20.04.1929
Neðri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2644)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það hafa nú tveir hv. þm. úr meiri hl. sjútvn. haft framsögu fyrir brtt. n. á þskj. 248. En áður en jeg fer út í till. sjálfar, vil jeg fara nokkrum orðum um málið alment.

Það var rjettilega fram tekið hjá hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), að mál þetta átti örðugt uppdráttar á síðasta þingi. Margar till. komu þá fram, og voru sumar þess eðlis, að lítill slægur var í þeim. Hitt var þó öllum ljóst, að fjáröflun til sjávarútvegs landsmanna var stórt og þýðingarmikið mál, sem hugsa þyrfti til hlítar hvernig leyst mætti verða. Þetta mál hefir nú á þessu þingi verið nokkuð rætt, þar sem það hefir blandast saman við umr. um fjáröflun til landbúnaðarins. Hafa í þeim umr. fallið mörg vinsamleg orð um það, að einnig beri að rjetta sjávarútveginum höndina á sama hátt. En þær till., sem fram komu á síðasta þingi og enn hafa komið fram á þessu þingi um eflingu Fiskiveiðasjóðsins, eru á þann veg, að undrum má sæta, í að tekist hefir að bræða þær andstæður saman í eitt. Hefði slíkt einhverntíma verið kallaður bræðingur, enda er það sannkallaður „íhalds-framsóknar“ bræðingur! Líti maður á þskj. 43 frá hv. þm. Vestm. og flokksmönnum hans og beri það saman við brtt. meiri hl. sjútvn. á þskj. 248, þá má segja, að ekki standi steinn yfir steini í af því, sem var í frv. — Hjer verður því eiginlega um nýtt frv. að ræða, ef brtt. verða samþ. Mjer þykir undarlegt, að hv. flm. frv. skyldu geta gengið inn á þennan bræðing, sem sýnir algerðan stefnumun frá því, sem var í frv. Er mjer líka kunnugt um það úr sjútvn., að þetta afkvæmi átti við harða fæðingu að stríða. — Er mjer og eigi heldur grunlaust um það, að litt mundu sumir nefndarmennirnir harma það, þótt þessi getnaður þeirra yrði ekki langlífur. Er það og eigi óeðlilegt, því hjer er skamt stigið til umbóta og því lítils árangurs að vænta. Jeg skildi því við hv. n., og hefi jeg gert grein fyrir minni skoðun á þskj. 284.

Það, sem vakir fyrir mjer, er það, að þar sem um stórfelda byltingu er nú að ræða í peningastofnunum landsmanna, þá vil jeg taka skrefið fult um það, að lánsstofnunum öllum sje komið í fullkomið og æskilegt horf fyrir alla landsmenn. — Þótt menn hafi hjer skiftar skoðanir á ýmsu, þá eru þó allir sammála um, að það þurfi að koma peningamálum landbúnaðarins í fast og hagkvæmt horf. Og ef Búnaðarbankinn verður settur á stofn, þá mun það leiða til stórfeldra framfara í landbúnaðinum. En það liggur í hlutarins eðli, að taka þarf einnig föstum tökum á peningamálum sjávarútvegsins.

Jeg býst við, að það verði nú sagt, að sjávarútvegurinn hafi haft aðgang að þeim peningastofnunum, sem fyrir eru í landinu. Það hefir löngum klingt í eyrum, að mest af töpum bankanna hafi orðið á sjávarútveginum, og er ef til vill nokkuð satt í því. En hver hluti útgerðarinnar er það, sem aðgang hefir haft að bönkunum? Það er stórútgerðin, togaraútgerðin, og einstaka sinnum hin stærri vjelbátaútgerð. En hin smærri vjelbátaútgerð hefir algerlega farið varhluta af fje bankanna, nema ef til vill sumir þeirra manna, sem næstir búa bönkunum. En úti um land fá útgerðarmenn veltufje sitt að langmestu leyti hjá kaupmönnum, sem þá ráða verðlagi útlendra vara, svo sem á öllu því, er útgerðin þarfnast, og skamta verðið fyrir fiskinn eftir sínum geðþótta og hirða þar með þann arð, sem ella mundi lenda í höndum fiskimannanna sjálfra, og þeirra, sem fleyturnar eiga. Þetta fyrirkomulag gerir útgerðarmennina miklu háðari verslununum en æskilegt væri.

