23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Hv. ræðumaður, sá, er síðast talaði, lauk máli sínu með því, að hann væri óánægður með frv. Mig furðar ekki á þessum ummælum, því að frv. þetta bætir á engan hátt úr lánsþörf bátaútvegsins. Hv. þm. (ÓTh) sagði, að það væri spor í áttina til umbóta. En það er rangt. Frv. breytir engu til batnaðar frá því, sem nú er. En það er spor í áttina til bölvunar. Það rýrir eða gerir að engu þá tryggingu, sem sjómenn nú hafa fyrir því að fá kaup sitt skilvíslega greitt. Það er tekið fram í till. meiri hl., að sjóveðrjettur skuli færast aftur fyrir veðrjett Fiskiveiðasjóðs. Jeg ætla, að ekki þurfi langar útskýringar á því, hvað þetta atriði þýðir. Lánin geta hrúgað á sig vöxtum og innheimtukostnaði, svo að veðrjettur sjómannanna verði blátt áfram einskis virði.

Jeg hafði í fyrstu álitið, að þessi frumvarpsómynd væri fram borin til að friða samvisku þeirra manna, sem að því standa. En við nánari íhugun get jeg varla ímyndað mjer, að samviska þeirra sje þannig innrjettuð, að þetta geti verið henni fróun. Jeg hallast því fremur að því, að tilgangurinn sje fyrst og fremst sá, að rýra tryggingar sjómanna fyrir kaupgreiðslum. Og þess þarf enginn að ganga dulinn, að verði gerð undantekning viðvíkjandi Fiskiveiðasjóði, þá koma aðrar lánsstofnanir á eftir og heimta, að sjóveðin verði einnig færð aftur fyrir þau stofnlán, sem þær veita.

Hv. 2. þm. G.-K. sagðist vilja gera einhverjar ráðstafanir til að bæta sjómönnum það tjón, sem þeir kynnu að bíða af þessum ráðstöfunum. Þetta hafa fleiri flokksmenn hans sagt, en þeir hafa bara ekki látið svo lítið, að benda á neinar slíkar ráðstafanir. Þeim hefði a. m. k. verið skylt að leggja fram greinargerð fyrir úrræðum sínum, og helst að koma fram með frumvarp um aðra tryggingu um leið og þeir stinga upp á því að rýra sjóveðin.

Jeg sagði áðan, að með þessu frv. væri á engan hátt bætt úr þörf bátaútvegsins til lánsfjár. Það er síst ofmælt. Skal jeg nú gera nánar grein fyrir þessu.

Eftir frv. myndast stofnlánadeildin fyrst og fremst af því fje, sem nú er í Fiskiveiðasjóði, en það mun vera um 700 þús. kr. Ennfremur á ríkissjóður að leggja henni 60. þús. kr. árlega fyrstu 10 árin og 30 þús. kr. á ári eftir það. Nú er fje Fiskiveiðasjóðs mestmegnis bundið í lánum og kemur ekki inn nema lítið af því árlega. Lánin úr þessari deild geta því ekki numið nema 60 þús. kr. árlega auk þess, sem innheimtist af vöxtum og afborgunum. Þetta er jafnt hámarkslánveitingu til eins manns, 25 þús. + 35 þús., samkv. frv., og sjá allir, hvað bátaútveginn dregur um annað eins.

Þá á rekstrarlánadeildin að fá til umráða ½ milj. kr. Þetta er að gera gys að bátaútvegsmönnum, hæðast að fjárþörf þeirra. Sje sú upphæð borin saman við starfsfje togarafélaganna, sem nú eru í landinu, eða þær 50–60 milj., sem Búnaðarbankinn getur fengið til umráða, þá er beinlínis hlægilegt að halda því fram, að deildin geti bætt að nokkru úr starfsfjárþörf bátaútvegsins. Önnur eins káklöggjöf getur ekki orðið til neins annars en að tefja þarflegar umbætur á þessu sviði.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig fiski- og hlunnindaskýrslur landsins fyrir árið 1927. Í þeim skýrslum eru taldir alls á landinu: 650 árabátar með 2697 mönnum, 491 vjelbátar með 2363 mönnum. Alls 1141 bátur með 5060 mönnum. — Í sömu skýrslum eru talin á landinu 185 mótorskip með 1906 mönnum alls. Flest þeirra munu vera undir 30 smál. — Hafa þá verið á landinu alls 1326 bátar og mótorskip með 6966 mönnum.

