10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

2665Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir nú lagt á móti brtt. mínum.

Fyrstu brtt. mótmælti hann á þeim grundvelli, að með henni væri verið að opna gátt fyrir stærri skipum. Mjer finst hinsvegar, að með þessu lýsi hann vantrausti á stjórn sjóðsins, enda er alls ekki svo mikið fje í sjóðnum, að hann geti lánað út á allar tegundir og stærðir skipa. En frv. veitir heimild til alt að 50 smál. stærð, sem er mjög vafasamt, hvort rjett er að binda við. Það verður að vera undir áliti sjóðstjórnar á hverjum tíma og þeirra, sem lánanna óska, hvaða tegund skipa nota á.

Þá segir hv. þm., að eftir 4. gr. frv. sje heimilt að lána til kælihúsa, en svo er alls ekki. Það er skýrt tekið fram í frv., hvaða greinir skuli styrkja, og kælihús alls ekki tekin með, en þörfin fyrir þau ætti að vera öllum ljós.

Þá kom hv. þm. að síðustu brtt. minni og rifjaði upp gamlar umr. um það mál. Nú er að því að gæta, að það á að setja reglugerð samkv. þessum lögum, og má þá taka þetta atriði með.

Hv. þm. telur, að sjómönnum sje engin hætta búin af þessu og talar um, að jeg drótti því að sjer, að hann vilji eyðileggja sjóveðrjettinn. Hið fyrra, að sjómönnum sje engin hætta búin, er vitanlega fjarstæða, og um hið síðara er það að segja, að jeg tel, að hjer sje verið að opna leið í þá átt, að eyðileggja sjóveðrjettinn, því að ef byrjað er á þessu með Fiskiveiðasjóðinn, þá er löggjöfin að gefa bendingu um, að sjóveð sje ónauðsynlegt. Jeg er viss um, að ef þetta spor er stigið nú, þá koma fram kröfur um hið sama á fleiri sviðum.

Hv. þm. segir, að á þessum smærri skipum sjeu flestir hásetar ráðnir upp á hlut. Þetta fer auðvitað eftir gengi fiskiveiðanna. Þegar útlitið er gott í byrjun vertíðar, þá vilja útgerðarmenn ekki ráða menn upp á hlut, heldur greiða kaup. Jeg skal benda á mjög stórt fiskiver hjer á landi, þar sem ganga um 100 vjelbátar og eru flestallir þar ráðnir upp á kaup, að minsta kosti þeir, sem eru aðkomumenn í plássinu. Og jafnvel þótt hlutaskifti sjeu, er oft full nauðsyn á sjóveði. Það hefir oft verið farið þannig með hlutinn, að hásetar hafa enga tryggingu haft í öðru en sjóveði. Þetta hefi jeg áður tekið skýrt fram, og jeg verð að segja það um hv. 1. þm. S.-M., að jeg gruna hann hjer meira um græsku en um skilningsleysi. Hann veit vel, hvað hann er að fara, þótt hann með þessari stefnu sinni sýni sjómannastjettinni opinberan fjandskap, og betur hefði hann getað varið sínum síðustu árum en hann nú gerir, með því að hrista af sjer íhaldsblinduna, sem virðist hertaka hann með hverju árinu sem líður.