Sá hluti þjóðarinnar, sem á við þessi ókjör að búa, er sennilega talsvert stærri en nefndin gerir sjer grein fyrir. Útvegurinn í landinu fer hröðum fetum vaxandi. Og það er ekki síst vjelbátaútgerðin, sem hleypt hefir fjöri í hann. Einkum fer litlu, opnu vjelbátunum óðum fjölgandi, og lítur út fyrir, að þeir eigi sjer framtíð fyrir höndum, a. m. k. fyrst um sinn. En það kostar nokkurt fje að afla þessara tækja. Hæfilega stór, opinn vjelbátur, vel út búinn, fæst varla fyrir minna en 4000 kr. Flestum fiskimönnum er um megn að leggja það fje fram úr eigin vasa. Rekstrarfjeð verða þeir að fá hjá kaupmönnum, og oft með óhagstæðum kjörum, eins og jeg gat um áðan. Peningastofnun, er mynduð yrði fyrir bátaútveginn, þyrfti því að geta lánað bæði andvirði bátanna að nokkru leyti og rekstrarfje. Til þess þarf allmikið fjármagn og meira en hægt er að leggja fram eftir tillögum nefndarinnar.

Jeg vil minna á aðra tegund skipa, gufubátana, sem notaðir eru til línuveiða. Þeim fer einnig fjölgandi, og er talið arðvænlegt að gera þá út. En hafi fiskimenn ekki ráð á að kaupa vjelbáta, eiga þeir þó enn örðugra með að afla sjer slíkra skipa. En það er svo um fiskimannastjettina, eins og aðrar stjettir, að hún lítur mjög á hvað best borgi sig í hvert sinn. Ennfremur er það mikið atriði fyrir fiskimennina, að geta verið á skipum, þar sem hægt er að láta sjer líða sæmilega, en þeim kostum eru flest línugufuskipin búin. Jeg held því, að það sje dálítið varhugavert að einskorða lánin alveg við ákveðna tegund eða stærð skipa. Gæti verið, að ekki þætti síður ástæða til þess að lána til stærri skipa heldur en þeirra, sem eru undir 30 smál. Ætti stjórn lánsstofnunarinnar að hafa sem óbundnastar hendur í þessu efni, því að vel má svo fara, að það, sem gefur arð í ár og hin næstu, þyki ekki jafnarðberandi síðar. Breytingarnar eru svo stórstígar nú á tímum, að ekki er hægt fyrirfram að ákveða, hvað best verði. En lánunum verður fyrst og fremst að verja til þeirra skipa, sem reynslan sýnir að hagkvæmust eru.

Skal jeg þá snúa mjer beint að nál. meiri hl. Þar er þess getið, að Fiskiveiðasjóður sje nú um 700000 kr. Ekki þarf nýja löggjöf til að ráðstafa því fje, enda er það rjettilega tekið fram í nál., að mestur hluti þess sje bundinn í útlánum. Flest eru lánin til langs tíma, bundin í hafnargerðum og öðrum slíkum lánum, og mjög takmarkaðar upphæðir, sem koma árlega. En svo á ríkið að leggja fram 60 þús. kr. á ári, og það yrði sú raunverulega upphæð, sem hægt væri að verja til nýrra skipakaupa. En nú á líka að lána af þessu fje til iðjufyrirtækja í sambandi við útgerð. Mætti þá gera ráð fyrir, að veitt yrðu 2 lán á ári, eins og meiri hl. gerir ráð fyrir, um 35 þús. til iðjufyrirtækis og 25 þús. til kaupa á skipi, og sjá allir, hvaða gagn er að öðru eins. (JJós: Sjóðurinn hefir meira fje en þetta). Já, vexti og afborganir af lánunum, en það yrðu engar stór upphæðir. Menn geta gert sjer í hugarlund, hvort þörfinni yrði fullnægt með þessu móti. Aðsóknin að lánunum yrði vafalaust mikil. En jeg er hræddur um, að fáir yrðu bænheyrðir.

