07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er nú orðið svo langt síðan í þetta frv. var hjer á dagskrá, að það í er farið að fyrnast yfir þær umr., sem þá fóru fram, svo að jeg er nú vísast búinn að gleyma því, sem jeg vildi sagt hafa. En jeg hefi þó nokkra í punkta, sem jeg skrifaði upp þá, og sje, að jeg á ósvarað hv. þm. Vestm. í um nokkur atriði. Jeg sje, að hv. þm. hefir lagt mikið upp úr því, að milliþinganefndin 1927 taldi sig sjá marga galla á Fiskiveiðasjóðnum. Það er nú rjett. Hún sá marga galla á honum. En hún gerði lítið til þess að bæta úr í þeim. Þetta sjest líka á frv. því, er þeir sendu frá sjer, og að þeir voru sjer þess meðvitandi. Þeir segja — með leyfi hæstv. fors.:

„Þær breytingar, sem frv. gerir á Fiskiveiðasjóðslögunum eru:

1. Hækkun á tillagi ríkissjóðs næstu 5 árin.

2. Ákvæði um það, að lána megi til útgerðar, í stað þess, að nú eru lánin bundin við skipakaup og veiðarfærakaup.

3. Ákvæði um það, að veðrjettur Fiskiveiðasjóðs gangi fyrir öllum tryggingum í skipinu, þar á meðal fyrir sjóveðrjetti samkvæmt 11. kafla siglingarlaganna.“

Þetta eru í höfuðatriðum þær breytingar, sem milliþinganefndin gerði. Og svo segir í grg., að þessum sjóði sjeu ætluð ný hlutverk. Þar stendur, með leyfi hæstv. fors.:

„Það virðist rjett, að lánin yrðu yfirleitt fyrst og fremst notuð til viðgerða á bátum og bátavjelum og til veiðarfærakaupa, svo og til bygginga lifrarbræðslustöðva, beinamjöls- og fiskúrgangsstöðva, fiskgeymslu- og fiskverkunarhúsa, íshúsa og kælihúsa, bryggjugerða og dráttarbrauta o. s. frv., en að til kaupa á nýjum bátum yrðu þau ekki veitt, nema að svo miklu leyti, sem fjeð þyrfti ekki alt til þess, sem nú var sagt.“

Af þessu er það auðsjeð, að milliþinganefndin hefir sjeð, að fje Fiskiveiðasjóðsins mundi hrökkva skamt, og þess vegna hefir hún alveg gengið fram hjá því að leggja til, að fje verði veitt úr honum til skipakaupa. Enda er það svo, að þótt ekki sje um önnur verkefni að ræða en þau, sem milliþinganefndin bendir til, þá eru þau svo stór, að ærið fje þarf til. Jeg hygg nú, að milliþinganefndin hafi haft í huga stofnun á borð við það, sem Ræktunarsjóðurinn var þá, en þá var hann vitanlega miklu smávaxnari en sú miljónastofnun, sem Búnaðarbankinn er nú orðinn. Ef milliþinganefndin sæti að störfum nú, þá hefði hún annað og stærra við að miða till. sínar en hún hafði 1927, og því er líklegt, að till. hennar myndu verða alt aðrar nú, hún mundi verða miklu stórtækari í till. sínum.

Jeg var áður búinn að ræða um till. meiri hl. hv. þm. Vestm. sagði, að þær gætu orðið að gagni. Jeg neita því heldur ekki, að þær kunni að koma að einhverju liði. En það gagn verður þó hverfandi lítið. Mikill meiri hl. þeirra manna, sem þurfa að fá lán, munu ekkert geta fengið. Hinir njóta að vísu góðs af þessu, sem lánin fá, en þeir verða fáir, og með þessu verður skapað misrjetti milli þeirra manna, sem lánin fá, og hinna, sem ekkert geta fengið.

Hv. þm. sagði, að við þetta mætti sætta sig, þar til stjórn og þing hefðu undirbúið og samþ. annað fullkomnara fyrirkomulag. En jeg hefi nú einmitt deilt á hv. meiri hl. n. fyrir það, að hann hefir ekki viljað skora á stjórnina að undirbúa fullkomna lánsstofnun. Og þegar litið er til þess, hvað hv. meiri hl. gerir litlar kröfur fyrir þessa stofnun, þá er varla annað hægt en að efast um áhuga hans fyrir því, að efla þennan sjóð. Og fari svo stjórnin eftir kröfum meiri hl., þá mun hún geta komist hjá því, að undirbúa og gera till. um stórfeldar umbætur á þessari lánsstofnun. Eftir undirtektum hæstv. stjórnar, mætti gera ráð fyrir, að hún væri fús til að undirbúa þetta mál myndarlega, ef hv. deild sýndi vilja sinn í þá átt. Nú eru í rauninni engar líkur til þess orðnar, að frv. þetta nái fram að ganga, þótt till. hv. meiri hl. verði samþ. hjer. Vona jeg því, að hæstv. stjórn búi stærri lánsstofnun í frumvarpsformi undir næsta þing, þrátt fyrir slælega framgöngu hv. meiri hl. í málinu.

