18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg vil aðeins segja, út af því frv., sem er næst á dagskrá og skylt er þessu, að jeg verð að sætta mig við þessa meðferð málsins, úr því sem komið er, að því verði vísað til stj. Jeg get það frekar fyrir það, að hæstv. atvmrh. hefir gefið alveg skýlausa yfirlýsingu undir umræðunum um Búnaðarbankann í Nd., að hann skyldi nú milli þinga taka til rannsóknar og láta undirbúa frv. um lánsstofnun fyrir bátaútveginn og leggja fyrir næsta þing. Og vegna þessa loforðs ráðh. kom jeg ekki með sjerstakt nál. um veðlánasjóð fiskimanna úr fjhn. En það að frv. lá frá þingbyrjun og til þingloka hjá n., var af því, að meiri hl. n. leit svo á, að það ætti að bíða þangað til frv. um Fiskiveiðasjóð — sem er um svipað efni — kæmi hingað frá hv. Nd., og mætti þá hafa hliðsjón af báðum frv. við afgr. málsins. Jeg kaus því heldur að bíða, svo sem jeg sagði áður.

Jeg vil að lokum lýsa óánægju minni yfir einu ákvæði um Fiskiveiðasjóðinn, en það er niðurfelling sjóveðsins, svo sem jeg hefi áður vikið að.

Annars verð jeg að láta staðar numið um þetta mál, og sætta mig við að láta það fara til stj., með tilliti til hinnar skýlausu yfirlýsingar frá hæstv. atvmrh. um að undirbúa málið undir næsta þing.