23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg gerði þegar í 1. ræðu minni grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Eins og nál. meiri og minni hl. bera með sjer, er mikið djúp staðfest á milli þeirra í málinu.

Hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) telur, að með þessu frv. sje fullnægt fjárþörf sjávarútvegsins um óákveðinn tíma. Jeg lít hinsvegar svo bjartsýnum augum á málið, að jeg tel betra að láta það bíða eitt ár, til þess að hægt sje að veita því góðan undirbúning, og stiga síðan talsvert stærra spor í þessum efnum heldur en til er ætlast í frv. því, sem fyrir liggur. Jeg hefi því meiri ástæðu til að vera bjartsýnn í þessu máli, þar sem hæstv. atvmrh. hefir látið það í ljós í umræðunum um Búnaðarbankann, að hann væri fús á að vinna að þessu máli með fylsta velvilja. Mjer finst því afstaða hv. frsm. meiri hl. bera vott um vantraust á hæstv. stjórn í þessu máli. Sjávarútvegurinn hefir orðið að bíða lengur en þetta eina ár eftir slíkri lánsstofnun, sem hjer um ræðir.

Hv. frsm. meiri hl. vitnaði í það, að jeg hefði í fyrra skrifað undir nál. það, er meiri hl. skilaði, með fyrirvara. Þetta er rjett, en þá stóð málið þannig, að minni hl. gat alls ekki fallist á till. hv. frsm. (SvÓ), sem voru svipaðar og nú, en jeg gerði ekki meiri ágreining en þann, að skrifa undir nál. með fyrirvara, sem þýddi frá minni hálfu algerða andstöðu við málið, ef ákvæðin um sjóveðin yrðu ekki feld burtu. Ennfremur var augjóst, að málið myndi ekki ganga fram, en jeg gat þess jafnframt, að fyrirvari minn lyti að sjóveðunum og óánægju með þær tillögur, sem þá lágu fyrir. En sá minni hl., er þá var, vildi ekki fylgja till. meiri hl. þá, þótt hann geri það nú, og skil jeg ekki þá stefnubreytingu.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að jeg væri að skopast að samvinnu Framsóknar og Íhalds í þessu máli. Það er ekki rjett, en hitt er satt, að mjer finst dálítið hjákátleg samvinna þessara tveggja flokka þegar um er að ræða að rýra rjett fiskimannanna.

Ein af meginástæðunum til þess, að jeg get ekki fylgt frv., er sú stefna, að láta sjóveðin niður falla fyrir lánum úr Fiskiveiðasjóðnum. Hv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að ekki væri rjett, að þau væru feld niður með öllu. En sjóveðsrjetturinn er svo mjög skertur með ákvæðum frv., að hann verður næstum einskis virði, þar sem heimilt er að lána úr sjóðnum út á alt að helming virðingarverðs skips með 1. veðrjetti. Nú er reynsla fyrir því, að komið hefir fyrir, að helmingur skipsverðs hefir ekki nægt fyrir því, sem útgerðin hefir skuldað í kaupgjaldi. Fyrir nokkru síðan var togari kyrsettur fyrir kaupi skipshafnar, og var seldur á uppboði. Fór svo, að uppboðsandvirðið gerði eigi betur en að hrökkva fyrir því, er á skipinu hvíldi. Jeg á hjer við togarann „Clementinu“. (ÓTh: Er það virkilega rjett?) Það má vera, að eitthvað örlítið meira en kaup mannanna hafi hvílt á skipinu, en skipið seldist ekki nema fyrir sjóveðskröfununi er á því hvíldu. Þó man jeg ekki hvort þær náðust allar. Hefði hjer ekki verið sjóveðsrjettur, hefði skipshöfnin ekkert fengið af kaupi sínu.

Ef nú á að fella niður þennan rjett gagnvart lánum úr Fiskiveiðasjóði, verður afleiðingin auðvitað sú, að aðrar lánsstofnanir, sem lána til skipakaupa, krefjast hins sama. Hjer er lævís tilraun á ferðinni til að kippa burtu þeim rjettindum fiskimanna, að sjóveðsrjettur þeirra sje fullkomin trygging eins og verið hefir. Þetta eitt út af fyrir sig væri næg ástæða til þess, að jeg væri á móti frv.

