23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (2653)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Það er rjett, að við, sem stöndum að áliti meiri hl., höfum ekki fullyrt, að frv. bætti úr allri vöntun lánsfjár til bátakaupa, enda fær tilraun okkar til framhalds á stækkun Fiskiveiðasjóðs heldur harðan dóm hjá ýmsum hv. þm.

Jeg skal ekki lasta þann stórhug, sem kemur fram í ræðum hv. frsm. minni hl. (SÁÓ) og hv. þm. Ísaf. (HG), þegar þeir ætla að gera alt til fullnustu í einu hendingskasti. En þó að jeg beri tilhlýðilega virðingu fyrir þessum afkastamönnum, vil jeg andmæla þeim digurbarkalegu ummælum hv. þm. Ísaf. (HG), að engin umbót felist í till. nefndarinnar. Þessi hv. þm. endurtók sömu vitleysuna sem hv. 4. þm. Reykv. hjelt fram, að stofnlánadeildin hefði ekki nema 60 þús. kr. árlega í handbæru fje. Hv. 4. þm. Reykv. sagði fyrst, að þessi upphæði væri hæfilegt lán handa tveim mönnum. En nú bætir hv. þm. Ísaf. gráu ofan á svart, og segir, að hún sje ekki nema handa einum lánbeiðanda.

Þessir hv. þm. hafa enga þekkingu á Fiskiveiðasjóðnum, og þessar fullyrðingar þeirra grundvallast einungis á þekkingarleysi þeirra. Þeir láta sig heldur ekki muna um það, að segja umráðafje sjóðsins helmingi minna en það yrði eftir till. meiri hl. Fjeð er nú 60–80 þús. kr. eftir því sem dregst inn af skuldabrjefum Hafnarsjóðs Reykjavíkur, og ef 60 þús. kr. er bætt við þá upphæð, ætti jafn þjálfaður bankamaður og hv. þm. Ísaf. að geta komið því saman, hve umráðafje sjóðsins yrði mikið eftir till. meiri hl. Undanfarið hefir sjóðurinn lánað meðal annars út á 20–30 smál. mótorbáta, og hafa lánsupphæðir sjóðsins numið 10–12 þús. kr. til hvers einstaks lántakanda. Þótt lánað yrði 15 þús. kr. út á hvern bát, mundi það fje, er meiri hl. ætlast til að sjóðurinn hafi til lána, endast til fleiri lánveitinga en þessir þm. vilja vera láta.

Það sem þessum tveim hv. þm. og fleirum úr þeirra hópi virðist vera kappsmál er það, að gera sem minst úr till. nefndarinnar. Þó hefir n. lýst yfir því, að sjóðurinn yrði miklu smáskornari en nefndin hefði óskað, en hv. andmælendur vilja gera úr sjóðnum enn smáskornari stofnun en hann yrði eftir till. meiri hl.

Þá kom hv. þm. Ísaf. með þá einkennilegu kenningu, að ef þetta frv. yrði samþ., mundu lánsstofnanir þær, sem nú lána til bátaútvegsins, kippa að sjer hendinni og vísa til Fiskiveiðasjóðs. — Fiskiveiðasjóður var í upphafi stofnaður sem dálítil hjálparstoð fyrir bátaútveginn, en ekki sem útvegsbanki, og geta þeir sannfærst um þetta, sem vilja lesa stofnskrá sjóðsins.

Hjer er ekki verið að gera neina tilraun til annars. Við, sem heldur viljum efla sjóðinn, höfum sagt, að við værum að reyna að bæta hann dálítið, en við höfum hvergi sagt, að verið væri að gera úr honum fullnægjandi stofnun fyrir bátaútveginn. Sem betur fer á bátaútvegurinn aðstoð víðar en hjá Fiskiveiðasjóði. Ýmist hafa bankarnir lánað beint, eða fyrir milligöngu kaupmanna og kaupfjelaga, fje til rekstrar á bátunum, en þeir lána nú yfirleitt ekki fje til þess að kaupa mótorbáta. Þetta mundi að sjálfsögðu haldast óbreytt, þótt Fiskiveiðasjóður yrði efldur, en sjóðnum væri þá ljettara um að fullnægja að einhverju leyti höfuðmarkmiði sínu, að styðja menn til þess að eignast báta og þau áhöld, er þeir þurfa.

