08.04.1929
Efri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því að jeg vona, að hv. frsm. minni hl. (JÞ) eigi að minsta kosti eftir aths., sem jeg vænti að verði þá ekki svo mjög takmörkuð við hann, þá ætla jeg að leyfa mjer nú að beina til hans nokkrum spurningum, sem varða fjárhagshlið málsins.

Nú má gera ráð fyrir, og það er hjer um bil víst, ef að byrjað yrði á þessum framkvæmdum, að þá mundu drífa að umsóknir úr öllum áttum. Allir mundu vilja verða þeirra hlunninda aðnjótandi, sem frv. er ætlað að veita. En það verður að teljast galli á frv., að þar er ekki reynt að gera sjer ljósa grein fyrir því, hve miklar kröfurnar muni verða. Þó er vissa fyrir því, að þær mundu brátt skifta tugum miljóna að krónutali. Það er því auðsjeð á frv., að ríkisstj. verður sumpart að útvega fje að láni, eða þá að leggja það fram úr ríkissjóði, til þess að geta staðið straum af þeim kostnaði, sem framkvæmd frv. hefir í för með sjer. Það, sem skiftir þá máli fyrir alla þingmenn, er það, hvernig má hugsa sjer að leysa fjárhagshlið málsins. Einkum hljóta forgöngumenn þessa frv. að hafa gert sjer það ljóst, áður en þeir fóru af stað með frv., á hvern hátt jafn stórvægilegt fjárhagsatriði yrði leyst, og það, sem hlýtur að leiða af framkvæmd frv.

Engum er kunnugra um það en hv. 3. landsk. hvað stórframkvæmdirnar austanfjalls, sem með vissum hætti eru sambærilegar við þessar ríkisreknu fjelagsveitur, hafa kostað ríkissjóð, og er þó ekki sjeð fyrir endann á þeim óhemju kostnaði enn. Hann veit líka manna best um þá fyrirhyggju og athugun, sem átti sjer stað af hálfu verkfræðinganna, áður en í þær framkvæmdir var ráðist. T. d. eins og Skeiðaáveitan, sem verkfræðingarnir áætluðu að mundi kosta um 120 þús.kr., en varð í framkvæmdinni næstum ½ milj. kr., og er þó alls ekki fullgerð enn. Svo er Flóaáveitan, sem nú er að mestu lokið. Enginn veit betur en hv. 3. landsk., hvað hún hefir kostað. Og þó er eftir að leggja vegi um áveitusvæðið, sem áætlað er að kosti um 200 þús. krónur, og nú er verið að reisa þar rjómabú, sem gert er ráð fyrir að kosti upp undir það eins mikið og vegirnir. Alt þetta fje, eða svo að segja, verður landssjóður að leggja fram. Og þó að hjer sje talið, að um arðberandi framkvæmdir sje að ræða, í ber landssjóður enn nálega allan þungann.

Nú er það svo, að ekkert af þessum stórfyrirtækjum þarna austan fjalls hefir borið sig. Skeiðaáveitan hefir kostað svo mikið, að ef ætti að láta bændur greiða venjulega vexti af lánum þeim, sem til hennar voru veitt, þá mundu þeir verða gjaldþrota. Enga jörð er hægt að selja, því að enginn getur keypt fyrir það verð, sem þyrfti að selja. Er því ekki annað ráð fyrir höndum, ef jarðirnar á Skeiðunum eiga að byggjast áfram, en að Alþingi skerist í leikinn, og að ríkissjóður taki á sig byrðarnar. Að öðrum kosti er ekki annað sjáanlegt, en að hjeraðið leggist í auðn.

Flóaáveitan hefir að vísu reynst skárri, en þó hafa bændur ekki greitt enn neitt af áveituskatti jarðanna, enda álit margra, sem kunnugir eru, að það sje fyrirtækinu um megn, og er þó gjöldum þeim á margan hátt stilt í hóf, eftir því sem frekast má verða. Um vegalagningu Flóans segja kunnugir, að óhugsandi sje að jarðirnar geti nema að litlu leyti borið þann kostnað uppi.