Hvarvetna meðal útlendra þjóða hefir sjóveðsrjettur fiskimanna verið talinn nauðsynlegur til að tryggja þeim kaup sitt. Býst jeg við að geta lagt fram fullkomin skilríki um þetta við 3. umr. Nú á að kippa þessum rjetti burtu hjer hjá oss eftir frv. að dæma. Engir af hv. nefndarmönnum nema hv. frsm. meiri hl. hafa minst á þetta atriði, en jeg geri ráð fyrir, að þeir sjeu þar á sama bandi. Þetta er árás á verkalýðinn af hálfu meiri hl. sjútvn., sem virðist vera að reka erindi atvinnurekenda.

Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um það hjá lögfræðingum hjer í bænum, hve miklu sjóveð hafi numið undanfarið. Síðustu þrjú árin hefir ein lögfræðiskrifstofan haft til innheimtu sjóveðskröfur fyrir 180 þús. kr. Skip þau, sem gengið hefir verið að sjóveði í á þessum tíma fyrir áðurnefndri upphæð, eru tveir línuveiðarar, einn togari, og 18 skip yfir 18 smálestir. Mennirnir, sem kröfurnar áttu, voru 143 alls. Er það skoðun lögfræðinganna, að þeir hefðu lítið eða ekkert fengið af kaupi sínu ella. Þessi rjettur er feldur niður, eða sama sem feldur niður, með frv., eins og jeg hefi sýnt fram á, þar sem hann er settur aftur fyrir 1. veðrjett í helmingi skipsins. Til sjóveðs er venjulega ekki gripið fyr en að útgerðarmenn standa allslausir uppi, og eins og dæmin sýna er þá undir hælinn lagt, að skipið seljist fyrir kröfuupphæðinni, ef helmingur af andvirði skipsins er trygt með 1. veðrjetti.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta gilti aðeins gagnvart Fiskiveiðasjóðnum. En þó sjóðurinn stækki og lánmöguleikar hans aukist, má telja víst, að þetta ákvæði fylgi með, svo að sjóveðsrjettur sjómanna verði niður feldur með öllu, eftir því sem þeim skipum fjölgar, er lánað er út á úr sjóðnum.

Jeg get svarað þeim hv. þm. Borgf. (PO) og hv. frsm. meiri hl. samtímis. Jeg var, satt að segja, hissa á því, hve hv. þm. Borgf. var nægjusamur. Jeg hjelt, að hann væri kröfuharðari fyrir hönd sjávarútvegsins en þetta. Hann sagði að vísu, að þetta gæti orðið grundvöllur að öðru meira, er síðar kæmi. En jeg er hræddur um, að ef málið verður afgreitt í þessu formi,

verði það til þess að spilla því, að róttækar breytingar nái fram að ganga á næstu þingum.

Það má vel vera, að hv. frsm. meiri hl. hugsi sem svo, að þetta fyrirkomulag verði að duga hans daga. En jeg er kröfuharðari en svo. Þetta þing hefir samþykt lög um Búnaðarbanka með 60 miljóna fjármagni, og enginn mun efast um, að nokkur vandræði verði á að afla þess fjár, sem hann þarfnast. Fje það, sem lánað er til styrktar landbúnaðinum, verður að vera í löngum lánum og kemur seint inn aftur. Hinsvegar skilar sjávarútvegurinn sínum lánum fljótt aftur. Hann er miklu fjárfrekari en landbúnaðurinn, en gróðinn hinsvegar miklu fljótteknari. Held jeg, að eigi ætti að verða skotaskuld úr að afla sjávarútveginum lánsfjár, eins og landbúnaðinum. Hefir þegar verið bent á ýmsar leiðir til þess, t. d. vaxtabrjefasölu, eins og milliþinganefndin 1927 benti á.