Milliþinganefndin sá hættuna fyrir sjómenn af því, að sjóveðrjetturinn væri lagður niður, en hún stóð ráðþrota um það, hvernig úr því væri hægt að bæta. Hv. þm. Vestm. sagði, að hásetar yrðu að gera gangskör að því að athuga, hvort lán úr Fiskiveiðasjóði hvíldi á skipinu, áður en þeir rjeðust á það, og tryggja sig fyrir því, að þeir fengju kaup sitt. En á greiðfæra leið benti hann ekki. Jeg hefi nú bent á það áður, að 180 þús. kr. hafa verið innheimtar hjá einum lögfræðingi á 3 árum, með því að ganga að sjóveði í skipunum, en sem ella myndu hafa tapast. Þetta hefir skifst niður á 143 menn, svo það má sjá minna grand í mat sínum en það, ef þessir menn, sem yfirleitt hafa verið fátækir sjómenn, hefðu tapað þessari upphæð, sem þeir hefðu eflaust gert, ef lög um sjóveð hefðu ekki gilt. Í útgerðarfyrirtæki ráðast stundum menn, sem ekki standa í skilum, eða geta ekki staðið í skilum. Sjómennirnir, sem til þeirra ráðast, eiga þá jafnan á hættu að fá ekkert, ef þessi rjettur er af þeim tekinn. Þetta gildir ekki síður um mótorbáta en stærri skip, því vanskil um kaup munu vera tíðari á smáu bátunum, einkum mótorskipum, þó þess sjeu dæmi, að það hafi einnig hent á hinum stærri.

Þessa hættu virðist hv. meiri hl. ekki hafa sjeð, en milliþinganefndin 1927 sá hana, því hún segir, — með leyfi hæstv. fors.:

„Auðvitað gerir þetta skipshöfn ótryggara að ná kaupi sínu hjá útgerðarmanni, ef hann lendir í fjárhagskröggum, en skipshöfnin verður þá að tryggja sig á annan hátt, ef Fiskiveiðasjóðsveð hvílir á skipinu, þegar hún ræðst á það.“

Milliþinganefndin sjer því hættuna, ef sjóveðinu er slept, en stendur ráðþrota um það, hvernig sjómenn eigi að tryggja sig. Um þá er ekki verið að hugsa.

Hv. þm. Vestm. sagði, að skipshöfnin þyrfti að ganga úr skugga um það, áður en hún rjeðist á skipin, hvort forgangslán hvíldi á skipinu. En menn hugsa ekki um það, þegar ráðning á sjer stað. Menn hugsa meira um það, að ráðast hjá aflaformanni, eða hreint og beint að tryggja sjer einhversstaðar skiprúm, til þess að geta náð sjer í einhverja atvinnu, og ráðning er oft fljótlega gerð, en almenningur hefir lítil tök á að fylgjast með því, hvort veð er á skipunum eða eigi, og því síður að kynna sjer fjárhagsástæður útgerðarmannsins. Menn ranka þá fyrst við sjer, þegar ógæfan er skollin á. Menn athuga það sem sagt ekki fyrirfram, hvort kaupið er trygt eða ekki. Þetta hafa líka aðrar þjóðir sjeð, og því hefir þar sem hjer þótt nauðsynlegt að tryggja mönnum kaup sitt, án þess að þeir þurfi að framkvæma rannsókn um það í hvert skifti, hvort óhætt er að ráða sig á skipið eða eigi. Ennfremur gæti þetta haft aðra þýðingu. Þegar mannekla er, þá mundu menn meira, að öðru jöfnu, sneiða fram hjá þessum skipum, sem sjóveðrjetturinn ekki fylgir, meðan hann er ekki afnuminn af öllum skipum. Gæti slíkt komið sjer illa fyrir þá menn, sem fyrir því yrðu, er þannig stæði á. Einnig gæti þetta líka orðið til þess, að efnalitlum útgerðarmönnum veittist erfitt að fá menn á skip sín. Þegar skipin væru veðsett Fiskiveiðasjóði, mundu þessir útgerðarmenn venjulega enga tryggingu hafa að gefa fyrir skilvísri kaupgreiðslu. Gæti því afleiðing kenninga hv. meiri hl. orðið sú, að fátækari menn fengju enga háseta á skip sín, vegna þess að þeir hafa enga tryggingu að láta.