Nú vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. 3. landsk., hvort hann hafi ekki veitt því eftirtekt, að aðferðin, sem notuð var til þess að koma á stað Skeiðaáveitunni og Flóaáveitunni, er skyld þeirri aðferð, er frv. þetta ætlast til að gildi um þær framkvæmdir, sem þar eru nefndar? Því neitar enginn, að hjer var um æskileg fyrirtæki að ræða, frá vissu sjónarmiði, og ekki nema eðlilegt, að menn litu til þeirra hýrum augum fyrirfram, en villan var, að í þau var lagt, án þess að menn gerðu sjer ljóst, hvað þau mundu kosta, eða hvort þau mundu bera sig. Skeiðamenn eru yfirleitt dugnaðar og manndómsbændur, sem marga þraut hafa sigrað, en nú eru þeir að láta bugast undan þeim skuldaböggum, sem áveitukostnaðurinn hefir bundið þeim. Þó segja þeir, eins og satt er, að mistökin sjeu ekki þeim sjálfum að kenna, heldur ríkinu, og þó einkum verkfræðingunum, sem narrað hafi þá út í þessar stórfeldu framkvæmdir með fölskum áætlunum.

Þetta er sannleikur, sem engin tök eru að vefengja, enda er Skeiðaáveitan ein nægileg sönnun þess, að varasemi er oft nokkuð langt frá í kostnaðaráætlunum sumra íslenskra verkfræðinga. Á Skeiðunum var gert ráð fyrir, að verkið kostaði með öllu liðug 100 þús. krónur, en komst þó upp í ½ miljón króna.

Árnesingar hafa því sannarlega fengið dýrkeypta reynslu um vafasama gleði af framkvæmdum verkfræðinganna. Og ef ganga ætti að Flóa- og Skeiðamönnum nú, þá mundu þeir eiga minna en ekkert, þegar þeir væru búnir að borga fjelagsframkvæmdirnar þar, sem sambærilegar eru við umræddar rafveitur. Þeir bændur yrðu þá að hröklast slyppir og snauðir frá jörðunum.

Og nú leggur hv. 3. landsk. til, og flokkssystkini hans, að við höldum áfram á þessari sömu braut, aðeins mörgum sinnum glæfralegar, þeirri braut, sem Árnesingum hefir orðið að mestu tjóni. Það hljómar vel í munni, að með frv. þessu eigi að lyfta bændum til meira vegs, með því að leiða ljós og yl um sveitirnar. En hver á að leggja fje til þessara dýru rannsókna, sem helst sýnist eiga að vera nýr atvinnuvegur fyrir vinnulausa sjerfræðinga, og hvar á að útvega ríkinu alla þá peninga, allar þær miljónir, sem borga þarf fyrir virkjanir á ýmsum stöðum og langar og dýrar leiðslur um strjálbygðar sveitir landsins? Gerir hv. 3. landsk. ráð fyrir, að t. d. Flóa- eða Skeiðamenn, eins og efnahag þeirra er komið nú vegna sinna dýru fjelagsframkvæmda, að þeir geti staðið undir nýjum álögum? Jeg segi nei og aftur nei! Og jeg mótmæli því, að nokkrar minstu líkur sjeu fyrir því, að bændur geti risið undir að borga slík lán, sem framkvæmdir þessa frv. hafa í för með sjer. Sannleikurinn er sá, að með þeirri rafmagnskunnáttu, sem heimurinn enn býr við, er ekki hægt að láta rafveitur bera sig nema í þjettbýli. Bændur hafa sýnt hvað þeir geta, en þetta er þeim ofvaxið, eins og jeg mun koma að síðar.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að ekkert hefir farið jafnilla með Noreg eins og fjölmargar rafmagnsframkvæmdir, sem gert hafa ýmsar sveitir gjaldþrota. Og nú er lagt til, að við reynum að sækja í sama öngþveitið, sem Norðmenn harma nú mest að hafa flanað út í. Yrði að því horfið, að ráðast í slíkar framkvæmdir, sem frv. fer fram á, er ljóst, að mörg sveitafjelög mundu á eftir verða að fara að eins og Skeiðamenn, að koma til Alþingis með bænarskrá um, að ríkið taki á sig skuldbindingarnar. Hjer er því í raun og veru ekki um annað en þjóðnýtingu að ræða, og hún það víðtæk, að stærri þjóðnýtingartill. hefir aldrei verið borin fram af sjálfum sósíalistum, því að hjer er farið fram á að setja allan þjóðarauðinn í þessar framkvæmdir. Ef þetta yrði gert, mundi fljótlega koma að því, að ríkissjóður yrði að greiða árlega í vöxtum og afborgunum af erlendum lánum 4–5 miljónir á ári og meira síðar, og kemur þá að skattahliðinni, sem óhjákvæmilegt er að athuga í þessu sambandi.