Jeg varð var við þá skoðun hjá hv. þm. Ísaf. (HG) og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), að þeir voru svo ósanngjarnir, að bera meiri hl. n. það á brýn, að hann væri að gera sjer leik að því, að hafa af sjómönnum þann rjett, er sjóveðslögin veita þeim. Slíkur hugsunarháttur er engum sæmandi öðrum en þeim tveim hv. þm. Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) lýsti yfir því, að hann hefði skrifað undir nál. meiri hl. í fyrra, vegna þess að hann þóttist viss um, að þetta næði ekki fram að ganga. — Slíkir menn hafa eðlilega tilhneigingu til þess að sjá lævísi í annara gerðum.

N. þorði ekki að hafa kröfur sínar til þingsins frekari að svo komnu máli. En ef hv. þm. Ísaf. (HG) vill koma með brtt. um að efla sjóðinn meira, þá hefi jeg að minsta kosti ekki svo bundnar hendur, að jeg gæti ekki greitt atkv. með þeim kröfum. — Þessir tveir hv. þm., sem hafa kastað hnútum til þeirra, sem eitthvað vilja reyna að gera, hafa vissulega ekki rjett til þess að fyrirdæma alt hjá öðrum, nema þeir kæmu með einhverjar þær till., er betri væru og þingið fengist til að ganga að. Meiri hl. hefir margsinnis lýst yfir því, að við flytjum ekki þessar till. til þess að koma í veg fyrir það, að okkur hugmeiri og vitrari menn geti gert betri till. um breytingu á Fiskiveiðasjóðnum. Við höfum heldur ekki lagt þetta til, til þess að hindra, að stj. gæti komið. fram fullkomnari lánsstofnun handa sjávarútveginum, eins og hún hefir látið í veðri vaka. — Það er ekkert því til fyrirstöðu, þó að þetta frv. verði samþykt, að stj. beri fram frv. á næsta þingi um fullkominn sjávarútvegsbanka, þrátt fyrir þetta. En ef það skyldi nú dragast úr hömlu, sem mjer finst nú ekki óhugsandi, að þessi stofnun kæmi á næsta þingi, sje jeg ekki að neinn skaði sje gerður með því að efla Fiskiveiðasjóðinn. Það sjer víst enginn nema hv. þm. Ísaf., að það sje til tjóns, að sjóðnum er gert helmingi hægara fyrir að veita stofnlán og að honum er veitt milj. kr. til rekstrarlána. Jeg fyrir mitt leyti get ekki litið þeim augum á hlutina, að jeg geti fallist á það, að hjer sje um enga bót að ræða, en það leyfði hv. þm. Ísaf. sjer að segja. Hann álítur kannske, að milj. í einu lagi og 60 þús. kr. í tíu ár geri engan mun.

Hv. 4. þm. Reykv. sagðist vera svo bjartsýnn, að hann tryði hæstv. atvmrh. til þess að koma á fullkominni lánsstofnun fyrir sjávarútveginn. — Jeg hefi enga tilhneigingu til þess að rengja yfirlýsingu hæstv. ráðh., en jeg er ekki eins svartsýnn og hv. þm. á það, að ekki megi efla Fiskiveiðasjóð, af ótta við, að það verði til tjóns, því að það kalla jeg svartsýni. Hv. þm. lýsti einnig yfir því í fyrri ræðu sinni, að hann vildi heldur bíða í von um þetta stærra skref. — Við meiri hl. menn vonumst líka eftir stærra skrefi, og við þurfum engan kinnroða að bera, þótt við leikum okkur ekki að því að bera fram till., sem við vitum, að þingið muni ekki samþykkja. Og hjer kemur skoðanamunurinn í ljós. Minni hl. er ánægður með að gera háar kröfur, hvernig sem undirtektirnar verða, en meiri hl. hefir valið þá leið, að feta sig áfram smátt og smátt, en halda um leið öllum leiðum opnum til frekari bóta.

