01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta er að mestu samhljóða því, sem fram kom á síðasta þingi um sama efni. En þá fór svo, að eigi vanst tími til að afgreiða málið. Þess vegna höfum við flutningsmenn þess frv. leyft okkur að bera fram á ný í frumvarpsformi tillögur um endurbætur á Fiskiveiðasjóði Íslands. Þar sem svo stutt er síðan málið var hjer á ferðinni, þarf jeg ekki að fara langt út í það að skýra nauðsynina á því, að Fiskiveiðasjóðurinn sje efldur svo, að hann samsvari kröfum tímans. Get jeg látið mjer nægja að vísa til álits minni hl. sjútvn. í fyrra og grg. frv.; og raunar líka til þess, sem fram kom frá meiri hl. nefndarinnar, því að hann viðurkendi einnig nauðsyn umbóta í þessum efnum.

Jeg býst við, að hv. þdm. sjeu okkur flm. sammála um það, að bátaútvegurinn sje, þegar hann er skynsamlega rekinn og gengur vel, ein aðallyftistöng þjóðarbúskaparins, og því beri að styðja hann og greiða fyrir honum eftir mætti. Vona jeg, að þetta þing finni til þess einhver þau ráð, sem viðunandi eru fyrir lausn þessa máls. Vænti jeg þess því fremur, sem mjer er kunnugt um, að sjútvn. þessarar hv. d. er skipuð mönnum, sem allir hafa áhuga fyrir velferð þessa máls. Jeg veit líka, að í hv. Ed. er komið fram annað frv. um þetta efni, sem raunar gengur nokkuð í aðra átt; en því treysti jeg, að úr þeim tillögum, sem hjer koma fram, megi finna sæmilega lausn málsins.

Skal jeg svo eigi fjölyrða frekar að sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.