Nú veit hv. 3. landsk. það vel, að þegar hann skildi við ríkissjóðinn, þá sýndu reikningarnir, að tvö síðustu árin hafði orðið tekjuhalli á ríkisrekstrinum. Jeg vil þá spyrja þennan hv. þm., hvar á að taka þessa peninga? Jeg get ekki sjeð nema eina leið til þess, og hún er sú, að láta hina efnaðri menn landsins borga þetta með auknum tekju- og eignarskatti. Tollaleiðin er alveg tæmd og engu hægt þar við að bæta. Geta nú efnamenn landsins bætt á sig þessum útgjöldum, nokkrum milj. árlega, til viðbótar við það sem fyrir er? Þessi auknu útgjöld hefir frv. í för með sjer. Þetta frv., sem óneitanlega væri skemtilegt að mega láta ganga fram, en það er hið stóra spursmál fyrir Íhaldsflokkinn, að geta bent á þær fjárhagsleiðir, sem gera það forsvaranlegt að ráðast í þessar framkvæmdir. Jeg vil óska þess, að hv. 3. landsk. geri grein fyrir því, hvaða skattar eiga að mæta þessum útgjöldum, og hvort hann getur hugsað sjer, að tekju- og eignarskatturinn standi undir þessu einsamall, og ef það er ekki, hvaða skattstofn vill hann þá taka?

Á þinginu 1925, þegar jeg kom fram með till. um það, að ljetta undir með mönnum, sem vildu byggja upp bæi sína, þá ætlaði hv. 3. landsk. alveg að sleppa sjer yfir þessum auknu útgjöldum ríkissjóðs og yfir því, hvað þetta væri eyðileggjandi og siðspillandi fyrir þjóðina. Um þetta er mjög ítarleg frásögn í Alþingistíðindunum frá 1925, og þar geta menn sjeð ummæli þessa hv. þm. Nú vil jeg spyrja hv. 3. landsk. að hverju leyti hann hefir öðlast nýja visku um hina siðferðilegu. hlið þessa máls. Árið 1925 var það í hans augum eyðileggjandi og siðspillandi að láta bændur og nýbýlamenn fá lítils háttar styrk til að endurreisa býli sín, en nú vill hann sjálfur verja tugum miljóna í slíkar gjafir, og ætti það þó að vera enn þá meira siðspillandi samkvæmt þeirri skoðun, sem hann hafði 1925.

Þá skal jeg víkja að annari hlið þessa máls. Það hefir á undanförnum árum komið upp þróun í landinu á þessu sviði, sem jeg held að sje heilbrigð og sjálfsögð, og ekki ástæða til annars, en að gefa henni fullar gætur og gera ekki of lítið úr henni. Það hefir verið unnið að því af ýmsum hagleiksmönnum, sjerstaklega í Vestur- Skaftafellssýslu, að koma upp rafstöðvum á sveitabæjum, þar sem bæjarlækurinn gefur hentugt vatnsafl til virkjunar. Þessum stöðvum er altaf að fjölga, og í dag átti jeg t. d. tal við einn af þessum hagleiksmönnum þarna að austan, sem hafði undirbúið byggingu 20 slíkra stöðva í vetur og 10 í fyrra vetur. Nú ætla 2 aðrir af þessum hagleiksmönnum úr Vestur-Skaftafellssýslu að flytja sig, annar austur og hinn vestur á land, og setja þar upp verkstæði. Þessa þróun á ríkissjóður að styðja. Út í þessi fyrirtæki leggja ekki aðrir en þeir, sem hafa aðstöðu og áræði til þess, og hefir þeim ekki verið hjálpað nema með aðgangi að lánum, sem Ræktunarsjóður hefir látið þeim í tje, en nú þarf að hlynna betur að þeim. Þessar stöðvar hafa yfirleitt gengið vel. Aftur á móti verður annað uppi á teningnum, þegar menn undan handarjaðri verkfræðinganna hjer í Reykjavík standa fyrir framkvæmdunum. Þá verða stöðvarnar miklu dýrari og verri, og í sumum tilfellum alveg ónýtar. T. d. er mjer kunnugt um, að ein sýsla á Norðurlandi ljet ginna sig til þess að reisa rafstöð eftir ráði verkfræðinganna hjer, og sú stöð varð um 200% dýrari heldur en hún hefði orðið, ef hinir skaftfellsku hagleiksmenn hefðu verið þar að verki. Nú hagar svo til, að þessum smástöðvum má koma upp um alt landið. Allar sýslur hafa góð skilyrði fyrir þær, og þó sjerstaklega Skaftafells-, Múla-, Þingeyjar-, Eyjafjarðar- og Húnavatnssýslur, svo og Austfirðir og Vestfirðir. Þessum framkvæmdum á að halda áfram í stærri stíl og styðja þá sjálfsbjargarviðleitni, sem þar kemur fram, því að þær stofna ekki landinu í fjárhagslegan voða, en hafa mikið gott í för með sjer.