Þá vil jeg nokkuð minnast á vaxtakjörin, sem hv. frsm. meiri hl. og hv. þm. Borgf. töluðu um. Jeg verð að taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að jeg sje ekki ástæðu til þeirra ívilnana í vaxtakjörum, sem frv. ætlast til að sjeu veittar þar. Þetta yrði til þess að auka eftirsóknina eftir þessum lánum afskaplega. En þegar til á að taka er ekkert að lána. Jeg tel rjett, að þessi sjóður veiti lán með svipuðum kjörum og aðrar lánsstofnanir í landinu. Með því væri ekki misrjetti skapað milli manna um lánskjör.

Þá fór hv. þm. Borgf. að hallmæla okkur, sem viljum fara aðra leið en hann í þessu máli, fyrir það, að við hefðum verið á móti því, að Búnaðarbankinn lánaði fje til smábátaútgerðar. Jeg álít, að lán til sjávarútvegs og landbúnaðar eigi að vera aðskilin. Jeg var og er sannfærður um það, að hægt er að koma upp svo stórri lánsstofnun fyrir sjávarútveginn sem með þarf. Og jeg hjelt, að hv. þm. Borgf. gæti fylgt okkur þar að málum. Við viljum á allan hátt stuðla að því, að svo geti orðið, en ekki svæfa málið með því að samþykkja það frv., sem fyrir liggur. Jeg veit, að engum er það ljósara en hv. þm. Borgf., hve útvegurinn er orðinn stór og þarf mikið í fje til umráða. Það lánsfje, sem sjóður eins og sá er frv. fjallar um, er eins og dropi í hafið, miðað við þá þörf, sem hann á að uppfylla.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á útreikninga hv. frsm. meiri hl., þegar hann var að tala um lán úr skipakaupadeild. Í því skyni ætlaðist hann til, að lánaðar væru 120 þús. kr. til kaupa á alt að 50 smávjelbátum. En hann gleymir öðru hlutverkinu, sem er að lána til iðjuvera á landi. Til þess verður ekkert fje eftir samkvæmt þessum útreikningi hans. Þetta sýnir hve mjög rök hans eru í lausu lofti.

Jeg þykist vita, að vitnað verði í álit milliþinganefndarinnar frá 1927. Það er alveg rjett, að fiskveiðabanki Norðmanna varð fyrir talsverðum áföllum á stríðsárunum. En það var ekkert einsdæmi um hann, því að þar í landi rak hvert bankahrunið annað, og þau voru öll afleiðing fjárkreppunnar í landinu eftir stríðið. Þeir atburðir ættu ekki að hræða okkur Íslendinga frá því að stofna fiskiveiðabanka. Reynsla Norðmanna hefir ekki aðra þýðingu í þessu máli, en að vara okkur við því, sem áfátt var hjá þeim í skipulaginu.

Jeg get nú að skaðlausu stytt mál mitt. 3. umr. þessa frv. er enn eftir. Vænti jeg þess, að fá enn tækifæri til að gefa hv. frsm. (SvÓ) ýmsar upplýsingar um þetta mál. Jeg þykist vita, að hann telji framgang þess öruggan og að svo muni vera, þar sem tveir stærstu flokkarnir hafa runnið saman því til stuðnings. Má telja víst, að það komist a. m. k. út úr þessari hv. deild, hvernig svo sem hv. efri deild kann að taka því. Má því með nokkrum rjetti segja, að þýðingarlítið sje fyrir mig að fara mörgum orðum um það. Jeg vildi þó eigi láta undir höfuð leggjast, að láta allan landslýð vita, hver undirstaða þessa frv. er í raun og veru, þ. e. að kippa burt sjóveðunum. Það skín í gegnum álit milli þinganefndarinnar frá 1927, hve henni er þetta atriði ákaflega viðkvæmt mál. Hún bendir þar á, að samningar geti komið í stað sjóveðs, en getur alls ekkert um, hvernig þeir samningar eigi að fara fram, og það hefir hv. frsm. meiri hl. eigi heldur gert, enda hygg jeg, að sú leið myndi oftast ókleif. Það er mitt síðasta orð í þessu máli að þessu sinni.