20.04.1929
Neðri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2643)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Sem einn flm. að þessu frv. vil jeg leyfa mjer að þakka hv. sjútvn. og hv. frsm. hennar það lið, sem hún hefir veitt þessu frv., og jeg í öllum aðalatriðum gat fallist á. Að vísu sýna þær brtt., sem fyrir liggja frá n., allmiklar breytingar á frv. En höfuðstefnunni er þó haldið, þeirri, að efla Fiskiveiðasjóðinn að mun, svo hann sje betur fær um að styrkja útveginn en verið hefir undanfarið. Þetta var það mark, sem kept var að á síðasta þingi með frv. því, sem þá lá fyrir og ekki komst fram, sama markmið og nú er að stefnt á þessu þingi.

Við í meiri hl. n. fjellumst á það, að sleppa úr frv. útgáfu vaxtabrjefa að þessu sinni. Þótti okkur ekki heppilegt að halda því til streitu nú, þar sem líka er á ferðinni á þessu þingi stórfeld lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem ætlað er að gefa út vaxtabrjef.

Það hefir nú lengi vakað fyrir sjútvn. að reyna að efla Fiskiveiðasjóðinn, svo að hann gæti orðið til eflingar sjávarútveginum. 1927 kom fram í Ed. þáltill., sem skoraði á ríkisstjórnina að undirbúa lánsstofnun fyrir bátaútgerðina, sem væri hliðstæð Ræktunarsjóði Íslands og veitti lán með aðgengilegum kjörum. Var skipuð nefnd til að gera till. um þetta, og lá umsögn hennar fyrir síðasta þingi. Þar er bent á ýmsar leiðir til úrlausnar þessu máli. Líka hefir Fiskifjelag Íslands gefið upp álit sitt og drepið á aðalannmarkana, sem verið hafa á Fiskiveiðasjóðnum. Fiskifjelag Íslands er sá aðili, sem bær er að gefa óhlutdrægt álit í þessu máli. Það hefir verið ráðunautur um lán úr sjóðnum um langt skeið.

Nú var það tilgangur frv. þess, er jeg var meðflm. að, að lána eingöngu til smærri skipa- eða bátakaupa og iðnaðarfyrirtækja í sambandi við fiskveiðar.

Nú hefir komið fram annað frv. í Ed., þar sem farið er fram á, að Fiskiveiðasjóður Íslands sje notaður til rekstrarlána handa sjávarútveginum. Þetta tvent hefir nú verið reynt að sameina í sjútvn. Nd. Og árangurinn er sá, að við höfum fallist á að skifta Fiskiveiðasjóðnum í 2 deildir, skipakaupadeild og rekstrarlánadeild. Þessi rekstrarlánadeild á að veita þeim mönnum opinn aðgang að lánum, sem ekki hafa annað en afla sinn að láta sem veð, eins og hinum, sem meira hafa að láta í veð en afla sinn.