Þessi þróun hefir ýtt undir Reykvíkinga með að fara sömu leið, en hv, 3. landsk. gat auðvitað ekki um það í sinni ræðu. Er nokkurt vit í því hjá Íhaldsflokknum að ætla að beita sjer fyrir þessu frv., sem leggur svona þunga byrði á þjóðina, um leið og Íhaldið hjer í Reykjavík berst með hnúum og hnefum gegn því, að ráðast í þá einu stórvirkjun á landinu, sem getur borið sig fjárhagslega? Þetta verður hv. 3. landsk. að útskýra, því að annars verða menn að líta svo á, að þetta sje bara leikur hjá honum, og honum sje ekki alvara. Sogið er best fallið til virkjunar af öllum vatnsföllum á landinu, og jafnvel í allri Evrópu, og í Reykjavík býr 14 hluti landsmanna í 50 km. fjarlægð frá virkjunarstaðnum. Það þarf þá ekki nema 50 km. leiðslu til þess að koma aflinu til neytendanna, og þeir búa allir í örlítilli hvirfingu utan um Reykjavíkurhöfn. En nú um langan tíma hafa íhaldsmenn í Reykjavík barist með öllum vopnum, sem þeir höfðu yfir að ráða, móti því, að ráðist væri í þessa framkvæmd, sem er jafn eðlileg fyrir Reykjavík og fyrir bónda að virkja læk við bæjarvegginn. Þess vegna vil jeg segja, að sá sami flokkur, sem er mjög tregur til þess að leggja út í þessa virkjun, hann hefir engan siðferðilegan rjett til þess að láta raflýsa allar sveitir landsins á kostnað ríkissjóðs, en skera niður þá sjálfsbjargarviðleitni, sem hefir komið að svo góðum notum hingað til.

Jeg vil svo segja hv. 3. landsk. það, að það er ekki til sorglegri sjón hjer á á landi heldur en á Skeiðunum, þar sem bændur hafa verið gintir út í glæfralegar framkvæmdir, sem binda þeim svo þungan skuldabagga, að þessir duglegu menn, sem þarna búa, eru að því komnir að flosna upp og verða gjaldþrota fyrir þær framkvæmdir, sem heimskir atvinnuspekúlantar hafa gint þá út í. Þetta er þó ekki sjálfskaparviti bændanna, og er aðeins hægt að ásaka þá fyrir það, að trúa verkfræðingunum, því að það er oft hættulegt að trúa verkfræðingum. (JÞ: Og jafnvel ráðherrum líka). Einkum þó, ef þeir eru líka verkfræðingar (hlátur).

Þetta frv. er ákaflega varasamt, sjerstaklega í fjárhagslegu tilliti. Eftir því kann að verða farið inn á sömu brautina með rafmagnið og í berklavörnunum, að setja alla á landsjóðinn. Þegar berklavarnalögin voru sett, var ekkert hugsað um fjárhagshliðina, og nýjum tollum var bætt á til að standa undir þunganum. En ef hjer væri tekin miklu þyngri byrði á bak ríkissjóðs, þá yrðu efnamennirnir að koma til sögunnar. Verði ráðist í þessar framkvæmdir, þá kemur það langharðast niður á bráð-stöndugum mönnum, sem hafa aflað efnanna með súrum sveita, eins og þeir sjálfir lýsa því. Þá yrði farið nokkuð djúpt niður í vasa þeirra. Jeg vil vara hv. 3.landsk. við þessu í tíma, svo að hann sje ekki of bjartsýnn, því að þessa byrði verður áreiðanlega að leggja á breiðustu bökin, ef ekki eiga af að hljótast landsvandræði.

Í þessu frv. liggur hvorki gæfa nje gengi þjóðarinnar, en rafmagnsmálið er stór-mál og framkvæmdir verða að aukast, en þjóðin má ekki hætta sjer út í vafasöm glæfrafyrirtæki, heldur verður þróun að eiga sjer stað. Síðastliðið haust vorum við hv. 3. landsk. á ferð í Vestur-Skaftafellssýslu, og þá sáum við glampa á þessa þróun heima á bæjunum gegnum regnið og náttmyrkrið. Sú þróun á að halda áfram og hana á að efla og styðja, þó með þeirri gát, að alt sje fjárhagslega forsvaranlegt og geti borið sig. Það á að forðast í þessu efni að láta glæfralegar áætlanir verkfræðinganna lokka sig út á brautir, sem hafa haft hin sorglegustu áhrif, eins og sýnir sig austanfjalls.