09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

43. mál, raforkuveitur utan kaupstaða

Jónas Kristjánsson:

Ræða mín í gær mun hafa hneykslað hv. frsm. meiri hl. (JBald) og hv. 6. landsk. þm. (JónJ). Þeim fanst jeg hafa talað með of miklum fjálgleik um þetta mál. Jeg skal ekki neita því, að mjer er þetta áhugamál, og jeg hefi reynt að opna á mönnum augun fyrir nauðsyn þess. Jeg hefi bent á, að þetta er menningarmál, mál aukinnar hreysti, mál æskunnar, mál húsfreyjunnar, eða í sem stystu máli: framtíðarmál þjóðarinnar.

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. frsm. meiri hl. Röksemdir hans voru mestmegnis rangfærslur, og get jeg því hlaupið yfir þær að mestu leyti. Alt það, sem hann talaði um framkomu mína gagnvart landbúnaðinum, var með öllu rangt, enda lítur út fyrir, að honum sje meira um það hugað, að segja eitthvað en að segja satt. Eins og hver og einn getur sannfært sig um af Þingtíðindunum, fylgdi jeg frv. um Landnáms- og byggingasjóð, og alt það, sem jeg hefi lagt til landbúnaðamála hefir verið á heilbrigðum grundvelli með heill landbúnaðarins að marki, t. d. vildi jeg ekki láta flytja áburðinn — þegar það mál var á döfinni — til landsins á kostnað ríkisins, heldur láta ríkið styrkja bændurna til að flytja áburðinn heim til sín frá kaupstöðunum, enda er nú brtt. komin fram um þetta.

Hv. 6. landsk. hneykslaðist á bjartsýni minni og virtist vera fullkomlega ánægður með núverandi ástand. Það sem jeg talaði um köldu og óvistlegu bæina, fanst honum alt úr lausu lofti gripið. Jeg sje þó ekki ástæðu til að koma inn á það, en hann mintist á konurnar í því sambandi, og það er enginn vafi, að þær finna betur en karlar til nauðsyninnar á umbótum á þessu sviði, því að þær dvelja meiri hluta æfi sinnar undir þaki, og oft í vondum húsakynnum í mörgum, ef ekki öllum, sveitum þessa lands. Mjer dettur auðvitað ekki í hug að svara annari eins fjarstæðu og þeirri, að jeg sje að reyna til að spilla á milli hjóna, en jeg sný ekki aftur með það, að karlar taka oftast helst til lítið tillit til kvenfólksins eða vellíðunar þess í sveitum landsins. Jeg veit, hvað mæðurnar hafa að berjast við, þegar þær sitja yfir veikum börnum sínum í rökum, ljelegum, ljóslitlum og köldum húsakynnum, og hvað þær verða að leggja hart að sjer. Og jeg er viss um, að heilsufarið mundi stórum batna, ef þetta frv. næði fram að ganga. Það vita allir, hversu berklaveikin hefir farið vaxandi og fer enn þá, en fátæktin og ljeleg húsakynni eiga mikinn þátt í henni. Og jeg er sannfærður um það, að ef þetta kemst í kring, er stórt spor stigið til þess að ráðin sje bót á þessum sjúkdómi, sem leggur svo marga fyrst á sjúkrabeð og síðan í gröfina.

Jeg veit, að það er af skilningsskorti, að menn eru á móti þessu frv. Það vantar að vísu ekki, að sumir tali nógu fagurt, en því er nú ver og miður, að þeir hyggja flátt. (PH: Hverjir eru það?) Jeg skal skýra þetta nánar. Mjer skildist það á ræðu hæstv. dómsmrh., að hann liti svo á, að þetta væri með öllu óframkvæmanlegt, og eftir þá yfirlýsingu tel jeg það sama og að vera á móti þessu máli, að vísa því til stj.

Jeg verð að játa, að mjer þykir þessu frv. tekið kuldalega. Það er ekki skírst við að leggja fje til að útbreiða símann um sveitirnar, og er auðvitað ekkert við það að athuga; það er nauðsynlegt. En því verður ekki á móti mælt, að sveitunum er ólíkt meiri nauðsyn og þægindi að rafmagninu til suðu, hitunar og ljósa en símanum, þó að góður sje.