Úr lánsþörf þessara 6966 manna á svo að bæta með hálfri miljón króna. Og til aukningar og viðhalds á skipastól, sem telur á þriðja þúsund, á að verja 60–100 þús. kr. árlega! Svo fráleit tillaga getur ekki einu sinni fróað hina allra lítilþægustu samvisku. Hún sýnir greinilega, að hugur fylgir ekki máli hjá hv. stuðningsmönnum þessa frv.

Nú er rjett að athuga það verðmæti, sem þessi skipastóll færir í land. Árið 1927 nam hluti smábátaútvegsins af sjávarafla landsmanna því, sem hjer segir: Afli árabáta 6,8%, afli mótorbáta 22,4% og afli mótorskipa ca. 10,8%. Þannig hefir bátaútvegurinn lagt til um 40% af fiskafla landsmanna árið 1927. Fyrir þessum atvinnurekstri á, hvað starfsfje snertir, að sjá með sjóðkríli því, sem hjer er til umræðu. Jeg get ekki sjeð, að hv. nefnd hefði á ömurlegra hátt getað skopast að sjálfri sjer en með því að bera þetta úrræði sitt á borð fyrir Alþingi. (SvÓ: En hinar lánsstofnanirnar?) Þær eru til, og draga heldur úr þessum lánveitingum og vísa á Fiskiveiðasjóðinn. Reynslan mun sýna það.

Þetta sama ár, 1927, var andvirði sjávarafla hjer á landi upp úr skipum 30 milj. kr. 40% af þeirri upphæð eru 12 milj. Atvinnuvegi, sem framleiðir verðmæti fyrir 12 milj. kr. árlega, á nú að vísa á ½ milj. kr. rekstrarlán. Jeg hygg það síst ofmælt, að hjer sje ekki um bót að ræða, heldur afturför, því að eins og jeg tók fram, er nokkurnveginn víst, að bankarnir, sem hingað til hafa liðsint bátaútveginum að nokkru leyti, muni hliðra sjer hjá að veita lán til þess atvinnurekstrar, en vísa á Fiskiveiðasjóð.

Jeg verð því að hallast eindregið að till. hv. minni hl. um, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, og henni falið að undirbúa það fyrir næsta þing. Og eftir undirtektum hæstv. forsrh. hygg jeg, að meira skilnings sje að vænta hjá honum í þessu máli en hv. sjútvn. Eftir ummælum þeim, sem hæstv. ráðh. hefir látið falla, tel jeg óhugsandi annað, en að stjórnin myndi flytja frv., sem gengi miklu lengra en þetta.

Jeg skal eigi teygja þessar umræður lengur. Aðeins vil jeg taka það fram út af því, sem sagt hefir verið um sjóveð og áhættu lánsstofnana, að mjer virðist mönnum hætta til að gleyma því, hverjir það eru, sem mesta áhættuna bera af þessum atvinnuvegi. En það eru vitanlega sjómennirnir. Þeir hætta fyrst og fremst lífi og limum og því næst daglegu brauði sínu. Jeg sje ekki nokkra sanngirni í því að rýra það litla öryggi fyrir kaupgreiðslum, sem þessum mönnum er veitt í núgildandi löggjöf. En verði á annað borð stigið eitt spor í þá átt, er áreiðanlega skamt að bíða þess næsta. Allar lánsstofnanir, sem fje lána til skipa, myndu fljótlega heimta sjóveðin niður feld, ef Fiskiveiðasjóði væri veitt þessi sjerstaða.