10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal geta þess um brtt. á þskj. 585, að þær hafa ekki legið fyrir sjútvn., og verður því það, sem jeg segi um þær fyrir minn eigin reikning sagt, en ekki n., því hún hefir aldrei tekið ákvörðun um þær.

Fyrsta brtt. lýtur að því, að nema í burtu hámarksákvæði um stærð keyptra skipa, og leiðir hún til þess, ef samþykt verður, að þenja verksvið sjóðsins út yfir alla útgerðina og gera hann með því gagnslausan. Með samþykt hennar mundi líka verða fullkomið ósamræmi við 1. gr., sem miðar starf sjóðsins við bátaútveg eingöngu. Till. þessi er því aðeins fleygur til skemdar málinu.

Þá er 2. brtt., um að bæta aftan við b-lið 4. gr. orðunum: „íshúsa og kælihúsa“. Hv. flm. þessarar brtt. (SÁÓ) tók fram, að nauðsynlegt væri að ætla þessum stofnunum lán, og taldi að þær gætu ekki komist að eftir frv. Jeg lít nú hinsvegar svo á, að þetta sje alls ekki útilokað eftir frv. eins og það er nú. Þó að jeg hafi ekkert á móti till. efnislega, þá sje jeg enga ástæðu til að samþ. hana, með því að þessar stofnanir geta að sjálfsögðu komið og koma til greina eftir frv. eins og það nú er.

Þá er 3. brtt. um að fella niður ákvæði 6. gr. um forgangsrjett skipaveðs í sjóðnum fyrir sjóveðsrjetti. Hv. þm. (SAÓ) heldur því fram, að ef þetta sje ekki felt niður, þá muni sjóveðrjetturinn glatast þeim, sem eiga hann að lögum. Um þetta atriði var rætt við 2. umr. og var þá tekið rjettilega fram og sýnt, að sjóveð glatast ekki þess vegna, heldur verður það aðeins að víkja aftur fyrir veð Fiskiveiðasjóðs í þeim skipum, sem lánað hefir verið út á úr honum. — Það er líka bert, að ef þessi brtt. verður samþ., þá verður b-liður greinarinnar ónothæfur með öllu og frv. óframbærilegt.

Jeg vil ekki fara frekar inn á þessa deilu um sjóveðrjettinn alment. En mjer þótti nokkuð djúpt tekið í árinni með því, að drótta því að meiri hl. sjútvn., að vjer vildum eyðileggja sjóveðrjettinn yfirleitt og stefndum að því. Slíkt er auðvitað hreinasta fjarstæða og lúaleg getsök. Sjóveðrjetturinn á að víkja fyrir þeirri þörf, sem brýnni er en sjóveðrjetturinn er oftast, og þó aðeins þegar svo stendur á, að skipakaupaveð við Fiskiveiðasjóð hvílir á skipi, og þau geta þó aðeins tekið til helmings af virðingarverði skips. Auk þess verður það að muna, að á smærri skipum eru menn oftlega ráðnir gegn hlut, og kemur þá ekki til þess, að nota þurfi sjóveð, kaupgjalds vegna.