Jeg hefi bent á það, að sjóðnum sje ætlað að styðja ýmiskonar iðju í sambandi við fiskveiðar. Mikill áhugi er nú vaknaður á því, að hagnýta það af fiskinum, sem nefna mætti aukagetu framleiðslu, svo sem lýsi, hrogn, bein og hausa. Enginn vafi er á því, að sú hagnýting fer í vöxt í framtíðinni. En til þess þarf vjelar. Slíkar vjelar þyrftu að vera til í hverri veiðistöð. Er mikið á boðstólum í Ameríku af vjelum, hentugum í smáar verksmiðjur, er koma mætti á stofn í minni veiðistöðvum. En til þess að slík fyrirtæki geti komist á, þarf allmikið fje.

Meiri hl. nefndarinnar gerir ráð fyrir að mynda aðra deild í sjóðnum rekstrarlánadeild. Til hennar á ríkissjóður að leggja ½ milj. kr., eitt skifti fyrir öll. Þegar áætla skal notin af þessum lánum, er rjett að taka til hliðsjónar þann skipastól, sem nú er í landinu. Skip undir 12 smál. eru nú 1141 á öllu landinu, samkv. „Hagtíðindum“. Af þeirri tölu eru 650 róðrarbátar og 491 vjelbátar. Þetta er það, sem í daglegu tali er kallaður smábátaútvegur. Í meðalári lætur nærri, að þessi skip afli helming þess fiskjar, sem hjer kemur á land. Allir sjá, hvaða gagn svo mikilli útgerð er að því, að fá milj. kr. rekstrarlán. Ef hv. meiri hl. væri það áhugamál, að smábátaútvegurinn geti staðið á eigin fótum, þá ætti hann að stíga stærri spor. Það er hverjum vitibornum manni ljóst, að öllum þeim mönnum, sem að þessum útvegi standa, verður ekki forðað frá því, að flýja á náðir kaupmannanna, eins og þeir nú verða að gera, með ½ milj. kr. sjóði.

Í nál. mínu hefi jeg ekki gert ráð fyrir, að togaraútgerðin fengi lán úr væntanlegum fiskiveiðabanka. Núverandi lánsstofnanir ættu að geta fullnægt lánsþörf hennar. Enda hefir hún trygt sjer um langt skeið viðskifti við bankana, og það í mjög stórum stíl. Er þar og um svo fjárfreka útgerð að ræða, að hætta er á, að hún gleypti mestan hluta af því fjármagni, sem Fiskiveiðabanki hefði til umráða. Hin nýja peningastofnun á að vera handa þeim, sem minni máttar eru og hingað til hafa eigi haft aðgang að bönkunum, eða þá að mjög litlu leyti.

Hv. frsm. meiri til. (SvÓ) gaf í skyn, að það, sem einkum hefði valdið klofningi í nefndinni, væri það, að hjer væri gengið inn á óvanalegt svið í löggjöfinni, með því að draga úr gildi sjóveða. Jeg skal játa, að þessi ástæða er þung á metunum hjá mjer. En jeg get heldur ekki fallist á till. meiri hl. um fjárframlögin; þykir þar altof skamt gengið. En jeg skal koma aftur að sjóveðinu. Og til þess að vekja athygli hv. deildar á því, hvað hjer er í raun og veru um að ræða, skal jeg leyfa mjer að lesa upp — með leyfi hv. forseta, — þann kafla siglingalaganna frá 1914, sem fjallar um sjóveð. Geta hv. þm. þá gert sjer grein fyrir, hvað sjóveð er í raun og veru. En það efast jeg um, að þeir hafi allir athugað til hlítar. Í 236. gr. siglingalaganna segir svo:

„Þessar kröfur eigi sjóveðrjett í skipi og farmgjaldi:

1. Hafnsögumannskaup, björgunarlaun og kostnaður á frelsun skips úr óvina höndum.

2. Kröfur skipstjóra og skipshafnar til kaups og annarar þóknunar, sem þeir eiga lögmætt tilkall til, fyrir starf sitt í þjónustu skipsins.

