20.04.1929
Neðri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2642)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg mun takmarka mál mitt sem mest í þetta sinn, sumpart vegna þess, að jeg er ekki vel frískur, og í öðru lagi fyrir þá skuld, að mál þetta hefir legið fyrir á undanförnum þingum og er því orðið töluvert rætt.

Það má segja, að málið hafi átt frekar erfitt uppdráttar, en það hefir ekki komið til af því, að ekki væru nœgilega margir, sem áhuga hefðu á að efla Fiskiveiðasjóðinn og breyta honum til bóta, heldur hefir málið ekist undan fyrir skoðanamun á aðferðum til þess að ná markinu.

Svo sem kunnugt er, hefir sjóður þessi starfað í 23 ár, en þó orðið að litlu liði fyrir þá atvinnugrein, sem hann sjerstaklega átti að styðja, sem sje smábátaútveginn. Er það hvorttveggja, að hann hefir haft litlu fje yfir að ráða, síðan teknar voru frá honum þær tekjur, sem honum voru upphaflega ætlaðar, sem sje sektarfje fyrir ólöglegar fiskiveiðar, enda hefir fje hans að meira leyti verið lánað til stærri hafnarmannvirkja en til bátaútvegs. Sjóðurinn hefir ekki síðari árin haft annað en stofnfje það, 100 þús. kr., sem ríkissjóður lagði honum upphaflega og árlega tillagið úr ríkissjóði 6000 kr. En þrátt fyrir það, þó að sjóðurinn hafi ekki haft meira fje úr að moða en þetta, þá er hann þó orðinn nú hartnær 700 þús. kr., sem mestalt er í skuldabrjefum. Nokkuð af þessu fje er að vísu í útlánum hjá skipaeigendum, en þó er meginhluti þess í hafnarlánum, þar af hjá Reykjavíkurhöfn, að því er mig minnir, nokkuð á þriðja hundrað þúsunda. Útveginum sjálfum hefir því sjóður þessi orðið að litlu liði, og hefir kveðið svo ramt að um mistök á stjórn þessa sjóðs, að mjer er ekki kunnugt um, að eitt einasta lán úr honum hafi verið veitt til míns kjördæmis, þar sem þó er ca. 1/6 hluti af allri bátaútgerð landsins, og það útvegur, sem að mestu hefir vaxið upp á síðustu 24 árum. Það eina sem mjer er kunnugt um, að gengið hafi til Austurlands úr sjóði þessum, eru nokkur hundruð krónur, sem veittar voru manni þaðan, til þess að sækja sýningu erlendis. Líkt hygg jeg að megi segja um Norðurland. Það litla sem sjóður þessi hefir styrkt útveginn er þá hjer í grend við Reykjavík, og ef til vill eitthvað á Vestfjörðum. Afleiðingin af því, að sjóðurinn hefir ekki getað ljett undir með bátaútveginum, sem einna mest hefir dafnað á þessum síðustu árum, hefir svo orðið sú, að fjöldi af útgerðarmönnum smábátanna hefir orðið að nota verslanir og kaupmenn fyrir milliliði, til þess að ná í rekstrarfje og oft á tíðum líka stofnfje til útvegsins. Með öðrum orðum, þeir hafa orðið að sæta hinum ótryggustu og verstu kjörum um stofnlán og rekstrarfje. Fyrir þessar sakir er líka hagur þessara manna víða um land mjög erfiður. Þeir hafa átt ilt með að skapa sjer lánstraust, af því m. a., að það helsta, sem þeir hafa haft að bjóða til tryggingar lánum, sem sje bátarnir, voru með farmannalögunum frá 1914 gerðir óveðhæfir vegna sjóveðanna, sem á þeim hvíla. Hefir þetta því útilokað útgerðarmenn marga frá beinum viðskiftum við bankana, og neytt þá til þess, sem jeg gat um áðan, að leita á náðir kaupmanna og verslana um fje til kaupa á bátum og rekstrar. Ekki verður ljóslega sjeð hverjir vextir hafa verið af slíkum lánum, en það er víst, að þeir hafa verið háir hjá mörgum.

Nú hefir svo farið, að meiri hl. sjútvn. hefir orðið sammála um að bræða saman þær tvær aðalstefnur, sem áður hafa komið fram, annarsvegar stofnlánasjóð og hinsvegar eingöngu rekstrarlánasjóð. Meiri hl. vill taka tillit til beggja stefnanna. Þó er það svo, að eftir tillögum hans, sem um fjáröflunaraðferð víkja frá frv. á þskj. 43, verður sjóðurinn tiltölulega lítils megnugur fyrst í stað, sjerstaklega verður þó lítill hluti sjóðsins til rekstrarlána. En af því að nokkur von er um, að sá útvegur, sem er sameinaður landbúnaði í sjávarsveitunum, muni eiga von á stuðningi frá rekstrarlánafjelögum, sem ráðgert er að starfi í sambandi við fyrirhugaðan Búnaðarbanka, þá þykir meiri hl. n. von um, að bætt verði svo úr fyrir útvegsmönnum smábátanna, að hagur þeirra hljóti að breytast til batnaðar. Stofnlánadeildin verður hinsvegar mun öflugri en sjóðurinn er nú, þar sem henni er auk gamla sjóðsins ætlað að fá 60 þús. kr. tillag úr ríkissjóði árlega næstu 10 árin. Sú milj. kr., sem meiri hl. ætlar ríkissjóði að leggja fram í rekstrarlánadeild um leið og lögin öðlast gildi, verður að sjálfsögðu að líta á eins og fyrsta fótmálið til að afla þessum útvegi rekstrarfjár með aðgengilegum kjörum.