Jeg get nú kannast við það, að n. hefir hjer ekki komið fram með bót allra meina í þessu efni, en telur þó, að þetta geti orðið drjúgt spor í áttina. Og henni er það ljóst, að það er veruleg bót frá því ástandi, sem nú er. Það er ekki einhlítt til framkvæmda, að hver komi með uppástungur, sem stefna sín í hverja áttina, og alt detti svo niður vegna sundurlyndis. Þetta var meiri hl. sjútvn. ljóst. Og þetta var það, sem sameinaði hann að því verki, að gera þessar tillögur, sem geta orðið bót til bráðabirgða og grundvöllur til að byggja ofan á og færa út síðar, eftir því sem geta leyfir og þörf krefur. — Þetta vildi jeg segja þeim til athugunar, sem festa augun um of við það, að till. meiri hl. sjútvn. ráði ekki nema að nokkru leyti bót á þeirri þörf, sem fyrir hendi er. Þeim verður að vera það ljóst, að fyrst verður maðurinn að læra að skríða, áður en farið er að ganga. Það er ekki hægt að klífa hamarinn í einu, heldur verður að feta sig stall af stalli, taka því nú, sem ástæðurnar leyfa að gert sje og samkomulag getur orðið um. — Jeg efast að vísu ekki um góðan vilja hjá hæstv. stjórn og hv. þingflokkum til þess að gera þetta sem best úr garði. En eftir því, hvað ríkið verður nú á sig að leggja til hjálpar landbúnaðinum, þá má gera ráð fyrir því, að orka þess sje tæmd í bili. Er því ekki þess að vænta, að það einnig geti í sama vetfangi gert stofnun sem þessa svo sterka, sem þörf er á. Jeg vildi gjarna, að það væri hægt, en loka hinsvegar ekki augunum fyrir því, hver geta ríkisins er í þessu efni, og get þess vegna fylgt þessu, þótt ekki sje stærra af stað farið. Hv. frsm. hefir nú lýst því, hvað fyrir n. vakir um fjáröflun til þessa sjóðs. En meiri hl. n. var það vel ljóst, að sú fjáröflun mundi ná skamt, og þyrfti því annaðhvort að finna nýjar tekjulindir til hans síðar eða bæta honum þær tekjulindir, sem hann hefir áður haft og síðar mist. 1907 var honum ætlað 10% af útflutningsgjaldi síldar, en það var aftur afnumið 1919. — Með lögum frá 1920 var Fiskiveiðasjóði ætlaður 1/3 hluti af þeim sektum, er fengist vegna landhelgibrota togaranna. En þá tekjulind hefir hann líka mist. Sú skoðun hefir nú komið fram hjá Fiskifjelagi Íslands, að Landhelgisjóði bæri að greiða þetta þann tíma allan, sem þetta hefir gilt. Hvort sem horfið verður að því síðar, að taka upp þessi fyrri rjettindi Fiskiveiðasjóðs, eða aðrar leiðir verða fundnar honum til tekjuöflunar, þá er jeg þess fullviss, að Alþingi mun sjá sjer skylt að greiða fyrir því, að þessi stofnun geti hið fyrsta náð tilgangi sínum, ekki síður en það sjer fyrir lánsþörf landbúnaðarins. Hvorutveggja þessa atvinnugrein þarf að styrkja. Og jeg álít þessar till. svo drjúgt spor í áttina, að við þær beri að sætta sig í bili, þar til Alþingi sjer sjer fært að gera aðra og meiri umbót á þessu sviði.

Jeg veit, að það er sjerstaklega ein till. meiri hl. n., sem mætt hefir mótspyrnu ýmsra manna. En það er, að lán Fiskiveiðasjóðsins gangi fyrir öðrum lánum hvað veð snertir, og þá líka hverskonar sjóveðum. En þetta ákvæði var óhjákvæmilegt að taka upp, vegna þess að annars er Fiskiveiðasjóði ókleift að taka báta sein gilt veð fyrir lánum. Þannig hefir gjaldkeri sjóðsins tjáð mjer, að eitt sinn hafi verið út frá því brugðið að taka veð í öðru jafnhliða bátnum. Afleiðingin varð sú, að á bátinn fjell sjóveð, og Fiskiveiðasjóðurinn tapaði öllu sínu láni. Sú stefna hefir því verið upp tekin, að lána ekki út á skip, nema fasteignarveð fylgdi, sem út af fyrir sig væri fullgott veð fyrir láninu, hvað sem skipsveðinu liði. Jeg hefi oft verið milligöngumaður um slík lán, og jeg veit, að stjórnendum sjóðsins hafa oft fallið svo orð, og það rjettilega, að veð í skipuni sje einskis virði meðan á þau geti hlaðist sjóveð fyrir vangoldin laun skipverja. — Af þessu er það augljóst, að þótt Fiskiveiðasjóður verði aukinn eins og nefndin leggur til, eða meira, þá hafa þó efnaminni menn, sem ekkert veð hafa að láta nema skipin, svo að segja engan aðgang að lánum úr honum meðan þetta ákvæði stendur, sem fyrirbyggir, að hægt sje að lána út á skipin eingöngu. Efnalitlum mönnum verður því jafnerfitt eftir sem áður að eignast skip eða báta, og tilgangur þessa frv. næst þá ekki.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni. Jeg vildi benda á, að það er hin mesta nauðsyn að gera bátana veðhæfa, því að annars er gagnslítið að efla sjóðinn. Og því er farið fram á að breyta þessu, að ætlast er til, að Fiskiveiðasjóðurinn geti orðið stoð og stytta smærri útgerðarmanna.