23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg tel rjett að svara strax þeim ræðumanni, er nú settist niður, með fáum orðum. Hann sagði, að við jafnaðarmenn hefðum barist á móti allri viðleitni í þessa átt hjer í þessari hv. deild. Jeg veit ekki, hvernig hv. þm. fer að finna þeim orðum sínum stað. Jeg veit ekki betur en við sjeum að berjast fyrir fullkomnara skipulagi og virkilegum framförum í þessu máli, en móti öllu káki. Mig undrar, að hv. þm., sem er fulltrúi fyrir sjávarútvegskjördæmi, skuli geta verið því fylgjandi, að svo sje frá gengið, að ekki komi að gagni. Því hv. þm. sjer, og enda viðurkennir, að þessar till. eru gagnslausar með öllu. Mig undrar, að hv. þm. skuli ekki vera stórlátari fyrir hönd kjördæmis síns en svo, að hann skuli ljá því eyra. Og mig undrar, að þessi sami hv. þm. skuli vera á þing kominn fyrir atbeina fiskimanna á Akranesi. — Hv. flm. sjálfum er það ljóst, að það verða ekki stigin stór skref á næstu þingum, ef þessar till. ná fram að ganga nú. En við jafnaðarmenn munum hvorki blikna nje blána fyrir framkomu okkar í þessu máli. Við höfum sýnt, að; við erum ekki síður hollir stjett þeirri, er á sjávarútvegi lifir, en hv. þm. Borgf. — Frekar skal jeg ekki svara honum.

Þá kem jeg að hv. frsm. meiri hl. Þykir mjer ilt, að hann skuli ekki vera viðstaddur, en svo mörgu fáránlegu hjelt hann fram, að ekki verður fram hjá gengið.