Jeg vil nú ekki ætla, að nokkur hv. þdm. sjái eftir þessum framlögum til Fiskiveiðasjóðs eða telji þau ríkissjóði ofvaxin eða óskyld. Þau eru raunverulega smáræði eitt í samanburði við það, sem ætlast er til með frv. til laga um Búnaðarbanka Íslands, að ríkissjóður leggi fram til hins aðalatvinnuvegarins. Og ef tekið er tillit til þess, að nær helmingur af öllu því, sem útflutt er úr landinu, er afrakstur bátaútvegsins, þá virðist hjer ekki til mikils mælst.

Af þessum ástæðum m. a. vænti jeg, að frv. þessu verði vel tekið og að hv. þdm. greiði svo götu þess, að það megi komast í gegnum þingið, því að ástand það og hornrekuháttur, sem nú ríkir um smábátaútveginn, má ekki lengur bíða lagfæringar.

Jeg sje nú enga ástæðu til þess að fara út í hverja einstaka grein frv., því að jeg býst við, að hv. þdm. sjeu löngu búnir að kynna sjer þær, og ekki síst, þar sem fyrir síðasta þingi lá frv. mjög líkt þessu. Þó vil jeg bæta litlu við, áður en jeg lýk máli mínu.

Afleiðingarnar af því, að smábátaútvegurinn hefir orðið að sæta svona þungum kjörum með rekstrarfje og alt lánstraust á undanförnum árum, eru m. a. þær, að heill her manna hefir gefist upp við atvinnureksturinn, mist atvinnutækin og sópast inn í fylkingar öreigalýðsins víðsvegar um landið og að því er mjer virðist til lítilla þrifa fyrir þjóðfjelagið. Hafa þannig margir efnilegir menn orðið að sleppa voninni um sjálfstæðan atvinnurekstur og sjálfstæða stöðu, en lifa af náðarbrauði annara. Að fyrirbyggja slíkt ástand er það, sem jeg tel mestu máli skifta, og legg því mesta áhersluna á. En það verður ekki með öðru móti en því, að hlynna að smábátaútveginum, svo að hann geti orðið sjálfstæður atvinnuvegur og óháður milliliðum við lánsstofnanir, þar sem annars hefir verið bygt á heilbrigðu fyrirkomulagi. Bátaútvegurinn með þeim stuðningi, sem meiri hl. ætlar honum, á að geta verið efnalitlum, dugandi mönnum ómetanleg hjálp til þess að ná marki sjálfstæðis og óháðrar stöðu.

Klofningurinn í sjútvn. stafar af því, að meiri hl. leggur til, að niður falli sjóveðrjettur í bátununi eða víki fyrir veðrjetti Fiskiveiðasjóðs, þegar skip eru honum veðsett. Þetta olli einnig ágreiningnum á síðasta þingi í þáverandi meiri hl., en er nú gert að megin mótspyrnu, og heldur minni hl. því fram, að með þessu sjeu dýrmæt rjettindi tekin frá sjómönnum.

Með þessu gerir hv. minni hl. aukaatriði að aðalatriði, því að með því að láta sjóveð víkja fyrir veði sjóðsins, er lítilvægum hagsmunum vikið til fyrir stórvægilegum hagsmunum, og vissulega eru þau tilfellin fá, að fiskimenn á smábátum hafi þurft að nota sjer sjóveðrjettinn, enda verður hann ekki frá þeim tekinn eftir till. meiri hl., nema í þeim einstöku tilfellum, þegar bátur er veðsettur Fiskiveiðasjóði. Líka má geta þess til árjettingar, að sú stjórnskipaða milliþinganefnd, sem hafði þetta mál til meðferðar 1927, lagði einnig til, að lögunum væri breytt í þessa sömu átt. Enda er það svo um marga þessa efnaminni útgerðarmenn, sem tilgangur frv. einkum er að hjálpa, að þeir hafa ekkert annað veð frambærilegt en bátana. En að því er tryggingu verkalauna snertir, þá er eðlilegt, að fyrir þeim verði sjeð á annan hátt en þann, að fella niður veðhæfi bátanna, og virðist það oftast munu vera auðgert með samningum. Enda verður þess að gæta, að þegar um hlutarráðningu er að ræða, þá er engin þörf fyrir sjóveð. Það er aðeins sá hluti háseta og annara, er að smábátaútgerð vinna, sem þetta skiftir nokkru og notað geta sjóveðrjett. En fyrir öryggi þeirra má sjá á annan hagkvæmari hátt en þann, að ræna bátana veðhæfi þeirra gagnvart þessari og öðrum lánsstofnunum.

Jeg mun svo ekki fleira mæla að sinni, en bið átekta þar til mótmæli koma fram. Jeg býst nú við því, að þessu máli verði yfirleitt vel tekið og verði afgreitt bæði fljótt og vel og sem líkast því, sem meiri hl. sjútvn. leggur til.