjek að fjárhagshlið málsins á nokkrum stöðum í ræðu sinni. Skal jeg reyna að taka það í samhengi. Hann sagði, að tillögin til veitutauga mundu verða hærri en hámark það, er jeg hafði giskað á í fyrri ræðu minni og bygt á nál. hv. meiri hl. Hann bygði það aðallega á tveim atriðum. Í fyrsta lagi væri áætlunin — einmitt áætlun sú, er hann hefir sjálfur tekið upp í nál. sitt — röng. Hvernig stendur á því, að hv. meiri hl. tekur þessar tölur upp í nál. sitt, ef hann gefur síðan frsm. sínum umboð til að segja hjer, að þær sjeu rangar? Hví leyfir hv. meiri hl. frsm. sínum að bera það fram, að áætlunin sje röng og villandi, þegar hann einmitt óskar sjerstaklega eftir því, að sama manni og áætlunina hefir samið, verði falið að aðstoða ríkisstjórnina við þessi mál? En það eru full rök fyrir því, að því er snertir veitutaugarnar, að þá sje áætlunin — 3000 kr. á km. — fullnægjandi. Og það eru líkur fyrir, að á sumum stöðum verði kostnaðurinn lægri, þar sem nota má járnþráð í stað koparþráðar. En hitt sannar ekkert, þótt spottar, sem lagðir hafa verið, hafi orðið kostnaðarsamari. Það þarf ekki að þýða annað, en að vegna sjerstakra kringumstæðna hafi verið þörf á að hafa gildari koparþráð en alment er.

Hin ástæðan, er hv frsm. bygði á, var sú, að búast mætti við meiri notkun en rafmagnsstjóri gerði ráð fyrir. Það stafar af misskilningi er hv. frsm. gerir ráð fyrir, að aukin notkun hafi teljandi áhrif á kostnað við veitutaugar. Vegna strjálbýlisins hjer, verður það ekki hin raunverulega eyðsla, sem setur takmörk fyrir því, hve gilda þræði þarf. Til þess að veituþræðirnir verði nægilega sterkir og bili ekki í vondum veðrum, þurfa þeir að vera talsvert gildari heldur en það, sem þarf til þess að veita rafmagnsstraumnum. Veitutaugarnar, að undanteknum fáeinum stofntaugum, verða því fyllilega færar um að flytja það rafmagn, sem þörf er á. Og þó maður hugsi sjer, að eyðslan verði meiri en ætlað er, þá hefir það ekki teljandi áhrif á kostnaðinn við veitutaugarnar.

Í þessu sambandi kom hv. frsm. inn á það, að mannvirkin sjálf hlytu að verða dýrari en gert væri ráð fyrir, því yrði rafmagnsnotkunin meiri, þá yrði að virkja hærri hestaflatölu en rafmagnsstjóri hefði lagt til grundvallar í útreikningum sínum. Þessu til stuðnings. vísaði hv. frsm. í ritgerð eftir mig í Nefndaráliti fossanefndar, þar sem jeg geri ráð fyrir meiri notkun á mann en rafmagnsstjóri. Jeg skal taka það fram, að í þessari ritgerð er jeg ekki að gera útreikninga um, hver verði hin raunverulega rafmagnsnotkun á mann. Það sem jeg er að athuga þar, er það, hvort vatnsaflið í landinu sje áreiðanlega nóg, svo að óhætt sje að leyfa virkjun til stóriðju, eða annars en almannaþarfar. Til þess að vera viss um það, þá geri jeg ekki grein fyrir því, hver verði hin raunverulega rafmagnsnotkun á mann í náinni framtíð, heldur því hámarki, er ekki sje hugsanlegt að hún fari fram úr.