Það er ekki meining meiri hl., að hjer sje um fullkomna lánsstofnun að ræða fyrir bátaútveginn. Það er óþarft að leggja okkur þau orð í munn, því að við höfum marglýst yfir þessu, bæði munnlega og skriflega, að hjer er aðeins um það að ræða, að efla sjóðinn og byrja á vísi til rekstrarlána úr sama sjóði.

Það er því alveg ósæmandi hv. þm. Ísaf. að halda því fram fyrir okkar hönd, að hjer sje um fullkomna lánsstofnun að ræða, og aðrar lánsstofnanir muni þá draga að sjer höndina. Jeg veit ekki hvaða hugsanagang hv. þm. ætlar bankastjórunum að hafa, en mín reynsla af kynningu við þá er sú, að þeir mundu ekki nota fyrsta tækifæri, sem byðist, til þess að reka af höndum sjer viðskiftamenn bankanna, þá sem bátaútveg stunda.

Það umstrídda í þessu máli er sjóveðsákvæðið. Þessir hv. þm. þykjast hafa einkarjett á því, að bera hag sjómannanna fyrir brjósti, en það er óþarft að gera till. meiri hl. n. lítil fjörlegri en þær eru fyrir því. Það er vitanlegt af því sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það sem aðallega er haft á móti eru sjóveðsákvæðin. Þær eignir, sem hjer um ræðir, eru ekki veðhæfar eins og er, og þarf ekki annað en benda á skýrslu Fiskifjelagsins og tillögur milliþingan. þessu til sönnunar. Lánsstofnanirnar komust að raun um þetta og kiptu að sjer hendinni með| lán út á skipin eingöngu. Jeg vil enn leggja áherslu á það, að hjer er aðeins um Fiskiveiðasjóðslán að ræða, og vísa algerlega þeim blekkingum jafnaðarmanna á bug, að hjer sje farið fram á, að sjóveðsákvæðin alment verði lögð niður.

Það er mikil trygging í því fyrir sjómenn, að sjóveðsákvæðin sjeu í gildi, en það er ekki nema ein hliðin. — Það hefir komið fyrir, að þetta ákvæði hittir aðra fyrir en það átti að hitta. — Sumir „spekúlantar“ hafa tekið bát á leigu og safnað að sjer sjómönnum, sem aldrei hefðu farið til þeirra, ef ekki fyrir sjóveðsákvæðin. — Hefir þá stundum farið svo, að bátseigandinn hefir orðið að kaupa sitt eigið skip laust aftur, vegna sjóveðsákvæðisins. En eins og menn vita, eru það ekki altaf auðugir menn, sem eiga þessa vjelbáta, og mega því illa við slíku höggi.

Þessi ákvæði gera það að verkum, að sjómenn þurfa ekki að vera krítískir á það, hjá hverjum þeir ráða sig, og ráða sig jafnvel til óreiðumanna, sem þeir hafa enga trú á. Þetta er skuggahliðin á sjóveðsákvæðinu.

Hinsvegar vil jeg taka það fram, að það er þörf á slíkri tryggingu á ýmsum sviðum, og jeg er reiðubúinn að taka höndum saman við hvern sem er, til þess að tryggja mönnum á sjó og landi, að þeir geti átt kaup sitt víst undir öllum venjulegum kringum- stæðum. — En þegar um er að ræða menn, sem ekkert hafa að byggja á annað en dugnað sinn, og fá því enga áheyrn hjá Fiskiveiðasjóði um lán vegna ákvæðanna um sjóveðin, virðist mjer rjett að fella niður sjóveðsákvæðin til þess að gera þeim kleift að koma þessum fyrirtækjum af stað.

Á hinn bóginn verður það ekki álitið annað en holt, að verkamenn hafi það yfirleitt fyrir augum, er þeir ráða sig, hvernig horfur fyrirtækisins eru og hvaða líkur atvinnurekandi hefir til þess að standa straum af kostnaðinum.

