01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta mál var borið fram hjer á síðasta þingi, og lá hjá nefnd nokkra hríð til athugunar. En það var ekki tími til að ganga frá málinu þar, og því það ráð tekið, að vísa því til stjórnarinnar, í von um, að hún mundi taka málið til yfirvegunar til næsta þings og gera till. sínar um það.

Nú er hvorugur hæstv. ráðherra viðstaddur og jeg hefi ekki talað við þá um málið, og veit því ekki, hvað stjórnin hefir gert í því. En svo mikið er víst, að engar till. eru enn komnar frá henni. Hins vegar er komið fram frv. í Nd., sem einnig ætlar að nota fiskiveiðasjóðinn sem stofn. Er það svipað frumvarpi, sem þar var á ferð í fyrra. Mjer er og sagt, að von sje á þriðja frv., sem fer fram á að nota fiskiveiðasjóðinn sem lánsstofnun með einhverri annari tilhögun.

Það, sem felst í þessu frv., sem jeg ber fram, er eingöngu að lána mönnum út á veiddan afla. Jeg veit, að það mun líka þörf á að lána mönnum til útgerðarinnar, áður en byrjað er á verkinu; en þeir, sem þess þurfa, eiga aðgang að bönkunum, og munu þar fá nokkur lán, svo sem til veiðarfærakaupa og annars slíks. Það eru líka til lög, sem heimila bönkunum að lána út á fisk gegn veði í fiski, sem er í sjálfsvörslu útgerðarmanns. Lánastarfsemin samkv. þessu frv. er hugsuð á sama hátt en ætlast til, að það sjeu deildir víðsvegar um landið, sem starfa í fiskiverunum. Með því móti verður hægt að lána hinum smærri útgerðarmönnum og hlutatökumönnum út á fiskinn á hverjum stað, sem annars ekki ná til lánsstofnana, og eiga engan annan kost en að selja fiskinn kaupmönnum, sem vilja kaupa hann á hverjum stað, og með því verði, sem þeir vilja fyrir hann gefa.

Þetta mál hefir vakið talsverða athygli kringum landið. Jeg hefi fengið fjölda brjefa um það frá sjómönnum og smærri útgerðamönnum, sem óska þess að málið komist áleiðis, af því að það er hjer um bil ómögulegt fyrir þessa menn að ná til nokkurra þeirra, sem vilja lána þeim út á fiskinn, þótt vitanlegt sje, að hann sje það eina verðmæti, sem þeir eiga yfir að ráða. Og fiskurinn er í sínu verði, ef ekki er lánað út á hann meira en gangverðið er, eða fyrirsjáanlegt að það verði. Þetta er hættulaust, en gerir verslun miklu hagkvæmari og auðveldara að skapa fiskimönnum atvinnu við að verka fiskinn. Og sennilega verður upp úr því stofnað til samvinnu milli manna um að selja fisk í stórum hlutum, svo að menn þurfi ekki að neyðast til þess — eins og nú — að selja í smápörtum til kaupmanna, sem selja svo til útlendra milliliða eða fiskkaupmanna í landinu. Mundu menn þá að öllum jafnaði fá talsvert hærra verð fyrir fiskinn.

Það er talinn mikill hagnaður að því að verka fiskinn og selja fullverkaðan, þó að sá hagnaður sje að vísu breytilegur í einstökum árum.

Um þetta mál var rætt alment og ítarlega á síðasta þingi, og jeg sje ekki ástæðu til að víkja frekar að því nú. Því var tekið vel þá.

En jeg hefði æskt eftir, að hæstv. atvmrh. hefði verið hjer viðstaddur, til að segja frá aðgerðum stjórnarinnar í málinu síðan í fyrra.

Það er svo mikið verk að samræma till. þær viðvíkjandi Fiskiveiðasjóði, sem fyrir þinginu liggja, og koma upp fiskiveiðabanka, að jeg býst varla við, að það verði gert í þingnefnd. Það yrði að vera verk stjórnarinnar, eða að minsta kosti nefndar, sem starfaði milli þinga.

Hins vegar getur þingið afgr. eina grein af þessu máli, sem er alveg heilsteypt, svo sem þetta frv.

Jeg legg til, að frv. verði vísað til sömu nefndar og fjallaði um það í fyrra, en það var hv. fjhn.