3. Kröfur um framlög til sameiginlegs sjótjóns, svo og kostnaður, sem jafna skal niður með svipuðum hætti (síðari liður 166. gr. og 2. liður 223. gr.), sjólánskröfur, svo og bótakröfur farmeigenda fyrir vöru, sem seld var í þágu skips á ferð.

4. Kröfur, til orðnar við skuldbindingar, sem skipstjóri hefir gengið í vegna stöðu sinnar, eða til orðnar við vanefndir á samningum, sem útgerðarmaður gerði sjálfur, eða fjekk öðrum umboð til, og skipstjóra skylda var að annast efndir á, sbr. 12. gr., svo og skaðabótakröfur fyrir tjón af svikum hirðuleysi eða gáleysi þeirra manna, sem ráðnir eru til þess að vinna í skipsins þarfir við skyldustörf þeirra, sbr. 13. gr., og enn kröfur skipstjóra til endurgjalds fyrir það, sem hann hefir greitt sjálfur til lúkningar kostnaði í skipsins þágu, eða ábyrgst greiðslu á, og loks endurgjaldskrafa sú, sem um er rætt í 3. málsgrein 225. greinar.

Sjóveðrjettur í skipi nær og til skipsbúnaðar, og telst ekki til hans vistabirgðir, eldiviður, kol nje aðrar vjelarnauðsynjar; sjóveðrjettur í farmgjaldi tekur yfir óskert (brúttó) farmgjald fyrir þá ferð, sem krafan stafar af. Sjóveðrjettur fyrir sjólánskröfum nær til skips eða farmgjalds eða hvorstveggja, eftir því, sem sjólánsbrjefið til tekur, sbr. 180. gr.

Eins og sjá má af því, sem jeg nú hefi lesið, eru ákvæðin um sjóveð í 4 liðum. Kaup skipshafnar er þar talið svo rjetthátt, að það er sett í 2. lið, næst á eftir björgun skips. Og mjer er ekki kunnugt um, að nokkur siglingaþjóð hafi gengið inn á að rýra þennan rjett sjómannanna. Í alþjóðalöggjöf eru jafnvel ennþá harðari kröfur gerðar í þessu efni. Á Norðurlöndum var fyrir nokkru lögtekin samþykt, sem gerð hafði verið í Genf, og er hún í mörgu strangari en ákvæðin í siglingalögunum íslensku.