Jeg tók svo eftir, að í þessari rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, sje lagt til, að rannsóknirnar verði kostaðar að jöfnu úr ríkis- og sveitasjóðum. Jeg veit nú ekki betur, en að ýmsar mælingar úti um landið sjeu kostaðar að öllu leyti úr ríkissjóði. En því þá ekki að láta ríkissjóð kosta þetta líka, þegar nóg er innlendra manna til að framkvæma þessar rannsóknir? Það væri meira að segja ekki frágangssök, þó að fá þyrfti menn utanlands frá til þess. Og jeg man ekki betur en að hjer hafi nýlega verið samþ., að borunaráhöld eftir heitu vatni skyldu keypt fyrir fje úr ríkissjóði. Mjer finst því, að þetta mál eigi ekki glaðlegum undirtektum að fagna, þar sem menn vilja ekki einu sinni láta kosta þessar rannsóknir af hálfu þess opinbera. Ef svo hefði verið, hefði jeg sjeð velvilja til málsins. En nú ekki. Mjer finst yfirleitt, að kappi sje kostað um að setja sem ægilegast ljón í veg fyrir framgang þessa máls.

Hv. 6. landsk. mintist á það, að jeg hefði ekki drepið á neinar kostnaðarætlanir í sambandi við þetta mál. Jeg játa fúslega, að jeg er ekki kunnáttumaður á þessu sviði, en hv. 3. landsk. hefir skýrt þá hlið málsins svo rækilega, að þar er engu við að bæta. Jeg vil þó geta þess, sem jeg hefi orðið áskynja erlendis í þessum efnum. Mjer er kunnugt um, að í stórhýsum í Winnipeg í Canada, sem leigð eru út fyrir 20–30 fjölskyldur, hefir húseigandi hitunartæki til þess að veita leigjendum nægilegt heitt vatn. Þetta vatn var hitað upp með kolum sem eldsneyti. Einn þessara húseigenda skifti um hitunartæki og hitaði vatnið með rafmagni í stað kola, og eftir nokkra mánuði gat hann sýnt, að hitunin kostaði minna með rafmagni en kolum. Og þegar þetta þykir margborga sig annarsstaðar og þar sem litið er um fallvatn, eins og t. d. sumstaðar á sljettlendi í Ameríku, þá má nærri geta, hvort ekki eru til möguleikar á að þetta gæti borgað sig hjer í okkar fossauðuga landi. Gamalt spakmæli segir líka, að sælla sje hjá sjálfum sjer að taka en sinn bróður að biðja. Þess vegna ættum við að reyna að nota þann mikla kraft, sem liggur í okkar mörgu fossum og fallvötnum, en hætta að sækja kol til útlanda. En svo er líka aðgætandi, að það getur verið ýmsum erfiðleikum bundið að kaupa kol í útlöndum og flytja þau hingað. Er þar skemst að minnast, að t. d. á stríðsárunum voru kol lítt fáanleg og þar að auki afar dýr. Það var því engin smáræðis upphæð, sem við urðum að greiða á þeim árum fyrir kol.

Jeg mintist í gær lítilsháttar á kostnaðinn við heimavirkjun og býst við, að enn sjeu ekki öll kurl komin til grafar um þann kostnað. Að vísu veit jeg ekki, hvað stórar leiðslur kosta, en sennilegt þykir mjer, að þær verði að tiltölu ódýrari en þær smærri. Jeg veit heldur ekki hvernig þær muni endast þessar heimavirkjanir, eða hvort lagt hefir verið til hliðar fje til þess að gera við þær ef þær bila eða endurbyggja þær þegar vjelarnar eru útnotaðar. En um hitt er jeg hræddur, að þessar heimavirkjanir sjeu að ýmsu leyti dýrar og ekki sagt, að auðvelt verði fyrir bændur að byggja þær á ný, þegar vjelarnar eru úr sjer gengnar. Þó vildi jeg óska, að svo færi ekki, heldur að öllu reiddi hið besta af.

