18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Halldór Steinsson):

Það má segja, að þessi vesalings atvinnuvegur, smábátaútvegurinn, eigi ekki sjerlega upp á pallborðið hjá sumum hv. þm. Á þinginu í fyrra komu fram þrjár tilraunir til þess að bæta hag þessa útvegs.

Í fyrsta lagi var flutt frv. um rekstrarlánafjelög, sem meðal annars fól í sjer þau ákvæði, að bátaútvegurinn gæti fengið hagkvæm lán. Það er öllum kunnugt, hvernig fór um það frv., að það dagaði uppi hjer á þingi.

Önnur tilraunin var sú, að hv. 4. landsk. (JBald) kom hjer í Ed. fram með sama frv., sem hann flutti hjer nú, um veðlánasjóð fiskimanna. Það dagaði einnig uppi.

Þriðja tilraunin er frv. um Fiskiveiðasjóð í Nd. sem heldur ekki varð útrætt, en mikið ósamkomulag varð um. Þetta kalla jeg allharkalega aðferð við þennan mikla útveg, sem rekinn er af smábátum hjer á landi.

Á þessu þingi hafa komið fram tvær tilraunir í þessa átt, sem sje frv. frá hv. 4. landsk. (JBald) um veðlánadeild, og svo þetta frv. um Fiskiveiðasjóð. Þó að það frv. bæti ekki úr öllum þeim þörfum, sem þessi útvegur hefir, þá verð jeg að segja, að það er mikil bót frá því, sem er. Og ef byrjað væri í smáum stíl, væri altaf hægt að bæta við. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að það kom fram í Nd. brtt. við Búnaðarbankann, sem fól í sjer, að einmitt smábátaútvegurinn gæti orðið nokkurra hlunninda aðnjótandi. Þessi till. var feld. Það eru með öðrum orðum allar dyr lokaðar fyrir þessum útvegi. Hvað á það að ganga lengi? Það er búið að þvæla um þetta mál á þingi í þrjú ár, og jeg sje ekki, hvaða alvara er í mönnum að ráða bót hjer á, ef nú á þessu þingi á að tefja þá einustu tilraun, sem úr þessu getur komið þessum atvinnuvegi að notum, og sem allir viðurkenna, að sje til bóta. Þess vegna vil jeg fastlega mælast til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.