Það er svo alstaðar, að rafmagn til almenningsþarfa er fyrst og fremst notað til ljósa og hreyfivjela. Þar getur ekkert kept við rafmagnið. Þriðja tegund almennrar notkunar verður til matreiðslu. Eftir að búið er að leggja í kostnað við veitutaugar og innlagning rafmagnsins til ljósa, þá er hægt að sýna fram á, að ekkert eldsneyti getur kept við rafmagnið til matreiðslu í sveitunum. Vegna fólkseklu og kostnaðar við flutninga, þá verður sveitunum óaðgengilegra en bæjum hagnýting aðflutts eldsneytis. Það má því slá því föstu, að rafmagnið verði einnig notað til matreiðslu.

Fjórða notkunin verður til herbergjahitunar. Þar er það svo, að ekki er hægt að fullyrða, að notkun rafmagns muni svara kostnaði, og það jafnvel þótt veita sje komin til annarar notkunar. Rafmagnsstjóri hefir áætlað tiltekinn hluta rafmagnsins, er notaður verði til herbergjahitunar, og látið hv. meiri hl. í tje. Það er ekki hægt að segja fyrirfram, hvort sú notkun aukist eitthvað, en sú aukning hefir ekki í neinum mæli í för með sjer aukinn kostnað við veitutaugarnar. Sjálfar veitutaugarnar liggja bæ frá bæ og gildleiki vírsins ákvarðast ekki af rafmagnsnotkun, heldur af styrkleikaþörf. Sama stöð getur veitt raforku fleirum en einu hjeraði, og það er rjett, að ef rafmagn er notað mikið til hitunar, þarf aukna hestaflatölu. Hitt nær ekki nokkurri átt, sem hv. frsm. sagði, að kostnaðurinn, sem menn myndu verða að greiða við rekstur stöðvarinnar myndi verða 500 kr. á hestafl, eða eins mikill og kostnaðurinn við að koma stöðinni upp. Ef hann kynti sjer þetta nokkru nánar, myndi hann komast að þeirri niðurstöðu, að fyrstu 5000 hestöflin kosta mest, þau næstu minna og þau þar næstu enn minna. Þetta gildir ekki fyrir neina einstaka stöð, heldur er þetta algild regla fyrir heildina. Jeg geng þess ekki dulinn, að svo getur auðveldlega farið, að notkun raforku til upphitunar geti aukist, og kostnaður á mann hvern verði því meiri en gert er ráð fyrir í áætlun rafmagnsstjóra, og nálgist þá það, er jeg hefi áætlað. Mjer virðist framkoma hv. meiri hluta hálf einkennileg, þar eð hann tekur áætlunina upp í nál. sitt, en segir svo í framsöguræðu, að á henni sje ekkert byggjandi, eða jafnvel, að þetta sje alt saman rangt. Jeg fyrir mitt leyti álít hana sanngjarna. Þá vil jeg víkja að því, að hv. frsm. hafði það eftir mjer, að lögin fjölluðu aðeins um undirbúning þessa máls, en það sagði jeg ekki. Þau voru mín orð, að frv. benti einnig á leiðir til framkvæmda þessa máls. 5. og 6. gr. fjalla um það. Um 5. gr. er það að segja, að í henni viðurkennir löggjafinn, að ríkið eigi ekki einungis að taka þátt í kostnaðinum, heldur líka við hvað eigi að miða framlag hins opinbera. Það á að ákveðast með tilliti til veitutauganna, og jafna þannig aðstöðuna fyrir mönnum, og hjálpa þeim til að yfirvinna þær hindranir, sem vegalengdirnar orsaka. Jeg sje ekki annað, en í raun rjettri sje óhætt að slá því föstu, að þarna vilji ríkið veita aðstoð strax í undirbúningi málsins, án þess þó að ákveða, hve mikil hún verði. Í nál. meiri hl. er ekki int að því einu orði, að þetta sje óheppileg leið, og á meðan að mótmæli koma ekki fram gegn því, er jeg sannfærður um, að í þessum þætti málsins eigi ríkið að leggja fram styrk sinn. Það er beinlínis skilyrðið fyrir því, að landsmenn yfirleitt geti orðið aðnjótandi þessara hlunninda. Öll aðalatriðin í mótbárum hv. frsm. voru hin sömu og áður, en þeim hefi jeg svarað í fyrri ræðu minni, og nægir því að vísa til hennar.