Jeg held því, að hv. 4. þm. Reykv. ætti að ráðfæra sig betur við þann vitra mann, sem hann kvaðst hafa átt tal við, og sem áleit hægt að finna aðra leið en þessa, til að fá góða úrlausn þessa máls. Það þarf að finna ráð er tryggi skilvísa greiðslu verkalaunanna á annan hátt en þann, að gera skipin óveðhæf. Það þarf að leysa þetta tvent: að gera skipin veðhæf og tryggja sjómönnum kaup sitt. — En þegar síðara atriðinu á að ná á kostnað hins fyrra, þá tel jeg að meira beri að meta, að gera skipin veðhæf í Fiskiveiðasjóðnum, sem annars yrði lokaður fyrir öllum efnaminni mönnum, sem ekki hafa annað veð að láta en skipin. Jeg vil heldur, að framþróun þessa atvinnuvegar og framtaki einstaklinganna sje gefið svigrúm til hæfilegra framkvæmda, heldur en að þetta sjóveðsákvæði standi óbreytt.

Hv. andmælendur þessa frv. og brtt. meiri hl. sjútvn., eru allir jafnaðarmenn. — Fyrir utan þennan höfuðagnúa, er þeir telja á málinu og jeg hefi nú um rætt, þá hafa þeir og gert alt of lítið úr umbótaákvæðum frv. Og jeg verð að segja það, að mjer virðist aðstaða hv. jafnaðarmanna alleinkennileg í þessu máli. Þeir neituðu um daginn smábændum þeim, sem útgerð stunda samhliða sveitabúskap, um það, að verða aðnjótandi þeirra lána, sem tengd eru við Búnaðarbankafrv. Þessum umbótum, sem hjer er rætt um, eru þeir líka mótfallnir. — Þeir vilja slá öllum umbótum á frest. Þeir vilja ekkert hjálpa smærri útgerðarmönnum. Jeg öfunda þá sannarlega ekki af þessari afstöðu sinni.

Þá var enn eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem rjett er að minnast á. Hv. þm. þóttist hafa átt tal við einhvern málsmetandi mann, sem hefði sagt, að ekkert vit væri í því að miða lánin við ákveðna stærð skipa. — En það sem rjeði því, að þessi stærð var ákveðin var það, að ekki var hægt, með ekki stærri lánsstofnun, að hjálpa öllum. Takmarkalínu varð því að draga, og þótti rjett að miða við 50 smál. Fordæmi var og fyrir þessu. Í Noregi er fiskiveiðabanki (Den norske Stats Fiskeribank), sem lánar eigi út á stærri skip en 50 smál. Sá banki byrjaði starf sitt með 5 milj. kr. höfuðstól, og þó þótti þar rjett að lána eigi út á stærri skip en þetta, enda eru lánin ætluð mótorskipum, sem sjaldan fara yfir þessa stærð. — í ákvæðum laganna um norska bankann er tekinn vari á því, að ekki hlaðist önnur sjóveð á bátana en þau, sem vátryggingarfjelögum er skylt að greiða. Hlaðist slík veð á skipin, sjóveð eða annað, eru lánin þegar fallin í gjalddaga. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að sjóveðin rýrðu ekki öryggi lánanna út á skipin. Hv. þm. getur nú rætt það atriði við bankastjórana, sem lánin eiga að veita. Þeir munu segja annað. Og í fiskibankalögunum norsku, 44. gr., er bankanum áskilinn rjettur til að segja upp skipaláni, ef sjóveð, sem ábyrgðarfjelögum er ekki skylt að greiða, fellur á skipið. Ólíklegt er, að það ákvæði sje þar sett alveg út í bláinn. Jeg get sagt það sama og aðrir hv. þm. hafa sagt, að jeg get verið þakklátur ríkisstjórninni, ef hún vill undirbúa fyrir næsta þing lánsstofnun, sem fullkomnari er en þetta. Þetta frv., þó samþ. verði, þarf á engan hátt að standa fyrir því máli. Og jeg get fullyrt það fyrir hönd meiri hl. sjútvn., að hún með þessari úrlausn hefir á engan hátt tekið endanlega afstöðu gagnvart fiskibankafyrirkomulaginu í framtíðinni. En á meðan sú niðurstaða er ekki fengin, er miklu betra en ekki neitt að efla fiskiveiðasjóðinn nú svo sem hægt er og hjer er bent til. Ætti það, eins og jeg hefi áður sagt, aldrei að skaða endanlega úrlausn þessa máls.