Hv. meiri hl. hefir vitnað í álit milliþinganefndarinnar frá 1927, máli sínu til stuðnings. Jeg hefi persónulega átt tal við einn nefndarmannanna, og sagðist hann hafa verið mótfallinn því, að fella niður ákvæðin um sjóveðin, þótt hann gerði ekki ágreining um það í nefndarálitinu. Jeg hefi líka átt tal við ýmsa ráðandi menn peningastofnana í landinu, og hafa þeir talið takmörkunina mjög órjettláta. Jeg held raunar ekki, að till. hv. meiri hl. stafi af neinum illvilja, heldur miklu fremur hinu, að hann hafi ekki hugsað málið niður í kjölinn. Hjer er um það að ræða, að fella niður rjett, sem gilt hefir hjá okkur síðan 1892, og jafnvel lengur, — ekki frá 1914, eins og hv. frsm. sagði. (SvÓ: Jeg sagði það aldrei). Þennan rjett má ekki með nokkru móti afnema. Oft og einatt hefir orðið að grípa til þessara laga, til þess að sjómenn fengju greiddar samningsbundnar greiðslur. Jeg man eftir einu dæmi seint á stríðsárunum. Maðurinn, sem leigði skipið, fór illa út úr útgerðinni og skipið var sett fast fyrir kaupi skipverja, og skipseigandi varð að greiða það. Annað dæmi get jeg nefnt frá árinu 1927. Skipið, sem um er að ræða, hafði aflað mjög vel, en útgerðarmaðurinn hafði fleiri fyrirtæki með höndum, og varði andvirði aflans til greiðslu í þeirra þágu, svo að ekkert var til að greiða skipverjum með, þrátt fyrir mikinn og verðmætan afla. Hefði sjóveðið ekki verið til þá, myndi skipshöfnin hafa gengið slypp af skipinu. Mennirnir fengu sitt að lokum, fyrir ákvæði laganna. Allir sjá, hversu hraparlegt ranglæti það hefði verið, ef þessir menn hefðu tapað kaupi sínu fyrir það eitt, að sjóveðið hefði verið af þeim tekið. En annað eins gæti oft átt sjer stað, ef sjóveðrjettinum væri kipt burtu, eins og hv. meiri hl. fer fram á. Jeg hefði gaman af að sjá, hversu upplitsdjarfur hv. meiri hl. yrði, ef hann ætti að standa frammi fyrir íslensku sjómannastjettinni eftir slíka ákvörðun, án þess að tryggja henni á nokkurn hátt það kaup, sem hún með lífshættu hefir unnið sjer inn. Með þessu væri stigið stórt spor aftur á bak í þeim tryggingarráðstöfunum, sem löggjafarvaldið gerir vegna vinnulýðsins í landinu. Við þurfum að auka kauptryggingu verkalýðsins, en ekki að rýra eða nema í burtu.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að kaupgreiðslu til sjómanna mætti tryggja í með samningum. En finst hv. frsm. ekki nóg um deiluefni milli útgerðarmanna og sjómanna, þó að ekki sje bætt við enn einu samningsatriði? Það er líka hætt við, að slíkir samningar myndu aldrei ná yfir alla hlutaðeigendur.

Sem kunnugt er, hefir sú stefna nokkuð verið uppi á seinni árum, að ráða menn á skip upp á hlut. Gæti slíkt fyrirkomulag haldist, að hluti af aflanum yrði látinn ganga upp í kaupgreiðslu, myndu að sama skapi þverra líkurnar fyrir því, að nokkurntíma þyrfti að ganga að skipinu, ef trygt væri, að umráðamenn skips og afla gætu ekki farið með hlut háseta eftir geðþótta. Mætti skipið þá teljast fyllilega veðhæft, þó að sjóveðið hjeldist óbreytt.

Jeg vil líka benda á það, að sjóveðrjetturinn mun tæplega vera eins víðtækur og sumir hafa haldið fram. Á það bendir dómur, sem nýlega er genginn, út af úttekt skips, þar sem ákveðið er, að sjóveðrjettur gildi ekki fyrir matvælaúttekt skipa við veiðiskap, t. d. síldveiðitímann fyrir Norðurlandi. Aðalatriðið er, að trygt sje kaup mannanna, sem á skipunum vinna.

Þá skal jeg koma að öðru atriði. Nefndin hefir breytt ákvæðinu um, að stjórn Landsbankans skyldi hafa umsjón með sjóðnum, og með þeim forsendum, að eigi myndi á hana bætandi störfum. Vill nefndin í þess stað fela stjórn Búnaðarbankans þetta starf. Jeg held nú satt að segja, að stjórn þess banka muni hafa svo mikið á sinni könnu, að þetta myndi verða bjarnargreiði við hana. Jeg geri líka ráð fyrir, að bankastjórar Búnaðarbankans verði skipaðir með það fyrir augum fyrst og fremst, að þeir hafi nána kynningu og þekkingu á landbúnaði, en síður á sjávarútvegi.

Jeg hygg því, að ekki fari vel saman að láta þessa stofnun hafa þessi mál með höndum. Það þarf að fela sjerstökum mönnum, er hafa náin kynni af fiskiveiðum og fiskimönnum, eru kunnugir útgerð í hvívetna og bera hag fiskimannanna fyrir brjósti. Jeg get því ekki fallist á þessa till. frekar en annað frá hv. meiri hl.