Þá er næst að taka til athugunar hverjar sjeu skyldur ríkisins og verksvið þess, að því er undirbúning framkvæmda snertir. Ef brtt. okkar við 8. gr. verður samþ., þarf einskis frekara við. Heildarskipulagi á að koma á í þessum efnum, og orkumálastjórnin skal hafa frumkvæðið að undirbúningi þess, og ef menn athuga málið nánar, sjá þeir, að ekki getur verið að ræða um neitt annað en að hún á að koma fram með uppástungur.

Hv. frsm. endurtók það, að í þessu fælist fjárhagsáhætta fyrir ríkissjóð, því að með þessu tæki hann á sig ábyrgð, en um það er ekki að ræða. Frv. ber það með sjer, að stjórnin hefir óbundnar hendur í þessu máli, og það er bygt á því, að þegar ríkið hafi lagt fram tillag sitt til veitutauga og einstaklingur sinn hluta, skuli tekjur fyrirtækisins vera það miklar, að það geti borið sig fjárhagslega. Hitt er annað, að stjórnin gæti beitt sjer fyrir því, að menn fengju lán með góðum vaxtakjörum, og flýtt með því móti fyrir framkvæmdum, en auðvitað yrði hún að athuga aðstæður hlutaðeigenda í hvert sinn er um slík lán væri að ræða.

Hv. frsm. kom fram með þá skemtilegu vitleysu, að það væri svo sem munur með vegagerðirnar, þær mætti altaf stöðva. Jeg gat ekki varist brosi, er hann sagði þetta, því að auðvitað er það svo, að menn leggja ekki út í framkvæmdir, nema að þeir sjái fyrir, hvort hægt sje að inna þær af hendi, en hitt skiftir litlu máli, hvort verkið sje þess eðlis, að hægt sje að stöðva það, því að það er hrein meiningarleysa, að leggja út í annað en það, sem unt er að ljúka við og koma í gegn.

