01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Snæf. (HSteins) tók sæmilega á móti þessu frv., er það var á ferðinni hjer í fyrra, og virtist vera ánægður með það þá. En nú kveður við annan tón. Nú telur hann frv. óalandi og óferjandi með öllu.

Það, sem okkur greinir á, er það, að hann vill hjálpa kaupmönnum og bátaeigendum, en jeg ber hina fyrir brjósti, sem taka kaup sitt í aflahlutum og eiga ekki aðra úrkosti en að selja aflann við því verði, sem kaupmennirnir ákveða. En jeg er hræddur um, að hv. þm. Snæf. hafi talað of mikið við kaupmenn í kjördæmi sínu um málið milli þinga, en of lítið við fiskimennina, og að það valdi þeirri breytingu, sem orðið hefir á hugarfari hans til frv. Að minsta kosti get jeg ekki skilið ummæli hans á aðra leið en að þau stefni til fulls fjandskapar við málið.

Hv. þm. fór út í einstakar gr. frv. í ræðu sinni. Jeg er hræddur um, að hann hefði orðið þungur á brúnina, ef þm. hefðu leyft sjer slíkt við 1. umr., þegar hann sat í forsetastól, sællar minningar. Hv. þm. segir, að hinn góði tilgangur frv. sje eyðilagður með hinum seinni gr. þess. Hann mun víst aðallega eiga við 6. gr., en hún fer fram á að lána út á afla, svo að fiskimenn sjeu ekki tilneyddir að selja kaupmönnunum fiskinn við því verði, sem þeir setja á hann. Hann hefir það út á þetta að setja, að mest þörf sje lána áður en útgerðin byrjar; með öðrum orðum, að fyrst og fremst þurfi að sjá útgerðarmönnum fyrir lánum. En það er ekki tilgangur þessa sjóðs að lána út á fasteignir. Þeir, sem þær eiga, geta snúið sjer til bankanna og veðdeilda. En jeg vil ekki fara frekar út í þetta atriði. Það lýsir því fádæma skilningsleysi á eðli þessa máls og kjörum fiskimannanna. Hv. þm. álítur, að fyrirkomulag sjóðsins sje hættulegt, og muni leiða til tapa á honum, þar eð ekki sje um neina tryggingu að ræða. En hvað segir þessi sami hv. þm. um þá starfsemi bankanna, að lána stórútgerðarmönnum, útgerðarfjelögum og fiskikaupmönnum út á fisk í sjálfsvörslu, svo sem nú er gert? Þessi lán eru alment talin trygg í alla staði. Hv. þm. Snæf. hlýtur því að álíta, að fiskimennirnir sjeu óáreiðanlegri og verri menn yfirleitt en stórútgerðarmennirnir og fiskikaupmennirnir, því að hann hlýtur að vita, að bankarnir lána þeim út á fiskinn. En það er mótsögn, að trygt sje að lána stórútgerðarmönnum út á væntanlegan afla, en ekki að lána fiskimönnum út á það sama. Það, að hv. þm. Snæf. álítur hættulaust að lána kaupmönnum með þessu fyrirkomulagi, sýnir það eitt, að það eru þeir, sem hann ber fyrst og fremst fyrir brjósti.

Jeg gat þess áðan, að jeg hefði fengið tilmæli víðsvegar að, um að taka þetta mál upp að nýju. Þau tilmæli komu frá hlutamönnunum, fiskimönnunum sjálfum, en ekki frá kaupmönnum, sem hafa aðgang að bönkunum og hafa svo mikinn fisk undir hendi, að það borgar sig fyrir þá að fara í lánsstofnanirnar; en það gerir það ekki fyrir hina fátæku fiskimenn, sem hafa aðeins umráð yfir nokkrum hundruðum punda af fiski. Eina leiðin til að hjálpa þeim, er sú leið, sem farin er í þessu frv.

Hv. þm. Snæf. sagði, að það væru of fáir staðir, sem nytu góðs af þessum sjóði, ef stofnaður væri. í frv. er gert ráð fyrir vissum deildafjölda innan sjóðsins, og ef hv. deild vill koma með breytingar í þá átt, að fjölga þeim, þá skal ekki standa á mjer. Það er fjarri því, að jeg sje á móti því, að sjóðsdeildirnar verði fleiri. Og að þeirri breytingu er jeg fús að vinna í samvinnu við hv. þm. Snæf. En hitt get jeg ekki tekið vel upp hjá honum, þegar hann gerir fiskimönnunum svo rangt til, að telja þá verri skuldunauta en kaupmenn.