11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Ingvar Pálmason:

Þótt þetta frv. fari til nefndar, tel jeg rjett að fara um það nokkrum orðum, aðallega sökum ummæla hv. 4. landsk. Hann vildi benda nefndinni á það, að athugandi væri, að ekki væri rjett að afnema sjóveð á smærri fleytum. Með þessu frv. er verið að reyna að ljetta undir með smærri útveg og tryggja það, að stærri útvegur beri hann ekki ofurliði, en kaupgreiðslur verða auðvitað samningsatriði meðal hlutaðeigenda. Það er alveg rjett hjá hv. 4. landsk., að sjómenn hafa notað sjóveðsrjett sinn oft og einatt til þess að fá kaup sitt goldið, en það sannar ekki, að þess vegna þurfi ekki að afnema það, en kaup þeirra á að vera hluti af afla, og ef hægt er, á að tryggja það með öðru. Hinsvegar sjá það allir menn, að það er einn af megingöllunum og aðalorsök þess, hve erfitt smábátaútvegur á uppdráttar, að þessi veðrjettur skuli hvíla á honum, því að þá er ekki hægt að fá lán gegn sama veði, nema kannske eitthvað lítið eitt. Jeg get kannast við það, að þetta er mjög misnotað, og jeg álít, að það beri vandlega að athugast, ef vel á að vera. Meðan þessi sjóveðrjettur helst, eru miklir annmarkar á rekstri smáútgerðarinnar, en þessu ætti að breyta þannig, að sjómenn væru aldrei ráðnir nema upp á hlut. Jeg hjó eftir því, að hv. 4. landsk. sagði, að ef slík lán sem þessi ættu að koma að notum, þá ættu samvinnufjelög sjómanna að fá þau. (JBald: Jeg átti þar við veðlánasjóð fiskimanna). Þetta getur ekki átt sjer stað, ef þau vilja ekki fá sjóveðrjettinn afnuminn, því að þá hafa þau ekki önnur veð að setja en báta. Jeg vil ennfremur benda á það, að frv. hv. 4. landsk. fer í þá átt, að sjómenn fái tryggingar í skipunum, en nú á kaupið að vera hlutur af aflanum, og þá virðist það nokkurnveginn örugt, að þeir fái sitt, ef þeir fastsetja aflann, og frekari tryggingar virðast því óþarfar. Jeg mun því ekki geta fylgt því, að smábátaútgerð verði heimiluð lánskjör, ef hún getur svo ekki notið eigna sinna. Það er að taka aftur með annari hendinni það sem gefið er með hinni. Jeg geri ráð fyrir, að ekki verði hægt að afgreiða mál þetta í lagaformi á þessu þingi, því að enn er óvíst, hvernig sjútvn. kann að fara með það, en tíminn mun þegar vera orðinn nokkuð naumur.

Jeg vil aðeins geta þess að endingu, að stefna sú, sem hv. 4. landsk. fylgir, er hann vill halda við sjóveðrjetti í smærri skipum, gengur aðeins í þá átt, að halda fram hagsmunum sjómanna, en traðka rjett útvegsmanna undir fótum. En jeg skil ekki í því að sjómenn hagnist mikið, þótt smáútvegur legðist í kaldakol. Jeg mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en jeg taldi rjett, að láta ekki ummælum hv. 4. landsk. ómótmælt, því að þessar tvær stefnur, sem hjer eru uppi, geta ekki samrýmst.