Sú hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., mun að samríma þetta frumvarpi um veðlánasjóð fiskimanna, er nú liggur fyrir hv. Ed. Þar er gert ráð fyrir 2 milj. kr. höfuðstól, og sú hálfa milj., sem þetta frv. gerir ráð fyrir í sama skyni, mun lítið bæta úr því hlutverki, sem þeim sjóði er ætlað að inna af hendi. Það mun sannast í reyndinni, að þetta er altof lítið fje fyrir útveginn, svo að nokkrum notum komi, eins og Veðlánasjóðnum er ætlað að gera. Tilgangur hans er að hjálpa mönnum til að kaupa sjer fleytur og koma aflanum í peninga. Þessi stofnun verður því að vera starfrækt sem víðast á landinu, ef hún á að geta náð tilgangi sínum. Jeg er ekki sjerfróður í bankamálum, en jeg álít, að þetta mál sje ekki nóg undirbúið eins og er, og að það eigi að undirbúa það og rannsaka fyrir næsta þing, og þá að stíga stærra spor en þetta frv. gerir ráð fyrir, enda er það till. mín, að málinu verði vísað til stj., til frekari undirbúnings. Mjer hefir virst svo, af ræðum manna hjer í hv. deild, að það sje almennur vilji, að koma málinu í góða höfn, en með því á jeg við, að svo stórt spor sje stigið, að þessi stofnun geti komið að fullum notum. En till. hv. meiri hl. sjútvn. ganga ekki lengra en svo, að skref verði stigið í þessa átt. Fiskimennirnir hafa orðið að bíða svo lengi eftir þessari stofnun, að jeg hygg, að þeir muni geta beðið eitt ár enn; sjerstaklega, ef þeir geta átt von á með því móti að fá stofnun, sem eitthvert lið er í.

Jeg hefi þá fært rök fyrir afstöðu minni til þessa máls, en áður en jeg sest niður, vildi jeg svara nokkrum orðum þeim almennu athugasemdum, sem fram hafa komið hjá þeim tveim hv. flm., sem talað hafa.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sjóðurinn mundi lítils megnugur til rekstrarlána, eftir sem áður, og sýna þau ummæli hans, að hann er mjer sammála um það, að of skamt sje stigið í þessu efni samkv. frv. Hann sagði ennfremur, að stofnlánasjóðurinn yrði öflugri eftir frv. en hann er nú. Þetta má vel vera, en hv. frsm. meiri hl. ætti að vera það kunnugt, að Fiskiveiðasjóðnum hefir lítið verið varið til skipakaupa, heldur að mestu leyti til hafnarlána.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að með þessu móti væri verið að bjarga heilum hópi manna úr öreigafylkingunni, sem hjer hefði verið til lítils þrifnaðar. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvað hann meinar með því, að stefna þessum ummælum til fiskimannanna. Mjer finst þetta köld orð og ómakleg í þeirra garð. Þó að fiskimennirnir sjeu að vísu ekki eigin húsbændur, þá hafa þeir þó fært þeim, sem framleiðslutækin eiga, gull í þúsundum. Ef hv. frsm. meiri hl. kallar það óþrif, að þessir menn sækja gull í skaut Ægis, til handa þjóðinni, þá veit jeg ekki, hvað hann fer. Jeg get verið honum sammála um það, að rjett sje að stofna til skipulags hinnar jöfnu skiftingar afrakstursins, en hitt get jeg með engu móti fallist á, að þeir menn valdi óþrifum, sem svo eru settir í þjóðfjelaginu, að þeir þurfa að vinna hjá öðrum.

Um sjóveðin hefi jeg áður talað, en mjer finst eins og hv. frsm. meiri hl. hafi það á meðvitundinni, að hann sje að vinna óhappaverk í þessu máli, því að hann sagði, að ekki væri til önnur leið út úr þessu máli, en að afnema sjóveðin, en viðurkendi hinsvegar, að ekki mætti grípa til þeirra nema í ítrustu neyð.