Jeg hefi nú tekið helstu mótbárur hv. frsm. til athugunar, og læt því útrætt um þær, en hv. 6. landsk. kom honum til liðs, og skal jeg nú snúa mjer að honum. Jeg fann það á honum, að hann var öllu ákafari gegn frv., en hv. frsm., og taldi því það til foráttu, að hjer væri efnt til beins ríkiskostnaðar, en mótstaða hv. frsm. orsakaðist af því, að hjer var ekki farið fram á ríkisrekstur. Hv. 6. landsk. lofaði íhaldið og sagði, að því væri altaf að fara fram, því að nú ljeti það sjer annara um ýms mál, heldur en þegar það sat við stjórn. Þessi orð hv. þm. gæti jeg afsannað með því að telja upp ýms þau mál, er Íhaldsflokkurinn beitti sjer fyrir og leiddi til sigurs í sinni stjórnartíð, en læt mjer þó nægja með að benda honum á, að íhaldsstjórnin varð að eyða fullum helmingi af þeim tíma, er hún sat við völd, í að bœta úr því sem misfarist hafði og í ólag var komið hjá fyrirrennurum hennar. Þá kom hv. 6. landsk. fram með útreikning á því, hvort tilkostnaður og tekjur myndu standast á, en niðurstaðan varð sú, að þessar rafveitur væru svo kostnaðarsamar, að engin not myndu verða að því, þótt þessi lög yrðu sett. Hann reyndi svo að gera það kátlegt, hve lítið var ætlað til ljósa og herbergjahitunar í áætlun rafmagnsstjóra, en hann gerir ráð fyrir, að hvert heimili fái nægilegt rafmagn til að hita upp eitt herbergi á veturna. Það kann vel að vera, að þetta sje nokkuð lítil úrlausn, en hún er þó betri en engin. Meginhagnaðurinn felst þó í því, að við það að matreiða með rafmagni sparast eldsneyti til matreiðslu, og þótt hægt sje að segja, að þrátt fyrir þetta sje áburðarbrenslu ekki útrýmt með öllu, er þó eldsneytissparnaðurinn mikill, en það ætti að vera lyftistöng undir ræktun landsins. Ennfremur vil jeg benda hv. 6. landsk. á það, að eins og hann með tölum sannar, að samveitur borgi sig ekki, má sanna hverjum heimilisföður, að heimilisveita borgi sig ekki fyrir hann fjárhagslega. Grundvöllurinn fyrir því, að þessar rafveitur borgi sig, er tvennskonar. Fyrst og fremst vinnusparnaðurinn, en jeg treysti mjer ekki til að reikna hann út í krónutali sem stendur, og svo er áburðarsparnaðurinn. Allir bændur hafa nóg land til ræktunar, og þar kemur áburðurinn að fullum notum, og hann eykur uppskeruna. Bændur sjá það og skilja, að ef þeir geta aukið brúttó-tekjur sínar með spöruðum eldivið, þannig að kostnaðurinn við veiturnar náist upp, borgar það sig fyrir þá að leggja á sig og sitt heimafólk aukna vinnu til ræktunar og nýtingar uppskerunnar, fyrir þau þægindi, sem rafmagnið veitir þeim innanhúss. Þetta er rjettur hugsunarháttur, og hvert það heimili, sem hefir fengið rafmagn inn til sín, fær þannig í aðra hönd tekjur, sem svara til kostnaðar, og hefir auk þess búið í haginn fyrir framtíðina og aukið afurðir jarðarinnar. Ótrúin hjá hv. 6. landsk. gekk svo langt, að hann vildi hafa hemil á, hvaða verkfræðingar væru fengnir til aðstoðar við rannsókn þessa máls.

Mjer fanst hæstv. fjmrh. gera of mikið úr erfiðleikunum á því að framkvæma þá rannsókn, sem hjer um ræðir, ef brtt. við 8. gr. verður samþ., en það er ekki eins örðugt og hann áleit, enda er mjög auðvelt að inna þessa rannsókn af hendi á þeim hluta landsins, sem uppdrættir herforingjaráðsins ná til. Hitt er svo mikið verk, að gera áætlanir fyrir þann hluta landsins, sem uppdrætti vantar af, að það er spursmál, hvort ekki er rjett að vinda bráðan bug að því, að gera uppdrátt af því, sem eftir er, svo að ekki þurfi nú að fara að mæla fjarlægðir milli bæja, eða rannsaka hvaða vatnsföll sjeu hæf til virkjunar, en mál þetta þarf að taka föstum tökum og byggja rannsóknirnar á rjettum grundvelli. Það sem stjórnin vildi láta gera í þessu máli, — að gera lauslegar áætlanir á ýmsum stöðum, — tel jeg algerlega ófullnægjandi og ekki bygt á forsvaranlegum grundvelli. Hv. þm. N.-M. tók vingjarnlegast í þetta mál af meiri hl. Hann vildi láta taka frávísunaratkv. sitt sem vott um ást sína á málinu, en það þykir mjer nokkuð hæpið, og er jeg hræddur um, að hann fái menn ekki til að trúa því. Hann ætlaði þó að geyma atkv. sitt þangað til við 3. umr. Hann sagði, að sjer kæmi mál þetta þannig fyrir sjónir, að framkvæmd þess væri framtíðarhilling, og get jeg skilið það. Jeg er orðinn það gamall, að jeg man eftir því, að í æsku stóðu allar þær miklu framkvæmdir, sem hjer hafa orðið síðustu 25 árin, fyrir mjer í framtíðarhillingum, því að þá bar jeg ekki nógu mikið traust til landsins.