Þá sagði hv. þm., að verslanir mundu lána mönnum til útgerðar eins og þær hafa gert, þótt þeir gætu ekki fengið lán úr sjóðnum. Jeg get vel skilið hv. þm. í sambandi við stefnu hans í þessu máli. Honum mun ekki mikið keppikefli, að lánsstofnun, sem allir útvegsmenn geti flúið til, komist upp. Hann mun ekkert hafa á móti því, að gamla sleifarlagið haldist að miklu leyti óbreytt. Mjer er sagt, að hann og aðrir kaupmenn í hans kjördæmi geri mikið að því, að hjálpa sjómönnum til útgerðar og í viðskiftum, eins og þeir munu orða það, lána salt, veiðarfæri og annað til útvegsins, gegn því, að hafa svo 1. kröfu til aflans með því verði, sem þeim þykir fært að gefa fyrir hann. Jeg get vel skilið, að hv. þm. vilji, að þessi verslun standi áfram, og sjest þá út frá hvaða forsendum hv. þm. getur fylgt þessum tillögum. — En jeg er á annari skoðun í þessu efni. Allir, sem hafa kynt sjer þetta fyrirkomulag, álíta, að smábátaútvegurinn eigi að losna við þessa einokunarverslun kaupmannanna, og ástæðurnar verði að breytast þannig, að fiskimenn og smærri útvegsmenn þurfi ekki á þeim að halda, því þeir eru bæði óþarfur og skaðlegur milliliður.

Þessar tillögur, sem fyrir liggja, bæta ekki nema að örlitlu leyti úr lánsfjárþörf bátaútvegsins. Og það er þegar öllum vitanlegt, hversu mikil hún er víðsvegar um land. Jeg verð að segja það, að þeir útvegsmenn eru nægjusamir, sem þessum tillögum fylgja, enda er það ekki af umhyggju fyrir almenningi, að þeir gera það. Það er ekki aðeins, að menn þurfi á lánsfje að halda vegna útgerðartækjanna, skipanna og veiðarfæranna, heldur einnig til þess að verka fiskiafurðir sínar og koma þeim í verð. Þetta kostar mikla peninga, meðan framleiðslan er ekki seld, það er öllum ljóst; og þó eru fylgismenn frv. svo barnalega bjartsýnir, að þeir álíta, að þessi lítilfjörlegi stuðningur, sem heitið er með þessu frv., hafi mikla þýðingu fyrir fiskiveiðarnar.

Fiskiveiðasjóðurinn er nú um 700 þús. kr., og er að mestu bundinn í útlánuni til langs tíma, aðeins örlítill hluti þess fjár mun vera bundinn í skipum. Það hefir mjög lítið bólað á því, að Fiskiveiðasjóðurinn hafi tapað á lánum. Það mun aðeins vera kunnugt um eitt eða tvö dæmi þess, að sjóðurinn hafi tapað láni. Hitt má segja með fullum rjetti, að sjóðurinn hafi lítið lánað til skipakaupa. En það, sem hann hefir lánað út í því skyni, hefir reynst mjög áhættulítið, að undanskildu þessum áðurnefndu tilfellum, og hafa þó sjóveðin verið óskert í sambandi við þau lán. Jeg hygg, að það sje hin mesta grýla hjá meiri hl. n., að ómögulegt sje að lána til skipa, vegna áhættunnar, og með öllu ástæðulaus.

Að bjóða bátaútvegsmönnum þá úrlausn, sem felst í þessum tillögum, er að láta þá hafa steina fyrir brauð. Og um leið eru hinar vinnandi stjettir sviftar þeim möguleika um ófyrirsjáanlegan tíma, að fá fullkomnari lánstofnun fyrir þennan atvinnuveg en nú er völ á. (JJós: Vill þingmaðurinn ekki nefna einhverja lánsstofnun, sem lánar nú til rekstrar mótorbáta? Slík lán fást hvergi). Það hefir verið bent á, að bankarnir hafi lánað til mótorbátaútvegsins undanfarin ár í gegnum kaupmenn og stærri útvegsmenn, sem þeir svo af náð sinni hafa lánað út aftur til hinna, sem minna lánstraust hafa haft. Munu það vera allálitlegar upphæðir, og þó að nú sje tekið fyrir það að einhverju eða miklu leyti, sem virðist hafa verið þörf á, þá bæta þessar tillögur ekkert úr þeirri lánsþörf, sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja þessum atvinnurekstri. Skal jeg svo láta málið útrætt að þessu sinni.