Jeg get látið þetta nægja út af ræðu hv. frsm. meiri hl., sem var að öðru leyti hófleg, en jeg verð að svara hv. þm. Vestm. nokkrum orðum. Hann mælti nokkur hlýleg orð fyrir brtt. meiri hl. sjútvn., og bjóst jeg þó varla við því af honum, vegna hins mikla áhuga, sem hann virðist hafa haft í þessu máli. En mikið má fyrir sættina vinna, og sannast hjer sem fyr, að á þeirri nóttu urðu þeir Heródes og Pílatus vinir. Tveir menn úr milliþinganefndinni, sem skipuð var 1927, hafa viðurkent það fyrir mjer, að þeir hafi ekki viljað ganga frekar til verks, fyr en búið væri að komast að einhverri niðurstöðu um skipulag peningamála fyrir landbúnaðinn. Og einn af nefndarmönnum lýsti yfir því við mig, að hann væri því algerlega mótfallinn, að sjóveðin væru látin falla niður. (JJós: Álit milliþinganefndarinnar lá fyrir þinginu í fyrra, og þar lýsti hún sig því samþykka fyrirvaralaust, að sjóveðin yrðu lögð niður). Þó að hv. þm. Vestm. virðist sætta sig við þessa lausn, viðurkennir hann þó, að þetta sje ekki endanleg lausn í þessu stórmáli, enda gat jeg búist við því frá fulltrúa eins mesta útgerðarhjeraðs landsins. En hinu gat jeg ekki búist við af fulltrúa sjómannastjettarinnar í Vestmannaeyjum, að hann vildi svifta þá rjetti, sem þeir eiga að lögum, er tryggir þeim kaup sitt. En nægjusemi hans með dvergsjóðinn sýnir óheilindi hans í málinu.

Jeg skal engan dóm á það leggja, hvað ríkisstj. ætlar sjer að gera í þessu máli, en mjer virðist sem ekki ætti að verða skotaskuld úr því, að útvega fje, ef nægur áhugi til umbóta er fyrir hendi.

Hv. þm. Vestm. er á sömu skoðun og hv. frsm. meiri hl., að ekki sje hægt að leysa þetta mál, nema með því að afnema sjóveðin. Jeg fæ nú ekki sjeð, að þess sje þörf, eins og jeg hefi tekið fram áður. Hann heldur því fram, að sjóveðin komi að engum notum fyrir þá, sem efnaminni eru. Jeg get ekki sjeð, að þetta sje rjett. Þótt efnalitlum mönnum gangi tregt að afla sjer fjár til skipakaupa, sem stafar meðfram af því, að engin lánsstofnun hefir veitt lán sjerstaklega til þess með hagkvæmum kjörum, þá hefir mjer ekki virst svo, að þeir væru mestu bragðarefirnir með að hafa af mönnum kaup sitt. Sjóveðin eru til tryggingar því, að sjómennirnir fái kaup sitt greitt, hvort sem þeir vinna hjá ríkum eða fátækum. Það kemur að vísu sjaldnar til greina, þar sem hlutaskifti eru, að til sjóveðanna þurfi að grípa, en þó mundi hlutargreiðsla ekki ávalt trygg, ef sjóveð væru afnumin. Jeg hefi enga trú á því, að bankarnir hætti að lána mönnum fje til skipakaupa, á sama hátt og þeir hafa gert, þó að sjóðurinn verði stærri en till. meiri hl. gera ráð fyrir, eins og hv. þm. Vestm. vill vera láta.

Eins og sjest í nál. mínu, hefi jeg leyft mjer að bera fram rökstudda dagskrá í þessu máli, og vænti jeg þess, eins og þetta mál er í pottinn búið, að það verði best leyst á þann hátt. Jeg ber það traust til hæstv. stj., að hún láti rannsaka þetta mál rækilega, og verði búin að undirbúa það fyrir næsta þing. Og jeg hefði satt að segja búist við, að hv. frsm. meiri hl. bæri svo mikið traust til sinnar eigin stj., að hann gæti fallist á till. mínar.