En þetta mál er ekki nýtt fyrir mjer. Það var allmikið rætt í milliþinganefndinni í vatnamálum. Að mínum dómi er ekki ein, heldur tvær leiðir til þess að vinna bug á þeim örðugleikum, sem eru á því, að raforkuveitur til almenningsþarfa geti borið sig sjálfar. Önnur leiðin — og sú, er jeg hugsaði mjer fyrstu árin eftir 1918 — er sú, að tekin yrðu stærstu fallvötnin til stórfelds og aflfreks iðjureksturs. Hefði svo verið gert, hefði litlu munað, þótt virkjuð hefðu verið í viðbót nokkur þúsund hestöfl til ljósa og hita. Sá kostnaðarauki hefði orðið svo hverfandi, að kostnaður við framleiðslu raforkunnar hefði orðið lítt tilfinnanlegur. En nú hefir farið svo, að eftirspurn eftir fallvötnum til virkjunar hefir orðið minni en við var búist, og þær undirtektir, sem slíkar málaleitanir hafa fengið, hafa ekki verið svo vingjarnlegar, að úr framkvæmdum hafi orðið. Jeg held því, að raforkuþörf landsmanna verði ekki fullnægt með stöðvum, sem bygðar eru í öðrum tilgangi.

Hin leiðin er sú, sem bent er á í frv., að ríkið hlaupi undir bagga með mönnum í þessu efni. Sú leið hefir þann kost fram yfir hina, að hún jafnar þann aðstöðumun, er fjarlægðin frá orkuverunum hefði valdið, ef fyrri leiðin hefði verið farin.

Jeg er sannfærður um, að framkvæmdir í þessu efni eru komnar úr hillingunum og niður í veruleikann hjer hjá oss. Það, sem einna mest hefir styrkt trú mína á þessar framkvæmdir er það, hvað bændur, sem komið hafa upp heimilisstöðvum, hafa viljað leggja á sig fyrir þær. Þeir, sem slíkt hafa gert, eru nú orðnir svo margir, að vel má skoða þá sem mælikvarða þess, hversu mikið sje rjett að leggja í sölurnar til að koma rafmagni heim á sveitaheimilin. Ef önnur býli vildu og gætu lagt á sig eins mikið hlutfallslega, þá væru fjárhagsörðugleikarnir yfirstignir. Hvort þeir verða það eða ekki, er undir því komið, hvort menn vilja og geta lagt á sig það, sem þarf til rekstrar og viðhalds stöðvanna. Því hefir verið haldið fram, að bíða ætti með þessar framkvæmdir eftir því, að aukin ræktun færði bygðirnar saman, ekki þannig að sumir landshlutar leggist í auðn, heldur að bygðin verði þjettari á byggilegustu svæðunum. Jeg er hræddur um, að þetta eigi svo langt í land, að það komi ekki til greina, þegar um þetta mál er að ræða. Hitt er trú mín, að raforkuveiturnar yrðu til þess að flýta fyrir þessari breytingu að miklum mun.

Það hefir verið spurt, hvers vegna við vildum fresta frávísuninni til 3. umr. Það er vegna þess, að við viljum að brtt. minni hl. við 8. gr. fái að koma til atkvæða. Hvernig sem fer um málið, verður stjórnin að hefja undirbúning í því fyrir næsta þing. Það, sem um er að ræða, er hversu hátt markið skuli sett, — hvort gengið skuli út frá heildarskipulagi á raforkuveitum fyrir land alt. Ef frv. er samþ. við 2. umr. hjer, er það stjórninni árjetting og leiðbeining. Ef frávísunartillagan verður samþ. kemur brtt. ekki til atkvæða. Jeg held líka, að umr., þótt í annari deildinni sje, sjeu ekki þýðingarlausar fyrir málið. Jeg held því, að meinlaust sje að hleypa málinu til 3. umr., jafnvel þótt andstæðingar málsins treystist ekki til að láta það fara til hv. Nd., — eins og við flm. myndum helst hafa kosið, — af ótta við, að sú hv. deild muni ekki vísa frv. frá sjer.