Mín sannfæring er sú, þó að jeg geti ekki sannað það nú, af því að jeg er enginn sjerfræðingur á þessu sviði, að rafvirkjun og leiðslur í stærri stíl hljóti að verða hlutfallslega ódýrari fyrir notendur og áhættuminni en sú virkjun, sem gerð er aðeins fyrir eitt heimili eða tvö, en þá geri jeg ráð fyrir, að stjórn slíks fyrirtækis sje falin sjerstökum kunnáttumönnum og sjeð verði fyrir endurbyggingu stöðva og öðru því, er með þarf, á þann hátt, að lagt verði til hliðar nægilegt fje á hverju ári, sem varasjóður, til þess að endurbyggja það, er með þarf, og sje fyrirtækið þannig trygt.

Þá var það sjerstaklega eitt í ræðu minni, sem hneykslaði hv. andstæðinga mína, sem sje það, að jeg hafði gefið í skyn, að frá sjónarmiði bænda væri það næsta óeðlilegt að hv. 1. landsk. væri falin framsaga í máli eins og þessu. Það getur nú verið svo, að menn sjeu mismunandi minnugir. En það hafa nýlega skeð þau atvik hjer í höfuðstaðnum, að ástæða hefði verið til að halda, að traustið á þessum manni, hv. 1. landsk., hefði eitthvað minkað hjá þeim hv. þdm., sem telja sig hingað komna til þess sjerstaklega að reka erindi bænda. Verkfallið, sem hv. 4. landsk. og aðrir foringjar jafnaðarmanna komu á stað í byrjun þessa árs, hefir kostað landið miljónir króna, og það á eftir að kosta bændur mikið fje í hærri kaupgreiðslu, og ef landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, eða hefir átt það, þá verður þetta þó enn tilfinnanlegra í næstu framtíð; svo að ekki er sjeð, að landbúnaðurinn þoli þá hækkuðu greiðslu, sem verkfallið, er hv. 1. landsk. kom af stað, hefir í för með sjer. Jeg ætla ekki að ala á sundurlyndi milli þessara flokka, og það gleður mig, að hv. Framsóknarbændur þessarar d. taka þessu vel og hafa nú gleymt og fyrirgefið samherjum sínum þessa ádrepu. En á hitt vildi jeg benda, að þar sem vitanlegt er, að atvinnurekstur bænda hefir tæplega borið sig undanfarið, þá mun afkoman síst glæsilegri framundan, þegar greiða verður mun hærra kaup vegna verkfallsins. Það var þetta, sem jeg átti við, er jeg ljet í ljósi undrun mína yfir því, að sá flokkurinn, sem heimtar að hann sje kallaður og skoðaður eini bændaflokkur þingsins, skyldi fela jafnaðarmanni að hafa orð fyrir sjer um þetta stærsta og mesta velferðarmál sveitanna á þessu þingi.

En hv. andstæðingar hafa aðra skoðun á afleiðingum verkfallsins. Jeg er sannfærður um, að bændur tapa við þær ráðstafanir, að vinna sú, er þeir þurfa að kaupa, verði dýrari, en takist hv. andstæðingum mínum að sannfæra mig um það gagnstæða, þá mun jeg gleðjast yfir því og vera þeim þakklátur.

Það kann að hafa verið eitthvað fleira, sem ástæða hefði verið til að svara í umræðum hv. andstæðinga minna, en jeg held þó, að jeg verði að sleppa því í þetta sinn. Það mætti þá kannske koma að því síðar, ef tilefni gæfist.

Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir undirtektirnar kaldar, sem þetta mál hefir fengið hjá þeim flokki, sem telur sig reka erindi bænda. Jeg hefði þó kunnað betur við, að úr því að óskað er eftir rannsókn í þessu efni, þá væri hún kostuð alveg af opinberu fje. í frv. er einmitt vel frá þessu gengið og get jeg ekki skilið, hvers vegna hv. meiri hl. hefir ekki getað fallist á það. (Dómsmrh.: Hann gengur lengra). Það er nú eftir því, hvernig á það er litið. En ef hv. meiri hl. meinar það, sem hann hefir talað, þá ætti hann ekki að vera á móti frv.